Draumurinn rættist þegar Guðný eignaðist sitt eigið fyrirtæki

Guðný Stefánsdóttir eigandi Ramba.
Guðný Stefánsdóttir eigandi Ramba.

Guðný Stefánsdóttir er alin upp í skóbúð foreldra sinna en þau ráku Bianco í 11 ár. Eftir að þau hættu með skóverslunina fór Guðný að vinna í Vero Moda og Snúrunni. Fyrir ári síðan, þegar hún var í fæðingarorlofi, lét hún drauminn rætast og opnaði vefverslunina Ramba. 

Guðný er 35 ára, þriggja barna móðir og eiginkona. Hún játar að henni líði best þegar hún hafi nóg að gera og sé með mörg járn í eldinum.

„Það fer þó ekki alltaf vel saman að vilja hafa nóg að gera og vera gleymin sem ég er mjög. En með þrautseigjunni gengur þetta allt upp á endanum,“ segir hún.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stofna fyrirtækið?

„Foreldrar mínir áttu skóbúð í 11 ár og ég vann þar með skóla. Eftir að þau seldu hef ég samt verið í þessum verslunarbransa, svo ég kann sitthvað á því sviði. Mig hefur lengi langað að stofna mitt eigið fyrirtæki og það tækifæri gafst svo þegar ég var í fæðingarorlofi fyrir ári síðan. Þá ákváðum ég og maðurinn minn að slá til. Hann hefur alltaf hvatt mig til að gera eitthvað sjálf og því var þetta gott tækifæri. Þó ég hafi reynsluna á þessu sviði get ég ekki sagt að ég sé ein í þessu því maðurinn minn er algjör klettur og styður vel við bakið á mér. Síðan sinnum við fyrirtækinu bæði sem er ótrúlega skemmtilegt. Fyrir utan manninn minn þá eru fjölskyldur okkar ómetanlegur stuðningur. Einnig hafa vinir og vinkonur stokkið til og aðstoðað þegar mikið er að gera og fyrir það erum við mjög þakklát. Ramba hefur farið mjög vel af stað og myndi ekki ganga svona vel ef ekki væri fyrir fólkið í kringum okkur,“ segir Guðný.

Hvað eru Íslendingar mest að kaupa þessa dagana?

„Picnic vörurnar okkar hafa verið þær allra vinsælustu hjá okkur og gaman að hafa verið fyrsta verslunin til að byrja að selja þær hér á landi. Þetta er falleg akrýl plast lína sem hentar vel fyrir ferðalagið, heita pottinn, pallinn og margt fleira. Við erum mjög stolt og þakklát fyrir hvað fólk hefur tekið vel í þessar vörur,“ segir hún.

Hefur þú alltaf haft áhuga á að hafa fallegt í kringum þig?

„Já, alla tíð hef ég haft gaman að hafa fínt í kringum mig. Mér líður best að hafa hreint í kringum mig og þrífst ekki vel í óreiðu. Ég er síðust að sofa því ég vil vakna með allt á sínum stað.“

Hvernig er stíllinn á þínu eigin heimili?

„Dönsk hlýleg heimili hafa alltaf heillað mig. Ég sæki mér innblástur í dönsk blöð sem dæmi. Heimilið okkar er ekki stórt í fermetrum en það er mjög hlýlegt og huggulegt,“ segir hún.

Hver er þinn uppáhalds hlutur?

„Ég á mér þrjá uppáhalds hluti: Mynd eftir Kristjönu Williams sem amma mín og afi gáfu okkur í brúðkaupsgjöf. Sófaborðin frá Kristina Dam sem við seljum hjá Ramba og Y stólarnir frá Carl Hansen og Søn.“

Hvað drífur þig áfram í starfinu?

„Það sem drífur mig áfram er hvað ég hef gaman að þessu og áhugi minn á fallegri hönnun og að hafa fallegt í kringum mig. Svo er ég svo þakklát fyrir viðtökurnar sem Ramba hefur fengið að það drífur mig áfram að gera betur.“

Ertu með eitthvað gott ráð ef fólk vill hafa örlítið hlýlegra heima hjá sér?

„Fallegar myndir, hlýlegir litir á veggina, blóm og kerti gera heimilið alltaf hlýlegt,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál