„Að vera í búrleskhópi snýst ekki bara um að fara úr fötunum“

Ester Auður Elíasdóttir gerir bara það sem henni finnst skemmtilegt.
Ester Auður Elíasdóttir gerir bara það sem henni finnst skemmtilegt. Ljósmynd/Elín Björg

Það er óhætt að segja að Ester Auður Elíasdóttir hafi endalausa unun af námi og flestu sem því tengist en konan er með fjórar gráður, vinnur fyrir átta mismunandi aðila og hefur farið á óteljandi mörg námskeið í hinu og þessu sem hafa leitt hana á ævintýralegar brautir, meðal annars í sýningarhópi þar sem hún fer úr fötunum og segir sögur um leið. 

Ester lauk sínu fyrsta háskólaprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985 en hún segist hafa ákveðið að verða kennari um leið og hún byrjaði í menntaskóla. Þetta lá bara fyrir henni. Hún réð sig þó ekki í vinnu við neinn skóla strax að námi loknu heldur hélt út til Bandaríkjanna ásamt þáverandi manni sínum. „Ég bjó þar ekki lengi þar sem hjónabandið misheppnaðist og ég kom aftur heim. Sambandinu höfðu fylgt átök og ég þurfti tíma til að hlaða batteríin að nýju.“

Ári síðar heldur Ester aftur út til Bandaríkjanna enda með hið eftirsótta græna kort í höndunum og því tilvalið að nýta það. Hún fór til Ames í Iowa og réð sig þar í vinnu á veitingastað sem hún segir hafa verið mjög lærdómsríkt. Verandi ævintýrakonan sem hún er þurfti hún þó eitthvað meira og úr varð að Ester hélt til Frakklands á sumarnámskeið í frönsku.

„Ég hafði lært eitthvað smá í frönsku þegar ég var í menntaskóla og mig langaði til að læra meira enda hef ég alltaf haft mjög gaman af tungumálum. Ég var bara þarna í ævintýramennsku og mér lá akkúrat ekkert á að fara heim að kenna. Um haustið 1987 flutti ég svo til Montpellier og fór þar í háskólann að læra frönsku. Ég fékk svo vinnu í Norður-Frakklandi þar sem ég kynntist manni og fór að búa með honum. Við bjuggum líka í París í þrjú ár.

Ljósmynd/Elín Björg
Ester Auður Elíasdóttir.
Ester Auður Elíasdóttir. mbl.is/Unnur Karen

Gerðist granny au-pair og fór á sjálfsskoðunarnámskeið

Árið 1994 sneri Ester aftur til Íslands. Hún hélt þá áfram að vinna við skrifstofustörf og í nokkur ár starfaði hún einnig sem kennari, aðallega í Vogaskóla, en auðvitað togaði þörfin fyrir tilbreytingu í þessa fjölhæfu konu og ekki leið á löngu þar til hún var búin að skrá sig í þriðja námið – meistaranám í verkefnastjórnun. „Ég byrjaði námið árið 2007 en þegar ég útskrifaðist 2009 þá vantaði engan verkefnastjóra, reyndar vantaði bara engan í vinnu neins staðar eins og flestir muna,“ segir Ester kankvís. Ester var orðin 45 ára þegar hún fékk gráðuna í verkefnastjórnun í hendurnar. Ástandið í atvinnulífinu náði sér rólega á strik og hún fór að vinna hjá kanadíska sendiráðinu, við úrræði fyrir geðfatlaða og aðeins í túristabransanum.

„Árið 2014 byrjaði svo útþráin aftur svo ég réð mig sem svokallaða granny-au pair í Seattle í Bandaríkjunum og vann í leiðinni rækilega í sjálfri mér. Skráði mig á sjálfsskoðunarnámskeið hjá Landmark Education og lærði að taka betur á lífinu enda hafði ég vanið mig á að kenna öðrum um það sem gekk ekki upp hjá mér. Þetta var sérstök upplifun en áhrifarík. Einhvers konar blanda af tólf spora kerfinu, Dale Carnegie-fræðum og almennri skynsemi. Pínu heilaþvottur en góður heilaþvottur því ekkert af því sem þarna var kennt var neitt rugl og þar sem námskeiðið stóð í þrjá daga, frá átta á morgnana til tíu á kvöldin, þá bara komst maður ekki hjá því að verða fyrir viðhorfsbreytingum. Ég hætti að minnsta kosti að gera sömu mistökin aftur og aftur og lærði að stokka vel upp í lífi mínu.“

Leiðsögumaður, fatafella og nemi í hebresku

Fyrir fimm árum, þegar Ester var fimmtíu og þriggja ára, skráði hún sig í Leiðsögumannaskólann og lauk honum á tveimur árum samhliða vinnu. „Ég veit, þetta er spes en ég hef bara alltaf haft mjög gaman af því að læra og er mikill námshestur. Núna er ég að myndast við að læra hebresku sem er svo sem ekki alveg úr lausu lofti gripið því ég á fjölskyldu í Ísrael. Það hefur alltaf legið fyrir mér að læra tungumál svo þetta er eitthvað sem ég hef gaman af þótt það sé krefjandi,“ segir Ester sem starfar núna sem leiðsögukona í hlutastarfi ásamt öðru.

Það gefur einnig augaleið að námshestur eins og Ester elskar að fara á ýmis námskeið sem sum hver hafa leitt hana á ótrúlegustu brautir.

„Ég hef til dæmis farið á saumanámskeið, uppistandsnámskeið, improv-námskeið og síðast en ekki síst búrlesk-námskeið sem endaði á því að ég er félagi í búrleskhópnum túttífrútturnar og er ein aðalsprautan þar. Í gegnum öll þessi skapandi námskeið hef ég fengið tækifæri til að kynnast alls konar jaðarlistafólki sem hefur verið bæði lærdómsríkt og heillandi. Það að vera í búrleskhópi snýst ekki bara um að fara úr fötunum og segja sögu í leiðinni heldur kennir það manni líka á lífið. Þegar ég hugsa um það þá held ég að allt sem ég hef lært í gegn um lífið hafi nýst mér með einum eða öðrum hætti. Í meistaranáminu í verkefnastjórnun lærði ég m.a. sálfræði og hvernig á að eiga samskipti í hópum og sem kennari hef ég meðal annars lært hvað fólk hefur úthald í að hlusta á mann lengi og hvað þarf til að gera hlutina áhugaverða. Það skilar sér svo aftur þegar ég er með leiðsögn fyrir ferðamenn. Ætli verkfræðihlutinn úr verkefnastjórnunarnáminu hafi ekki nýst mér minnst, þótt það sé auðvitað alltaf áhugavert og sniðugt að geta stungið upp í verkfræðinga þegar þannig liggur á manni.“

Eins og áður segir starfar Ester fyrir átta mismunandi aðila eins og er og helst myndi hún óska sér að geta alltaf unnið sem verktaki en þar sem starfsöryggi í þeim geira er fallvalt telur hún nauðsynlegt að hafa eina „grunnvinnu“ eins og hún kallar það.

„Ég er í hlutastarfi á elliheimilinu Grund þar sem ég held utan um litla verslun. Það er yndislegt að vera þar. Yndislegt fólk og yndislegur andi. Mér finnst alltaf mjög mikilvægt að hafa eitt svona fast starf og það er ekki bara af fjárhagslegum heldur líka félagslegum ástæðum. Ég bý ein og á agnarsmáa fjölskyldu hérna svo það er gott að hafa akkeri og tilheyra á vinnustað. Það felur í sér félagslegt öryggi sem stuðlar að andlegu jafnvægi.“

Meðfram starfinu á Grund vinnur Ester meðal annars við að þýða skjöl fyrir lögfræðistofu, hún kennir útlendingum íslensku og tekur að sér að aðstoða börn við heimanám í einkatímum. Þá vinnur hún líka fyrir þrjár ferðaskrifstofur við fjölbreytt verkefni, meðal annars að skipuleggja ferðir, fara með ferðamenn í rölt um Reykjavík og taka á móti fólki sem mætir með skemmtiferðaskipum.“

Gætir þú hugsað þér að læra eitthvað fleira?

„Já, ég er á leiðinni á bollywood-námskeið í Kramhúsinu í haust og svo ætla ég líka að læra magadans. Ég er hætt að hafa áhuga á bóklegu námi og langar bara að læra eitthvað líkamlegt eða verklegt. Námskeiðin sem ég fer á eru bara til að auðga líf mitt og gera það skemmtilegra og þar sem ég er að detta í sextugt þá vil ég bara gera það sem mér finnst skemmtilegt,“ segir þessi einstaka kona að lokum.

Ljósmynd/Patrik Ontkovic
Ljósmynd/Elín Björg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál