Hefur trú á að veturinn geti orðið frjór

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, hvetur ungt …
Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, hvetur ungt fólk til að velja sér nám sem höfðar til áhugasviðs þess og lífsgilda. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emeritus við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, hvetur ungt fólk til að velja sér nám sem höfðar til áhugasviðs þess og lífsgilda. Hún kemur að skipulagningu og kennslu náms í handleiðslufræðum en námið er í umsjón prófessors Steinunnar Hrafnsdóttur. 

Dr. Sigrún Júlíusdóttir starfar fyrir Háskóla Íslands þar sem hún sinnir rannsóknum og völdum kennsluverkefnum. Hún rekur einnig meðferðarþjónustuna Tengsl/Samskiptastöðina þar sem hún veitir einstaklings-, hjóna- og fjölskyldumeðferð sem og skilnaðarráðgjöf.

Þessa dagana er hún meðal annars að undirbúa kennsluverkefni haustsins. Hún kemur að skipulagningu og kennslu náms í handleiðslufræðum en námið er í umsjón prófessors Steinunnar Hrafnsdóttur.

„Einnig vinn ég núna ásamt Gyðu Hjartardóttur félagsráðgjafa að innleiðingu danska þjónustuúrræðisins SES, Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna, sem Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur beitt sér fyrir.“

Gyða Hjartardóttir og Sigrún Júlíusdóttir starfa að innleiðingu SES, Samvinna …
Gyða Hjartardóttir og Sigrún Júlíusdóttir starfa að innleiðingu SES, Samvinna eftir skilnað - barnanna vegna.

Mikill áhugi á diplómalínu í handleiðslufræðum

Hvað getur þú sagt okkur um þriggja missera diplómulínuna í handleiðslufræðum?

„Handleiðslunám var fyrst kennt við Endurmenntunarstofnun árið 2000 til 2001 en síðan við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands árið 2017 til ársins 2019 og svo núna aftur á þessu ári.

Um 20 fagaðilar luku þessu námi bæði skiptin. Fyrri hópurinn stofnaði Handleiðarafélag Íslands, Handís, sem er fagfélag sem beitir sér fyrir þróun og útbreiðslu handleiðslu. Gríðarlegur áhugi er á náminu sem birtist í ótal fyrirspurnum og í vor bárust 47 umsóknir. Af þeim reyndust 32 uppfylla öll skilyrði. Námið hefur sterka vettvangstengingu og er stundað með samþykki yfirmanns. Námið tekur til þriggja vídda, það er fræðilegra fyrirlestra, veittrar einstaklingshandleiðslu á vettvangi og klínísks hluta þar sem þátttakendur vinna með eigin handleiðsluverkefni í hópi. Það er skipað í sex hópa sem eru undir handleiðslu reyndra fagaðila með handleiðsluréttindi. Áhersla er á eflingu fag- og persónuþroska í gegnum námsferlið.“

Hverjir geta sótt þetta nám og hverju þarf að bæta við ef fólk vill fara að starfa við handleiðslu?

„Námið er ætlað þeim sem lokið hafa fimm ára grunn- og starfsréttindanámi á fjölbreyttu sviði velferðarþjónustu s.s. félags-, heilbrigðis-, löggæslu-, mennta- og hegðunarfræða ásamt sálgæslu. Kröfur eru gerðar um trausta starfsreynslu í að minnsta kosti fjögur ár og að hafa sjálfur notið handleiðslu bæði í einstaklings- og hóphandleiðslu. Náminu lýkur með diplómugráðu sem veitir réttindi til að gerast handleiðari í opinberri þjónustu og á einkastofum og það veitir félagsaðild að handleiðarafélagi Íslands.“

Byrjaði háskólakennslu á áttunda áratugnum

Hvernig er að hafa starfað við handleiðslu og kennslu í þau ár sem þú hefur unnið við það?

„Það er orðinn langur tími, en ég byrjaði háskólakennslu á áttunda áratugnum þegar nám í félagsráðgjöf var í undirbúningi við Háskóla Íslands. Ég skipulagði þá fyrstu námsleiðirnar í handleiðslufræðum ásamt Nönnu K. Sigurðardóttur félagsráðgjafa við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Það hefur veitt mér mikla ánægju að taka þátt í spennandi þróun á þessum vettvangi og það eru forréttindi að hafa getað samfléttað þar kennslu, meðferðarvinnu og rannsóknir.“

Hvað getur þú sagt mér um þróun fræðigreinarinnar?

„Þróunin hefur verið ör og frjó en það sem hamlaði í byrjun var skortur á akademískum kennslukröftum en nú hefur umtalsverður fjöldi félagsráðgjafa lokið rannsóknanámi með doktorsprófi. Það skorti einnig nægilega marga starfsþjálfunarkennara á vettvangi til að sjá um og handleiða félagsráðgjafarnema í réttindanámi. Leita þurfti liðsauka að utan til að þróa þá þjálfun með skipulegum námskeiðum. Í dag höfum við á að skipa fjölmörgum hæfum, reyndum og vel þjálfuðum starfsþjálfunarkennurum. Stefnan er í raun svipuð og var frá upphafi en sérfræðisviðum hefur fjölgað. Starfsvettvangurinn er sífellt að víkka og auknir möguleikar eru til að tengja faglegt starf á vettvangi margs konar þróunarverkefnum og rannsóknum. Handleiðsla er orðin viðtekin og þjónustustofnanir leggja metnað sinn í að skipuleggja handleiðslukerfi, bæði fyrir nýútskrifaða, reynt fagfólk og þá sem eru að sérhæfa sig í ákveðnum aðferðum eða sviðum. Eins og fjallað er um í nýútkominni bók sem ég ritstýrði um handleiðslu; Handleiðsla – til eflingar í starfi, er handleiðsla aldargömul aðferð til að styrkja fagímyndina og efla fagfólk í ólíkum verkefnum á hinum fjölbreytilegustu sviðum velferðarþjónustu, barnaverndar, sálgæslu, menntakerfis og löggæslu. Vaxandi áhersla er á þessu stoðkerfi til fageflingar á öllum þessum sviðum, eins og sjá má í ummælum sérfræðinga sem fylgja bókinni úr hlaði.“

Sumir eru á því að góður handleiðari geti gert kraftaverk. Hver er þín sýn á þessa hugmynd?

„Það er nokkuð til í því þótt kannski sé fulldjúpt tekið í árinni að kalla það kraftaverk. En það að geta notið reglulegra samtala í trúnaðarsambandi við handleiðara með til þess gerða menntun, reynslu og færni er happafengur fyrir allt fagfólk. Auk þess er það beinlínis nauðsyn fyrir þá sem starfa undir miklu álagi og kröfur eru miklar. Handleiðsla skilar bestum árangri þegar traust tengsl og þroskavænlegt vinnusamband nást á milli aðilanna. Rannsóknir á gagnsemi handleiðslu sýna að einmitt þessi þáttur skiptir miklu fyrir starfsgleði og þróun í starfi og þar með árangur í þágu skjólstæðinga.“

Fór utan að mennta sig á sínum tíma

Sigrún fór utan að loknu stúdentsprófi og hóf nám í félagsfræðum.

„Fagið sem ég var að leita að var ekki auðvelt að finna á þeim tíma.

Áhugi minn beindist bæði að samfélagi og einstaklingum en mest langaði mig að vinna að því að bæta skilyrði þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu og þá ekki síst velferð barna. Ég rataði þó inn í almenna félagsráðgjöf til starfsréttinda fyrst í Lundi í Svíþjóð og eftir það í klíniska félagsráðgjöf í Bandaríkjunum þar sem ég fékk menntun sem hjóna- og fjölskylduráðgjafi. Síðar stundaði ég doktorsnám við Gautaborgarháskóla til að geta komið að uppbyggingu háskólanáms í félagsráðgjöf og geta sinnt rannsóknum í þágu barna í margvíslegum aðstæðum foreldra, ekki síst skilnaðarbarna.“

Nú starfar þú bæði sjálfstætt og inni í háskólanum – hver er ástæða þess?

„Það hefur samþæst og þróast í mínum huga frá byrjun. Ég tel að klínískt starf og kennsla og rannsóknir styðji hvort við annað. Í klíniska starfinu sé ég hvar þekkingu skortir, fæ hugmyndir um rannsóknarverkefni og niðurstöðurnar skila sér aftur í þágu skjólstæðinga. Nýr þekkingargrunnur gagnast líka í háskólakennslu og þar hafa nemendur mínir stundum fengið tækifæri til að kynnast rannsóknarferli með tengingu við vettvang.“

Hvort er skemmtilegra að vera handleiðari eða kennari?

„Í handleiðslunni er gjarnan unnið heildrænt með það sem við köllum PPD (personal and professional development). Þannig auðgast fagstyrkur og persónuþroski í handleiðsluferlinu; einkasjálf og fagsjálf tengjast óhjákvæmilega en þarfnast líka aðgreiningar. Það reynir á handleiðara að geta miðlað þekkingu án þess að vera beinlínis „kennari“ en hann er á vissan hátt fyrirmynd (e. role-model) og í gegnum jákvæða samsömun getur handleiðari stuðlað að þroska og breytingum hjá handleiðlsuþega. Þessi hlutverk styðja hvort annað eins og má lesa nánar um í nýju handleiðslubókinni.“

Ætlar að vera meira skapandi í vetur

Hvað ætlarðu að gera í vetur fyrir þig sem þú hefur ekki gert áður? „Það er alltaf nýtt og spennandi að hitta nýja nemendahópa og vinna að eflingu fagfólks í síbreyttum aðstæðum. Sjálf hef ég ómælda ánægju af allri skapandi vinnu, bæði akademískri sem klínískri, og ætla að leyfa mér að gera meira af því en ég hef gert áður að velja og hafna, bæði í kennslunni og í meðferðarvinnunni.“

Sigrún vonar og hefur trú á að veturinn geti orðið frjór þrátt fyrir hindranir vegna kórónuveirunnar.

„Við höfum þegar reynslu af því og getum séð möguleikana sem felast í stafrænni tækni til samskipta. Vissulega kemur fátt í staðinn fyrir lifandi samtöl milli kennara og nemendahóps, en tæknin fleytir okkur langt – jafnvel í þeim efnum!“

Hvað viltu segja við ungt fólk í dag sem er að velja sér fag að mennta sig í?

„Það skiptir öllu að velja sér það nám sem höfðar til eigin áhugasviðs og lífsgilda og sem leiðir að því að geta fundið sig á starfsvettvangi sem samhljómar með þeim.“

Dr. Sigrún er höfundur bókarinnar Handleiðsla- til eflingar í starfi.
Dr. Sigrún er höfundur bókarinnar Handleiðsla- til eflingar í starfi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »