„Það skiptir máli að taka ábyrgð á eigin lífi“

Sandra Kristín segir nám efla fólk til nýrra og góðra …
Sandra Kristín segir nám efla fólk til nýrra og góðra verka.

Sandra Kristín Ólafsdóttir, MBA frá Háskólanum í Reykjavík og verkefnastjóri hjá Opna Háskólanum í Reykjavík, er á því að nám efli fólk til nýrra og góðra verka. 

Vetrarstarfið í Opna háskólanum er að fara af stað núna í september svo hugurinn er við undirbúning þess.

Svo er golftímabilið enn í gangi á Íslandi svo hver stund er nýtt vel í að vinna að markmiðunum á þeim vettvangi líka.“

Hvað getur þú sagt mér um starf þitt fyrir Opna háskólann?

„Starfið er mjög fjölbreytt. Það skemmtilegasta við það eru samskiptin; bæði við þátttakendur á námskeiðunum okkar og svo við alla okkar frábæru leiðbeinendur sem leggja mikinn metnað í starf sitt hjá okkur. Starfið snýst um að hanna og þróa námskeið og námskeiðslínur út frá þörfum vinnumarkaðarins hverju sinni. Síðan að kynna framboðið og loks sjá um framkvæmd á námskeiðunum.

Við þurfum stöðugt að vera með puttann á púlsinum varðandi nýjungar í námsframboði til að geta stutt sem best við þá sem til okkar sækja. Við höfum til dæmis verið að færa okkur mikið út í stafrænar lausnir þar sem þátttakendur geta stundað sína endurmenntun á þeim tíma sem þeim hentar. Við finnum að þetta fyrirkomulag er eftirsótt af fyrirtækjum.“

Námskeiðin til að styrkja sig í starfi

Hvað gera námskeið sem þessi fyrir einstaklinga?

„Flestir sem sækja námskeiðin til okkar er fólk sem hefur klárað háskólanám en hefur áhuga og metnað til að vera stöðugt að bæta við sig, ögra sjálfu sér og með þeim hætti styrkja sig enn frekar í starfi. Enn aðrir eru að breyta til, fara í alveg ný störf eða takast á við nýja ábyrgð í núverandi starfi og þurfa þar af leiðandi að tileinka sér nýja hluti. Svo er það hópur fólks sem er að ná sér í réttindi eins og próf í verðbréfaviðskiptum og viðurkenndir bókarar.“

Hvað með þig? Ertu mikið að viða að þér nýrri þekkingu?

„Það er svo margt sem heillar minn huga en ég fór seint í háskólanám og finnst svo gaman að læra nýja hluti að ég hef varla viljað hætta að bæta við mig námi. Ég útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2018 og hef síðan þá bætt við mig námi í markþjálfun, sem reyndist vera alveg frábært nám, og í stafrænni markaðssetningu en markaðsfræðin hefur lengi heillað mig. Hreint akademískt nám er frábært, en mér finnst nauðsynlegt að horfa líka inn á við og finna sínar leiðir til að vera betri manneskja, starfsmaður, maki og samferðamaður. Við sjáum auknar áherslur á innra sjálfið hjá öllum sem vilja ná meiri árangri, hvort sem er í einkalífi, íþróttum eða stjórnun fyrirtækja. Langflestir skólar erlendis hafa einhvers konar innri vinnu innbyggða í sín stjórnendaprógrömm.“

Hún sér auknar áherslur á innra sjálfið hjá öllum sem …
Hún sér auknar áherslur á innra sjálfið hjá öllum sem vilja ná meiri árangri, hvort sem er í einkalífi, íþróttum eða stjórnun fyrirtækja.

Unga fólkið fer óhikað á skjön við viðteknar hugmyndir

Er ekki örvandi vitsmunalega að vera í kringum ungt fólk og fólk á öllum aldri sem er að læra?

„Jú. Unga fólkið okkar er frábært og atorkusamt og fer óhikað á skjön við viðteknar hugmyndir. Það er virkilega gefandi að heyra hugmyndir þess og smitast af ákafanum. Það vegur skemmtilega upp á móti þekkingu og reynslu hinna eldri sem oft eru að kenna.“

Hvað hefur þú heyrt frá nemendum ykkar um áhrif þess að taka námskeið í Opna háskólanum?

„Langlestir hafa orð á því við okkur að aukið nám sé valdeflandi og styrki bæði líf og starf.“

Það eru ekki margir sem vita að Sandra lærði garðyrkjufræði á sínum yngri árum.

„Það sem mér fannst skemmtilegt og gefandi í garðyrkjunni var umbreytingarferlið; að koma að hráu svæði og breyta því í eitthvað fallegt og umvefjandi fyrir fólk að njóta. Þessi skapandi þáttur. Enn þann dag í dag hef ég mikla þörf fyrir að hafa gróður í kringum mig, hvort sem er í náttúrunni hérna á Íslandi eða í stórum almenningsgörðum erlendis.“

Mikilvægt að hafa gaman af lífinu

Hver eru gildi þín í lífinu?

„Að taka ábyrgð á eigin lífi og lifa lífinu í heilindum og heiðarleika og gleyma ekki að hafa gaman á leiðinni, skemmta sér og fagna litlum og stórum áföngum á lífsleiðinni.“

Hvað skiptir mestu máli að þínu mati?

„Að vera sáttur og rólegur í eigin skinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »