Þóra leikstýrir stórum þáttum í Bretlandi

Þóra Hilmarsdóttir leikstýrir The Rising.
Þóra Hilmarsdóttir leikstýrir The Rising. Ljósmynd/Saga Sig

Leikstjórinn Þóra Hilmarsdóttir leikstýrir um þessar mundir bresku þáttunum The Rising. Þættirnir eru framleiddir af Sky Studios. Þetta eru ekki fyrstu þættirnir sem Þóra leikstýrir en hún leikstýrði tveimur þáttum af Broti og einum þætti af Netflix-þáttaröðinni Kötlu sem er væntanleg 17. júní.

The Rising segja sögu Neve Kelly sem uppgötvar að hún er látin. Hún einsetur sér að finna morðingja sinn og tryggja að hann fái makleg málagjöld. Tökur eru hafnar í Bretlandi og stefnt er að því að þættirnir komi út á næsta ári.

Þóra gaf út stuttmyndina Frelsun (e. Salvation) árið 2017 og hefur sú mynd vakið athygli erlendis. Þáttagerðin er þó mun vinsælli um þessar mundir og meira að gera. „Sjónvarpsþáttagerðin er svo sterk núna að það er erfiðara að koma kvikmyndum í framleiðslu. Þar spilar heimsfaraldurinn líka inn í því færri fara í bíó og færri stórar kvikmyndir hafa verið fumsýndar síðustu misseri,“ segir Þóra.

Með kvikmyndaáhuga alla ævi

„Frá barnsaldri hef ég haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Pabbi minn var kvikmyndagagnrýnandi og ég fékk allar bíómyndir beint í æð. Þá fékk ég stundum að fara með honum í bíó og hann fékk margar bíómyndir sendar heim,“ segir Þóra.

„Það er þetta sögusagnarform sem heillaði mig svo mikið. Og svo listin líka. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á að fara í listnám, sem ég og gerði, og þetta form sameinar öll mín helstu áhugamál, list, arkitektúr og sögur.“

Þóra lærði við Central St. Martins-háskólann í Bretlandi þar sem listin og kvikmyndagerðin blönduðust saman. „Það small allt saman í kvikmyndagerð. Það er erfitt að fara út í þennan bransa, maður þarf að vera ótrúlega þolinmóður og hafa mikla trú á sér,“ segir hún.

„Ég held að ég geti litið til baka alveg í æsku og séð að þetta var oft frekar augljóst hjá mér. Ég hafði áhuga á ljósmyndun, setja upp leikrit og stjórna ýmsum vinum eða frænkum í uppsetningum á leikritum.“

„Ég held að ég geti litið til baka alveg í …
„Ég held að ég geti litið til baka alveg í æsku og séð að þetta var oft frekar augljóst hjá mér. Ég hafði áhuga á ljósmyndun, setja upp leikrit og stjórna ýmsum vinum eða frænkum í uppsetningum á leikritum.“ Ljósmynd/Saga Sig

Bransinn sem Þóra starfar í þykir mjög karllægur og er það aðeins á síðustu árum sem konur hafa fengið viðurkenningu fyrir störf sín sem leikstjórar. „Mig langar ekkert endilega að vera flokkuð sem kvenleikstjóri þó að mér finnist það ágætur kostur. Mig langar bara að vera góður leikstjóri sem fjallar um áhugaverðar sögur og karaktera.“

Hún segir ekki svo ólíkt að vinna að þáttagerð hér á Íslandi eða úti í Bretlandi. „Við erum öll að tala sama tungumálið þegar kemur að vinnunni. Hér úti er batteríið aðeins stærra, fleiri í hverri grein og með sitt sérsvið. En þetta er líka bara stærri framleiðsla,“ segir Þóra.

„Við Íslendingar erum komnir svo framarlega í kvikmyndagerð. Ég tek stundum eftir hlutum hér úti sem mér finnst betur staðið að á Íslandi.“

Þóra hefur einnig leikstýrt fjölda tónlistarmyndbanda og auglýsinga. Á síðasta ári leikstýrði hún auglýsingu símafyrirtækisins Nova sem vakti mikla athygli, þar sem allir voru allsberir í henni. Þóra og kvikmyndafyrirtækið Skot unnu Lúðurinn fyrir auglýsinguna.

Þegar framleiðsla The Rising klárast er ýmislegt á döfinni hjá Þóru. Þær Snjólaug Lúðvíksdóttir handritshöfundur eru með handritið að Konum eftir Steinar Braga tilbúið og bíða eftir hentugum tíma til að gera hana. Þar að auki er hún með þáttaverkefni á frumstigi, bæði hér heima og erlendis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »