„Frelsandi að segja satt“

Eydís Blöndal gefur út ljóðabókina Ég brotna 100% niður í …
Eydís Blöndal gefur út ljóðabókina Ég brotna 100% niður í þessari viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í vikunni kom út ljóðabókin Ég brotna 100% niður eftir Eydísi Blöndal. Ljóðabókin er sú þriðja sem kemur út eftir Eydísi en sú fyrsta sem hún gefur út með forlagi. Fyrri bækur hennar, Tíst og bast og Án tillits, seldust vel og vöktu mikla athygli. Í Ég brotna 100% niður tekst Eydís á við loftslagskvíða, kvartlífskreppu, móðurhlutverkið og svo margt annað. 

„Ferlið að baki útgáfunnar hefur verið mjög ólíkt hinum bókunum. Það er margt sem ég sakna úr því að standa í þessu sjálf, en kostirnir vega ótvírætt þyngra. Það hefur verið gefandi, lærdómsríkt en helst skemmtilegt að vinna með Sigþrúði, ritstjóra Forlagsins, og mikill léttir að þurfa ekki að standa ein í allri praktíkinni,“ segir Eydís í viðtali við mbl.is. 

Eydís er með BA próf í heimspeki með hagfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Hún vinnur nú sem verkefnastjóri hjá Siðmennt en bókina skrifaði hún á meðan hún var atvinnulaus. 

„Sjálf vinnan að baki handrits bókarinnar var sömuleiðis ólík því sem ég hef áður gert, þar sem ég leit nú í fyrsta skipti á skrifin sem vinnu. Bókin var skrifuð á meðan ég var atvinnulaus, svo ég leyfði mér að líta svo á að ég væri ljóðskáld í fullri vinnu á meðan ég leitaði mér að hinsegin vinnu, svona sem borgar reikninga,“ segir Eydís. 

Eydís segir eðlilegt að unga kynslóðin hafi áhyggjur af framtíð …
Eydís segir eðlilegt að unga kynslóðin hafi áhyggjur af framtíð sinni þegar enginn fullorðinn stígur fram og axlar ábyrgð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gleymir að fólk lesi það sem hún skrifar

Spurð hvort það sé ekki erfitt að berskjalda sig á þann hátt sem hún gerir í bókinni segir Eydís bæði já og nei.

Mér finnst frelsandi að segja satt. Við burðumst öll með djúpstæðar og flóknar tilfinningar í garð tilvistar okkar, lífsins og dauðans, eitthvað sem er óhjákvæmilegur partur af því að vera til. Það sem gerir lífið enn frekar íþyngjandi er að fela hvað okkur þykir flókið að vera til. Svo gleymi ég því oft að annað fólk lesi það sem ég gefi út og finnst það hræðilega vandræðalegt þegar það rifjast upp.

Eins og kannski oft er með bækur, er bók Eydísar einskonar gluggi inn í hugarheim hennar. Hún fjallar um margt sem stendur henni nærri, eins og móðurhlutverkið og föður sinn. Faðir Eydísar var Pétur Blöndal alþingismaður en hann lést árið 2015.

„Á einu ári missi ég pabba minn, flyt í eigin íbúð og verð ólétt. Þar sem allt gerðist svo hratt gafst mér ekki tími til að vinna úr þeim breytingum, en líkaminn finnur alltaf leið til þess að fá útrás fyrir tilfinningarnar. Ég varð allt í einu alveg hræðilega lofthrædd, þannig að mér fannst oft kvíðvænlegt að vera inni í stofu hjá mér á fjórðu hæð. Og ég hugsa að ég hafi bókstaflega bara verið lofthrædd í lífinu. Að ég væri í raun og veru ein. Og þessi tilfinning finnst mér keimlík því sem ég upplifði á þessum tíma sem ung manneskja með loftlagskvíða,“ segir Eydís. 

Eydís segir að framtíð ungs sé virt að vettugi og að það sé eðlilegt að það hafi áhyggjur af framtíðinni, því það er enginn fullorðinns em stígur fram og tekur ábyrgðina. „Fyrir ungt fólk er það gífurlega þungur baggi að bera, þar sem þau eru of ung til að upplifa að heimurinn sé á herðum þeirra. Þau eru því að taka út einhvers konar pre-mature kvartlífskrísu ofan á allt saman. Þannig ég reyndi að flétta þessu öllu saman í bókinni – stöðu ungs fólks í loftslagsvánni, kvartlífskrísunni og því að missa foreldri,“ segir Eydís.

Notar skrif sem þerapíu

Eydís segir að upphaflega hafi bókin að fjalla um loftslagskvíða. Sá kvíði er fyrirferðamikill í hennar daglega lífi og hefur hún notað skrif sem ákveðna þerapíu og koma formfestu á hugsanir sínar og tilfinningar. 

„En það er ekki eins og loftslagsváin sé fábrotinn vandi, rót vandans vex upp úr þeim ófullnægjandi jarðvegi sem nútímasamfélagið er fast í. Hugleiðingar mínar hurfu aftur og aftur að þeim skiptum sem við í svíkjum sjálf okkur og okkar innsta eðli til að fúnkera í úrkynjuðu samfélagi. Loftlagskvíðatilfinningin rammar þessa firringu vel inn, þar sem loftlagsmál eru afleiðing þessa niðurbrots á mannsandanum,“ segir Eydís. 

Kynslóð Eydísar, og blaðamanns, hefur stundum verið uppnefnd kvíðakynslóðin. Kynslóðin sem hefur áhyggjur af hinu og þessu, og getur ekki einu sinni látið bólusetja sig án þess að fá kvíðakast og falla í yfirlið. 

„Við erum svo gífurlega heppin að samfélagið sem við höfum byggt er nokkuð öruggt fyrir flest okkar dagsdaglega. Hins vegar er ennþá til staðar þetta dýrslega eðli sem stanslaust leitar að hættum í nærumhverfi okkar. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé afleiðing þessa eðlis að óttast að heimurinn endi á katasrófískan hátt. Það er ekki eins og við séum fyrsta kynslóðin sem er á lífi núna sem hafi þurft að eiga við heimsendakvíða. Kannski er þetta bara hluti af því að vera til. Ég leyfi mér stundum að ljúga því að sjálfri mér til að komast í gegnum daginn, þótt ég viti vel að vísindafólk sé ekki sammála mér,“ segri Eydís spurð að því hvort bókin sé ákveðið samtal við kynslóðina. 

„Bókin var aðallega skrifuð fyrir þau okkar sem upplifa þær tilfinningar sem ég fjalla um í bókinni, og getur eflaust veitt öðrum innsýn í kvíðahugsanirnar. En ég hef litið á bókina sem
heimildaöflun fyrir kynslóðir sem mögulega munu aldrei koma. Til að segja þeim: við sáum
hættuna, og þetta eru tilfinningarnar sem við díluðum við,“ segir Eydís. 

Ljósmynd/Forlagið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál