Sunneva segir vegið að vinnu sinni

Sunneva Ása Weisshappel hannaði leikmynd Kötlu.
Sunneva Ása Weisshappel hannaði leikmynd Kötlu. Ljósmynd/Ása Dýradóttir

Sunneva Ása Weisshappel, leikmyndahönnuður Netflix-þáttanna Kötlu, segir vegið að vinnu sinni í Facebook-færslu nú í morgun. Hún fer ofan í saumana af hverju hún ein var ein titluð leikmyndahönnuður í Kötlu. Með færslunni segist Sunneva svara færslu Arnars Orra Bjarnasonar framkvæmdastjóra hjá Irmu sem gagnrýndi framleiðslufyrirtækið RVK Studios. 

„Það er oft þannig að þegar eitthvað fær mikið lof þá vilja margir eigna sér heiðurinn. Heimir Sverrisson réð sig sem leikmyndahönnuður Kötlu og ég var ráðin sem set decorator, sameiginlega skapa þessi störf listræna stefnu leikmyndarinnar í samstarfi við leikstjóra.

Vegna listrænna ágreininga við leikstjóra þá gekk hann burt frá verkefninu í undirbúningi þess. Í kjölfarið tók ég við starfi leikmyndahönnuðar. Það var ekki auðveld ákvörðun en ég vissi vel að þetta var áskorun sem ég gæti staðist, enda hef ég sterka listræna sýn og hef hlotið mikla þjálfun í stórum leikhúsverkefnum á erlendri grundu. Að auki var verkið einstaklega spennandi og bauð upp á nýstárlegan myndheim og djarfa túlkun á myndmáli og þar liggur styrkur minn.

Það sem risið var af leikmyndinni þegar ég tók við verkefninu voru þrjú ókláruð interior sett í Gufunesi. Það var allt endurhannað sem hægt var nema það sem handritið krafðist. Sagan gerist á Vík í Mýrdal, allt er þakið ösku, bærinn stendur í eyði og þau sett sem höfðu verið valin var notast við, enda valin að mestu af leikstjóra. Heimir kom ekki inn á eitt einasta sett sem myndað er í Kötlu. Það gefur því auga leið að ætla að eigna honum höfundarréttinn er ekkert annað en atvinnurógur.

Mynd úr þáttaröðinni um Kötlu.
Mynd úr þáttaröðinni um Kötlu. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir/ Netflix

Heimir krafðist þess sjálfur í skrifuðu bréfi að vera ekki nefndur í kreditlista verkefnisins því það tók aðra listræna stefnu en hann hafði séð fyrir sér. Það var orðið við þeirri beiðni og þar liggur kjarninn. Þar af leiðandi veita framleiðendur mér kreditið því ég vann verkið og hann kærði sig ekki um það,“ skrifar Sunneva.  

Sunneva segir einnig að hún hefði deilt titlinum með Heimi hefði hann stigið inn í verkefnið aftur. 

„Það er viðurkennt í þessum bransa að ef fólk yfirgefur verkefnið, svo ekki sé talað um áður en tökur hefjast, þá á viðkomandi ekki tilkall til kredits. Það er ekki mikil reisn yfir því að ætla að eigna sér heiðurinn eftir að verkið er komið út, og taka þannig enga ábyrgð á sínum eigin ákvörðunum. Þessi samningur sem hann samþykkir og Irmu menn veifa kveður sérstaklega til um að það sé í valdi framleiðslunnar hvort hann sé kreditaður eða ekki. Ég hefði deilt titlinum með honum ef hann hefði stigið aftur inn, sem hann gerði ekki. Þar með hef ég svarað ásökun Arnars (samstarfsmanns Heimis og meðeiganda Irmu) sem hann birti á feisbúkk og fór kjölfarið í fjölmiðla, um að ég sé ranglega titluð fyrir leikmyndahönnun Kötlu.“ 

mbl.is