Ætla að veggfóðra samfélagsmiðla með velgjörðum

Helga Ólafsdóttir framkvæmdastjóri 1881 velgjörðarfélags.
Helga Ólafsdóttir framkvæmdastjóri 1881 velgjörðarfélags. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gefðu fimmu er skemmtilegt hreyfi- og fjáröflunarátak þar sem þátttakendur geta gert sjálfum sér og öðrum gott, gefið til góðs málefnis og skorað á vini, fjölskyldu og samstarfsfélaga að gera slíkt hið sama. 1881 velgjörðarfélag stendur fyrir átakinu en framkvæmdastjóri þess er Helga Ólafsdóttir.

„Það var vorið 2020, þegar heimsfaraldur hafði nánast lamað allt samfélagið, að leiðir okkar fjórmenninganna lágu saman á Vinnustofu Kjarvals. Auk mín standa Hálfdán Steinþórsson einn eigenda Vinnustofu Kjarvals, Jón Gunnar Geirdal hugmyndasmiður og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir fjárfestir að verkefninu. Á Vinnustofu Kjarvals blasti Dómkirkjan og Alþingishúsið við og upp spratt umræða um hlutverk þingsins, réttindabaráttu okkar sem þjóðar og hvort við gætum sinnt betur okkar samfélagslegu skyldum. Úr varð stofnun velgjörðarfélags, sem hefur það hlutverk að styðja og hvetja til góðra verka og velferðar. Við trúum staðfastlega á styrk heildarinnar og að samfélög séu sterkari þegar hæfileikar allra eru nýttir. Hugmyndin að Gefðu fimmu hreyfiáskorun kviknaði þegar við sáum Covid-spálíkanið hans Thor Aspelund myndrænt. Það sýndi svo skýrt hvernig óheftur veldisvöxtur getur breytt fljótt úr sér og kviknaði hugmyndin að nýta þennan sama veldisvöxt í jákvæðara samhengi og nýta virkni hans til að safna. Við lifðum við mjög þröngar fjöldatakmarkanir sem breyttust stöðugt og mikla óvissu um framtíðina en Gefðu fimmu er framkvæmanleg hvort sem 5 eða 500 mega hittast,“ segir Helga og segir að stefnan sé að veggfóðra samfélagsmiðla með áskorunum, stemningu og keppni milli einstaklinga og fyrirtækja.

Gefðu fimmu er fyrsta söfnun 1881 velgjörðarfélags og hefst formlega í dag.

„Með styrk og stuðningi bakhjarla sem greiða fyrir framkvæmdina er tryggt að hver einasta króna sem safnast fer óskert í Fjársjóð barna. Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni sem stuðla að aukinni velsæld, velferð og hamingju barna og hlaut hann heitið Fjársjóður barna vegna þeirrar augljósu staðreyndar að aukinni farsæld barna fylgir jafnframt gríðarlegur fjárhagslegur ávinningur fyrir okkur sem samfélag,“ segir Helga.

Hvernig fer átakið fram?

„Allar upplýsingar um fyrirkomulagið er að finna á heimasíðunni gefdufimmu.is, þar sem þú lofar sjálfum þér að hreyfa þig, ýmist labba, hlaupa eða hjóla, hversu langt þú ætlar og tilgreinir styrktarupphæðina. Síðan sendir þú áskorun á samfélagsmiðlum á fimm vini þína um að gera slíkt hið sama. Fyrir þátttökuna færð þú einnig viðurkenningu til að deila á samfélagsmiðlum og góða samvisku, fyrir að leggja góðu máli lið,“ segir hún.

Hvað ætlar þú sjálf að gera til að gefa fimmu?

„Góð spurning! Ég er löngu búin að ákveða hverjir fá áskorun frá mér en ég var ekki búin að ákveða hvaða hreyfingu ég vel fyrir sjálfa mig. Eigum við ekki að ákveða hér og nú að ég hlaupi 5 km og gefi 50.000 kr.“

Heldur þú að veiran hafi haft meiri áhrif á fólk en við sem samfélag gerum okkur grein fyrir?

„Ég er ekki í neinum vafa um að kórónuveirutímabilið hafi haft mikil áhrif á líf allra. UNICEF á Íslandi gaf út skýrslu fyrir stuttu þar sem sérstaklega er fjallað um skort barna á Íslandi á tómstundastarfi miðað við önnur Evrópuríki. Börn og ungmenni eru fjársjóðurinn okkar og framtíðin, það er okkar allra að styrkja stoðir samfélagsins til að stuðla að auknum jöfnuði og tækifærum fyrir börn.“

Hvað er markmiðið að safna miklum peningum?

„Okkar markmið er að safna góðri átta stafa tölu fyrir Rjóðrið og ég hvet að sjálfsögðu alla til að taka þátt. Rjóðrið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í lífi fjölskyldna langveikra barna. Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á starfsemi Rjóðursins sem hefur þurft að loka allri starfsemi á tímabili. Þrátt fyrir erfiða mánuði ríkir mikil jákvæðni og dugur hjá starfsfólki og börnunum sem þar dvelja og okkar von er að geta veitt þeim veglegan fjárhagslegan stuðning. Markmið Fjársjóðs barna er einnig að styrkja fleiri verkefni í framtíðinni og er það trú okkar og von að landsmenn taki vel í framtakið og geri þátttökuna að léttum og skemmtilegum leik í leiðinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál