Sjóðandi skvísubækur til að lesa í sumar

Þessar bækur eiga ekki eftir að svíkja neinn.
Þessar bækur eiga ekki eftir að svíkja neinn. Ljósmynd/Pexels/Daria Shevtsova

Nú þegar sumarfrí er á næsta leiti hjá mörgum gefst meiri tími til að lesa. Smartland tók saman nokkrar bækur sem verða án efa á náttborðinu í sumar. 

Litla bókabúðin við vatnið eftir Jenny Colgan

Bækur breska rithöfundarins Jenny Colgan ættu að vera Íslendingum kunnar en þær hafa selst vel hér á landi undanfarin ár. Nýjasta bókin frá Colgan er sjálfstætt framhald Litlu bókabúðarinnar í hálöndunum sem sló í gegn fyrir nokkrum árum. Söguhetja þessarar bókar er Zoe sem býr við þröngan kost í London með syni sínum Hari. Þegar Zoe kemst í ómögulega stöðu í London býðst henni að taka við bókabílnum hennar Ninu úr fyrri bók. 

Litla bókabúðin við vatnið er einstaklega notaleg bók og fullkomið að lesa hana á einum af þessum dögum sem maður nennir ekki að gera neitt. 

Leyndarmál eftir Sophie Kinsella

Sophie Kinsella hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem einn besti skvísubókarithöfundur samtímans. Bók hennar Mitt (ó)fullkomna líf sló í gegn síðastliðið sumar og nú er komin ný og fersk bók frá henni. Hún segir frá hinni frekar seinheppnu Emmu Corrigan sem hefur alla sína ævi byrgt inni hin ýmsu leyndarmál. Í byrjun bókar fer hún í flugferð þar sem mikil ókyrrð er í loftinu. Emma, sem er frekar flughrædd, segir ókunna manninum í næsta sæti öll sín leyndarmál sem eru misvandræðaleg. 

Sagan er sprenghlægileg og vel uppbyggð. Hún á án efa heima í bílnum, útilegunni og bústaðnum eða bara hvar sem þú ætlar að vera í sumarfríinu. 

Slétt og brugðið – Skáldsaga eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur

Slétt og brugðið er þriðja skáldsaga Árelíu Eydísar. Bókin er sannkölluð kvennabók sem fjallar um sex konur sem hafa verið í saumaklúbbi í mörg ár. Konurnar standa allar á krossgötum í lífinu og einn daginn ákveða þær að gera eitthvað allt annað en vanalega þegar þær koma saman. 

Ákvörðun þeirra hrindir af stað óvæntri atbburðarás sem á eftir að hafa mikil áhrif á þær allar. 

Bókin er létt og skemmtileg og hægt að spæna hana í sig á einum degi. Á sama tíma er líka mikil dýpt í henni og áhugaverð innsýn í líf ólíkra kvenna. 

mbl.is