Fokk – hver er þessi maður í speglinum?

Bubbi er að undirbúa sig fyrir tónleika í Hörpu í …
Bubbi er að undirbúa sig fyrir tónleika í Hörpu í kvöld. mbl.is/Marinó Flóvent

Það er öðruvísi að tala við Bubba Morthens en marga aðra. Hann lifir í núinu, segir hlutina eins og þeir eru og nennir ekki að velta sér upp úr smáatriðum. Hann veit hver hann er og hvað hann stendur fyrir þótt honum bregði stundum í brún þegar hann sér spegilmynd af sjálfum sér.

Í dag, 16. júní, er útgáfudagur plötunnar Sjálfsmyndar sem er 34. sólóplata Bubba. Hann er tregur að segja fólki frá lögunum á plötunni þar sem hann segir mikilvægt að lögin hitti fólk þar sem það er statt hverju sinni. 

„Um leið og lögin mín eru orðin opinber þá sleppi ég af þeim tökunum enda ekkert meira fyrir mig að gera við þau. 

Hugmyndin á bak við nafn plötunnar er að við þurfum alltaf að nefna afkvæmin okkar og reynum að einhverju leyti að tengja það við eitthvað í okkar nærumhverfi sem hefur áhrif á okkur. Platan heitir Sjálfsmynd vegna þess að plötuumslagið er málverk sem ég málaði af veikum mætti þar sem ég var með mig í huga. 

Þetta er andlit sem ég hef verið að mála og teikna frá barnæsku. Þetta er ég í upphafi níunda áratugarins. Ég var horaður og ekki að fara vel með mig þá. Efnið á plötunni er alls konar. 12 hvítir hestar er sem dæmi um atburð frá fjórða áratug síðustu aldar þar sem Björn Blöndal bóndi og veiðimaður í Stafholtssveit í Borgarfirði var að leiðsegja erlendum veiðimönnum um sveitina. Þar var maður að nafni Webner sem vaknaði upp um miðja nótt til að kasta af sér vatni og sér þá 12 hvíta hesta koma þeysandi yfir Hvítá. Það var ógreinileg mynd af mönnum á hestunum og komst hann að því seinna að þeir sem höfðu skyggnigáfu gátu séð Sturlunga ríða á þing á hvítum hestum.“

Útgáfudagur plötunnar Sjálfsmynd er í dag.
Útgáfudagur plötunnar Sjálfsmynd er í dag.

Bregður stundum þegar hann lítur í spegilinn

Hvaðan færðu þennan kraft Bubbi? Þú ert eins og unglingur í anda og alltaf á uppleið.  

„Ég held ég upplifi mig aldrei í árum talið. Ég upplifi mig í því ástandi sem ég er hverju sinni. Ég er innan um ungt fólk meira og minna alla daga og er sennilega misþroska. Ég hreyfi mig mikið svo kannski er þetta einhvers konar gjöf að hafa þessa forvitni og þessa löngun og þennan lífsþorsta. Þessa gleði yfir því að draga andann. Að hafa komist í gegnum alla þessa brimboða sem ég lenti í standandi. Ég hef verið edrú í 25 ár og án hugbreytandi efna. Ég hugsa sæmilega vel um mig og hef enga skoðun á aldri. Ég geri sem dæmi ekki greinarmun á Bríeti, GDRN eða Auði. Í raun geri ég engan greinarmun á fólki almennt. Þegar ég svo sé mig sjálfan í spegli þá hugsa ég stundum: Fokk  hver er þessi maður? Ég upplifi mig alltaf eins og ég sé þrítugur en með mikla reynslu.“

Að eldast með reisn eins og hann og Kári Stefánsson

Ertu að undirbúa þig fyrir tónleikana í Hörpu í kvöld?

„Já, lífið er núna, á þessari stundu, og í töluðum orðum er ég á leiðinni í gufubað og svo ætla ég að hjóla og sippa smá. Aðalmálið sem ég gantast oft með er að lífið snýst um að reima á sig skóna og gyrða sig.“

Það er alveg á hreinu að það er enginn að fara að gera það fyrir okkur. Ekki satt?

„Ég er sammála því. Tolli bróðir er eins og ég. Ég held að þetta snúist alltaf um hvar þú ert staddur í þínu innra landslagi og mér finnst í mínu innra landslagi alltaf eins og ég sé á toppi fjallsins.

Ef þú hreyfir þig ekki þá hrörnarðu og ef þú vilt eldast með reisn, eins og ég og Kári Stefánsson, þá seturðu hælinn í svörðinn. Því þá rennurðu hægar niður brekkuna. Síðan verður maður auðvitað að vera forvitinn og vera ekki að burðast með fordóma, reiði og almenn fúlheit. Það kemur þér ekki neitt.“

Hvað getur þú sagt mér um tónleikana í Hörpu í kvöld? Hvað er fólk að fara að upplifa?

„Það er að fara að upplifa galdur.“

Hvað áttu við með því?

„Það má ekki upplýsa um galdur. Ég get lofað því að þetta verða geðveikir tónleikar. Þeir stærstu sem hafa verið haldnir í 17 mánuði á Íslandi. Það verða þúsund manns í salnum og síðan verður streymt beint frá þeim. Það er ekki flókið að horfa á streymið. Þú bara sest fyrir framan sjónvarpið og opnar voddið í símanum hjá þér eða hjá Vodafone, finnur viðburðinn og ýtir á græna takkann. Það er fullt af fólki hér með mér að vinna að því að gera útsendinguna geggjaða í hljóði og mynd.“

Setur fókusinn á það sem er jákvætt

Hvernig hefur kórónuveirutíminn farið með þig?

„Kórónuveiran hefur haft áhrif á okkur öll á margs konar vegu. Sum okkar til hins betra og sum til hins verra og allt þar á milli. Ég hef auðvitað ekki getað spilað fyrir framan fólk, sem er alveg glatað. Vegna þess að þetta er fyrst og fremst næring listamannsins og í öðru lagi er búið að svipta 90% af öllu tónlistarfólki öllum tekjum í 17 mánuði. Það er einnig hægt að sjá áhrif þess að fólk hefur ekki getað neytt listar á þessum tíma. Hefur ekki getað farið á listsýningar, í leikhús eða á tónleika. Streymið hefur aðeins bjargað hlutunum fyrir horn hjá mér en annars hefur þetta verið erfitt.

En maður setur ekki fókusinn þangað. Heldur reynir maður að taka fókusinn og færa hann á eitthvað jákvætt. 

Ég elska mig aðeins meira en ég gerði áður og hef stundað það að komast þangað á þessum tíma. Ég hef æft líkamsrækt inni í bílskúr og borðað hollar og hreyft mig meira en að öllu jöfnu. Ég hef einnig notið þess að hlusta á Halldór Kiljan Laxness á RÚV-sarpinum. Þannig að þetta hefur verið ágætis tími. Það hafa allir í kringum mig sloppið við kórónuveiruna. Ég er í besta mögulega formi sem ég gæti verið í 65 ára að aldri. Þannig að ég get ekki annað en verið glaður og þakklátur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál