Sigurvegarar í bókmenntasamkeppni

Einar Lövdahl og Anna Hafþórsdóttir vinningshafar
Einar Lövdahl og Anna Hafþórsdóttir vinningshafar Ljósmynd/Aðsend

Anna Hafþórsdóttir og Einar Lövdahl eru vinningshafar handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar Raddir, sem haldin var í fjórða sinn á dögunum. Skilyrði fyrir þátttöku er að höfundur handrits hafi ekki gefið út fleiri en eitt prósaverk áður hjá atvinnuforlagi.

Alls bárust 47 handrit til dómnefndar sem hafði úr vöndu að ráða. Dómnefnd skipuðu Silja Aðalsteinsdóttir, rithöfundur og ritstjóri, Atli Bollason, bókmenntafræðingur, og Sigríður Rögnvaldsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu.

Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur er áhrifarík saga um flókin fjölskyldutengsl, áföll og samskiptaleysi en líka um ástina og lífið. Sagan segir frá Rakel en daginn sem kærastinn hennar yfirgefur hana fer tilvera hennar á hvolf. Áfallið er mikið því Rakel, sem ólst upp við erfiðar aðstæður, hefur ekkert samband við fjölskyldu sína og á fáa vini. En þegar hún óttast að vera að missa tökin fær hún óvænta heimsókn.

Þetta er fyrsta skáldsaga Önnu sem áður hefur sent frá sér smásögur og ljóð. Anna er leikkona, handritshöfundur og með Bs gráðu í tölvunarfræði. Hún útskrifaðist með meistaragráðu úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2019.

Anna Hafþórsdóttir & Einar Lövdahl
Anna Hafþórsdóttir & Einar Lövdahl Ljósmynd/Aðsend

Í miðju mannhafi er fyrsta skáldverk Einars Lövdahl en í henni eru átta smásögur úr samtímanum, litaðar hlýju, húmor, angurværð og hreinskilinni nálgun á karlmennsku: Örþrifaráð til að safna skeggi, óbærilegt stefnumót og hvernig má niðurlægja aðra í góðu gríni.

Einar hefur áður gefið út bókina Aron – sagan mín þar sem hann skrásetti sögu Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða karlalandsliðsins í knattspyrnu. Einnig samdi hann textann við lagið Ef ástin er hrein ásamt Jóni Jónssyni sem er eitt vinsælasta lag landsins það sem af er ári.

mbl.is