„Það eru til fleiri en ein gerð af góðum leiðtogum“

Kristrún Anna Konráðsdóttir og Lára Kristín Skúladóttir.
Kristrún Anna Konráðsdóttir og Lára Kristín Skúladóttir. Ljósmynd/Unnur Karen

Margir sjá það í hillingum að komast í stjórnunarstöðu: fá mannaforráð, láta ljós sitt skína, og njóta um leið góðs af í formi hærri launa. En þegar á hólminn er komið rekur fólk sig á að það að vera góður stjórnandi og öflugur leiðtogi er hægara sagt en gert og krefst oftar en ekki nýrra hæfniþátta.

Lára Kristín Skúladóttir, lóðs og leiðtogaþjálfi, mun í haust, í félagi við Kristrúnu Önnu Konráðsdóttur, teymisþjálfa og markþjálfa, kenna námskeiðið Sterkari leiðtogi hjá Opna háskólanum. Um er að ræða 33 stunda námskeið sem tvinnar saman persónulega markþjálfun, rafrænt námsefni, þjálfun í vinnustofuformi og sameiginlega rýni en nemendur eru hvattir til að prófa sig strax áfram í störfum sínum samhliða náminu og draga þannig lærdóm hratt og jafnóðum.

„Við Kristrún höfum séð það í störfum okkar að nýir jafnt sem reyndir stjórnendur geta þegið stuðning við að stíga sterkari skrefum inn í leiðtogahlutverkið og þróa sitt eigið hugarfar og hegðun til að ná meiri árangri í sínu hlutverki. Hlutverk leiðtogans er í okkar huga að skapa umhverfi fyrir fólk til að dafna og eflast í. Umhverfi sem ýtir undir meira frumkvæði, meira hugrekki, aukna sköpunargleði og sameiginlegan lærdóm. Þetta reynir á að leiðtoginn hafi getuna til að byggja upp sjálfstæð, og hugrökk, teymi og hafi viljann til að prófa sig áfram með sveigjanlegu hugarfari,“ segir Lára. „Leiðtoginn þarf að kunna að fá fólk til liðs við sig og búa þannig um hnútana að þeir sem undir leiðtogann heyra geti nýtt styrkleika sína og blómstrað í starfi. Ef leiðtoganum tekst vel að leysa þetta af hendi eru margfalt meiri líkur á að honum takist líka vel að laga sig að síbreytilegu vinnu- og rekstrarumhverfi þar sem óvissan er mikil og ótal hagsmunir takast á.“

Ekki allir steyptir í sama mót

Lára segir ólík fyrirtæki og verkefni kalla á ólíkan stjórnunarstíl og leiðtogahæfileikar sem henti á einum vinnustað gagnist ekki endilega eins vel á öðrum. „Oftar en ekki eru það bestu sérfræðingarnir sem gerðir eru að stjórnendum og þurfa þeir þá iðulega bæði að sinna áfram þeim störfum sem sérfræðimenntun þeirra og reynsla undirbjó þá fyrir og að auki leiða teymi fólkið sem þarf að styðja og halda utan um. Sennilega er enginn sem mæðir meira á en millistjórnandinn, sem bæði þarf að mæta kröfum teymis síns og líka fullnægja óskum yfirstjórnenda sinna.“

Ein algengasta ranghugmynd þeirra sem falið er leiðtogahlutverk á vinnustaðnum er, að sögn Láru, að það sé til aðeins ein gerð af góðum stjórnanda. „En í reynd eru til margar ólíkar gerðir af góðum stjórnendum og mikilvægt að hver leiðtogi finni sína styrkleika og veikleika til að þróast og standa sig sem skyldi. Við leggjum einmitt ríka áherslu á það á námskeiðinu að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur og vanrækja ekki að draga það fram sem nemendur kunna og gera vel. Markmiðið er að finna leið einstaklingsins að því að verða sterkari leiðtogi á eigin vísu frekar en að læra einhverja eina opinbera og samþykkta leið til að leiða annað fólk.“

Lára segir líka að of margir vanmeti eigin getu til að vera góðir stjórnendur. „Það á ekki við alla að hafa mannaforráð, en ef að áhuginn og metnaðurinn er fyrir hendi og löngunin til að spreyta sig þá er þar strax komin ákveðin vísbending, og hægt að byggja ofan á þennan metnað með því að þjálfa leiðtogahæfileikana,“ segir hún. „Við sjáum jafnan ákveðinn persónuleika í stjórnunarstöðum: fólk sem að líður vel í eigin skinni og er lagið að selja eigið virði, en þetta er sú gerð stjórnanda sem er mest áberandi eðli málsins samkvæmt og hægt að finna fjöldann allan af frábærum stjórnendum úti í atvinnulífinu sem hafa allt öðruvísi persónuleika.“

Margir standa sig vel

En hvar standa íslenskir stjórnendur yfirleitt? Eiga þeir langt í land eða er hár staðall á getu og færni fólks sem er í leiðtogahlutverkum á íslenskum vinnustöðum? „Ég er á þeirri skoðun að leiðtogar hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum séu upp til hópa mjög færir,“ segir Lára. „Þegar svipast er um í íslensku atvinnulífi má finna fjölmörg dæmi um fyrirtæki þar sem tekist hefur að byggja upp frábæra menningu og blómlegt nýsköpunarumhverfi. Mikil gerjun og gróska á sér stað sem væri ekki fyrir hendi nema vegna þess að öflugir leiðtogar eru að standa sig vel.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál