Missti foreldri, systur og fóstur en hjálpar nú fólki að lifa betra lífi

Ingibjörg Björnsdóttir hefur ýmsa fjöruna sopið í lífinu. Hún hefur fengið brjóstakrabbamein, misst foreldri, systkini og fóstur. Hún starfaði í blaða-og fréttamennsku en flutti til Bretlands fyrir átta árum til að leita uppi ævintýri. Í dag hjálpar hún fólki að lifa betra lífi og laða til sín það sem gerir lífið betra. 

Ingibjörg er sveitastelpa úr Mýrdalnum og segist hafa alist upp við mikið frelsi með Eyjafjallajökul og Dyrhólaey fyrir augunum. Þegar hún flutti til Bretlands fyrir átta árum breytti hún um þankagang.

„Þá fór ég meðvitað að setja traust mitt á alheiminn því það er talsvert átak að fara úr öruggri vinnu í lausamennsku og treysta því að fá næg verkefni í hverjum mánuði. Nú bý ég í Edinborg og var lengi vel að skrifa og stunda uppistand en eftir veikindi langaði mig hins vegar að breyta um stefnu. Svo skall heimsfaraldurinn á svo ég nýtti tækifærið til að hefja nýjan kafla í lífinu, stofnaði Heal Live Love, sel smávöru tengda sjálfsrækt og veiti fólki leiðsögn sem langar til að bæta líf sitt en veit kannski ekki hvar á að byrja. Fólk sem er pínulítið týnt eftir mikla lífsreynslu, svona svipað og ég var,“ segir Ingibjörg sem kallar vinnu sína sjálfsræktarleiðsögn. Hún segir að það gefi sér mikið að hjálpa fólki að fá meira út úr lífinu, ná markmiðum sínum og láta draumana rætast.

„Það varð eitthvað svo áþreifanlegt að við eigum bara eitt líf og ættum að nýta það sem best,“ segir hún. 

Hvað varð til þess að þú leiddist út á heilsubrautina?

„Ég fór að pæla aðeins meira í eigin líkama og heilsu eftir að vinkona mín fékk brjóstakrabbamein þegar við vorum enn á þrítugsaldri. Systir mín var líka alla tíð með sjálfsofnæmissjúkdóm en ég mjög heilsuhraust, þar til ég greindist með vanvirkan skjaldkirtil fyrir sjö árum sem var nú ekkert í líkingu við hennar veikindi, en þannig sá ég hvað ég væri búin að vera heppin fram að því og ég ætti nú kannski skilið að fara betur með sjálfa mig. Svo ég var byrjuð að prófa allskonar hluti, gera tilraunir með mataræðið og ýmsa sjálfsrækt þegar ég svo greindist með brjóstakrabba árið 2018. Þá var ég líka nýbúin að missa fóstur þannig að það beið mín frekar mikil vinna í að endurbyggja mig líkamlega og andlega þegar krabbameinsmeðferðinni lauk. Þá tók heimsfaraldurinn við svo ég fékk gott tóm til þess! Ég er nú engin „heilsufrík“ en er orðin mun betri við sjálfa mig en áður, og þá er ég ekki að meina að ég láti eftir mér að borða snakk, nammi og kökur daglega,“ segir Ingibjörg.

Hvar lærðir þú að gera það sem þú gerir?

„Veistu, lífið er búið að kenna mér mest og allt það góða fólk sem hefur fylgt mér í gegnum það. Mér hefur alltaf þótt ég hafa átt gott líf og verið ótrúlega heppin, svo mér brá dálítið þegar góð kona sagði við mig „Það má segja að þú sért með gráðu í áföllum“ því mér hafði fundist líf mitt ósköp venjulegt, bara með áföllum eins og gengur og gerist en hafði heldur aldrei gert þá kröfu að lífið gengi áfallalaust fyrir sig. Vissulega hef ég upplifað ýmislegt, missti pabba minn úr heilaæxli 18 ára, ólst upp með langveikri systur og missti hana svo um fertugt úr skelfilegum heilavírus, mamma mín er að hverfa vegna Alzheimer-sjúkdómsins og eftir að krabbamein hafði ógnað og tekið frá mér ástvini í gegnum tíðina fékk ég það sjálf, ofan í fósturmissi. Ég er því búin að læra helling um lífið, fólk og margvísleg viðbrögð þess, en ekki síst sjálfa mig. Svo hef ég nýtt síðustu tvö árin til að sökkva mér í sjálfsrækt, lesa mér til, sækja námskeið á netinu og fá leiðsögn um ýmislegt. Ég hef hellt mér út í jóga, líkamsrækt, hugleiðslu og slökun, tekið námskeið í HAM, innhverfri íhugun, aðlöðunarlögmálinu og fleiru. Ég blanda þessu saman eftir því hvers hver og einn skjólstæðingur þarfnast til að taka fyrstu skrefin í átt að betra lífi, og hversu móttækilegur hann er. Ekki síst flétta ég inn í leiðsögnina sjálfsstyrkingu, sjálfsást og máttinn til að laða til sín. Við eigum nefnilega öll skilið að lifa draumalífinu okkar,“ segir hún. 


Út á hvað gengur aðlöðunarlögmálið?  

„Eins og nafnið gefur til kynna er þetta lögmál, líkt og þyngdarlögmálið, sem felst í því að við getum öll laðað til okkar það sem við viljum. Það eru til ýmsar aðferðir og æfingar til að tileinka sér þessa tækni, ritunaræfingar, draumaspjöld og þess háttar og til að byrja með er best að flækja málin ekki of mikið, laða til sín tiltölulega einfalda hluti til að æfa sig og byggja upp trúna á þennan mátt. Það segir sig sjálft að ef þú trúir ekki á þetta og hugsar „Þetta Aðlöðunarlögmál virkar ekkert“ þá auðvitað virkar það ekki og þar með hefurðu í raun sannað tilvist þess! En ef þú byggir upp þessa trú, eða vissu, og gerir ákveðnar hugaræfingar reglulega til að breyta orkunni sem þú gefur frá þér og laða til þín góða hluti, þá verður þetta bara hversdagslegt og þú þarft ekkert að hafa mikið fyrir því að fá allt það sem þú vilt. Oprah Winfrey er til dæmis svo flink í þessu að hún þarf ekki lengur að skrifa niður eða búa til draumaspjald – hún bara stillir sig inn á þessa orku í huganum og kallar til sín það sem hún vill. Þetta snýst heldur ekkert um að laða til sín eitthvað stórkostlegt í hvert sinn, bara að finna gott bílastæði, fá frían kaffibolla eða einhverja óvænta gjöf akkúrat á réttum tíma.“

Í kvöld verður Ingibjörg með málstofu á netinu þar sem fólk getur lært að besta sig. 

Þetta er í fyrsta sinn sem ég held svona netmálstofu á íslensku svo ég er í óða önn að þýða hugtök og æfa mig í að tala um þetta á góðri íslensku. Mig langaði bara að prófa hvort áhugi væri á þessum „fræðum“ á Íslandi svo ég ætla að halda þriggja klukkustunda málstofu áZoom í kvöld. Þar ætla ég að kynna þetta fyrirbæri, fara yfir reynslu mína af Aðlöðunarmættinum, kenna byrjunaræfingar og svara spurningum. Þau sem skrá sig en geta ekki fylgst með í beinni fá samt aðgang að upptöku í eina viku á eftir. Auðvitað væri best að geta verið með í kvöld og taka þátt í umræðunum. Eftir þessa málstofu getur fólk svo hellt sér í að laða til sín hluti og mér finnst alltaf mjög gaman að heyra hvernig þátttakendum hafi gengið síðar meir.  Ég var dálítið hikandi við að afhjúpa mig svona fyrir Íslendingum sem einhvern „furðufugl“ og var búin undir að vera skotin í kaf því mér finnst Íslendingar ekkert sérstaklega opnir fyrir svona „andans málum“ en hef síðan fundið fyrir miklum áhuga og forvitni. Sem er kannski ekkert skrítið því að lífsmottó Íslendinga, „Þetta reddast“ er ekkert annað en Aðlöðunarmátturinn í hnotskurn,“ segir Ingibjörg. 


Fyrir hverja er þetta?

„Bara öll sem eru forvitin um Aðlöðunarlögmálið og Aðlöðunarmáttinn, jafnvel þótt þau séu ekki viss um að þetta sé neitt fyrir sig. Ég læt þátttakendur hafa leslista til að þau geti kafað dýpra í málefnið ef þau vilja, mörg hafa heyrt af þessu í gegnum til dæmis The Secret bókina og myndirnar en verið óviss um hvernig þau ættu að bera sig að, svo þessi málstofa er fínn byrjunarreitur. Það fylgja þessu engar kvaðir, ég er ekki að plata fólk í neitt költ, þetta er bara ég að segja frá hvernig ég nýti þessa tækni, kenna æfingar og hvetja fólk til að teygja sig upp í færiband Alheimsins. Ég er búin að fá nokkur feimnisleg skilaboð frá bæði fólki sem er búið að skrá sig og ekki, en það þarf ekkert að vera hrætt við að skrá sig. Þátttakendum er í sjálfsvald sett hvort þau sitja málstofuna undir nafni og sýni andlit sitt eða ekki, það er að segja fyrir öðrum þátttakendum. Það er kosturinn við svona netmálstofur ef fólk er feimið,“ segir hún. 

Hver er mesti árangur sem þú hefur orðið vitni að?

„Ég er náttúrulega bundin trúnaði við mína skjólstæðinga og dæmin frá þeim eru oft viðkvæm og annars eðlis en að laða til sín til dæmis peninga eða draumabílinn. Ég sjálf hef oft upplifað árangur sem kemur meira að segja mér á óvart. Ætli það magnaðasta hafi ekki verið í fyrra, þá ákvað ég að gamni að auka söluna um 25% í ágúst frá mánuðinum áður. Ég reiknaði út hver lokatalan ætti að vera, hugsaði um hana á hverjum degi, gerði dagbókaræfingar og sá fyrir mér að þann 1. september myndi ég sjá þessa lokatölu á tölvuskjánum. Að kvöldi 31. ágúst fletti ég sölutölum mánaðarins upp og sá að mig vantaði £44 upp á að ná þessari lokatölu, en fannst ég þó hafa komist glettilega nálægt markmiðinu og vantaði sáralítið upp á 25% aukningu milli mánaða svo ég var bara sátt og þakkaði Alheiminum fyrir. Um hádegi næsta dag fékk ég meldingu í símann um vörupöntun, opnaði tölvuna og sá að einhver nýr viðskiptavinur, manneskja sem ég kunni engin deili á, hafði stofnað aðgang að síðunni minni þann morgun og strax keypt vörur í vefversluninni. Fyrir slétt 44 pund! Ég sver það, ég fékk gæsahúð. Þegar ég lagði þá tölu saman við sölutölur ágústmánaðar fékk ég akkúrat út lokatöluna sem ég hafði stefnt að, nákvæmlega 25% hækkun milli mánaða, svo þarna sat ég og horfði á þá tölu á skjánum þann 1. september eins og ég hafði séð fyrir mér! Ég hafði bara sent Alheiminum ruglandi skilaboð, auðvitað átti ég að biðja um þessa lokatölu á síðasta degi mánaðarins frekar en fyrsta degi næsta mánaðar. Man það næst!“


Hverju breytir það að hugsa út í þessa hluti?

„Til að nýta Aðlöðunarlögmálið þarftu að gæta að því hvernig orku þú sendir frá þér og ég held við getum öll verið sammála um að góð orka, jákvæðni og bjartsýni gera lífið strax betra. Allt gengur miklu betur ef við nýtum þennan mátt og sjáum að alheimurinn er með okkur í liði en ekki á móti. Við komumst líka lengra í lífinu ef við trúum því að við getum það og að við eigum það skilið. Þetta er svipað og með íslenska handboltaliðið, þegar það tapar mikilvægum leik er sagt að það hafi ekki haft trú á sjálfu sér eða trú á sigri, en þegar það vinnur er það fullt sjálfstrausts og hafði trú á sigri allan tímann. Það gildir nákvæmlega það sama um einstaklingana og hver vill ekki leika til sigurs í lífinu sjálfu?“

Ef þig langar að láta drauma þína rætast þá getur þú skráð þig HÉR. 

mbl.is