Helga Vala ætlar að læra húsasmíði

Helga Vala Helgadóttir ætlar að læra húsasmíði þegar tóm gefst …
Helga Vala Helgadóttir ætlar að læra húsasmíði þegar tóm gefst meðfram stjórnmálunum. Ljósmynd/Samfylkingin

Helga Vala Helgadóttir hefur setið á Alþingi Íslendinga frá árinu 2017, verið umboðsmaður hljómsveitarinnar Mammút og leikið í farandleiksýningum á Bretlandseyjum. Þar er ekki næstum því allt upp talið enda er Helga Vala mjög iðin manneskja. Sjálf lýsir hún sér barnungri sem glöðum brjálæðingi og virðist orkan hvergi nærri þrotin síðan þá.

Þótt hún sé ekki með stúdentspróf hefur Helga Vala lokið þremur háskólagráðum, einni í leiklist og tveimur í lögfræði þar sem hún uppgötvaði óvæntan áhuga á skattarétti, og í dag er hún staðráðin í að læra húsasmíði um leið og tóm gefst meðfram stjórnmálunum. Helga Vala var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í Snæbjörn talar við fólk.

Eitt það fyrsta sem Snæbjörn og Helga Vala ræða er samband hennar við forldra sína og uppvaxtarár hennar, hvers vegna þau systkinin hafi öll farið sínar eigin leiðir og hvernig það var að alast upp þegar báðir foreldrar eru listamenn.

„Þau [...] voru þannig uppalendur að þau pössuðu að láta manni ekki einhvern veginn vera að láta efann þvælast fyrir hugmyndum og ég hef talað um að mér finnst það besti heimanmundur sem ég hef fengið [...] Fáðu hugmynd, ef þig langar að fara og prófa hana, gerðu það. Absalút! Því það versta sem getur gerst er að það gangi ekki upp eða mistakist eða eitthvað, og hvað þá? Þú ert samt búin að læra af því. Lífið er auðvitað alveg ótrúlegt hlaðborð af tækifærum. Auðvitað búum við ekki öll við þá heppni að geta gert allt, en við getum samt gert ansi margt. [...] Það sem í rauninni oft stendur í vegi fyrir [því] er oft þetta eigið vanmat og hik.“

Helga Vala hóf starfsferil sinn sem leikari, en foreldrar hennar voru bæði leikarar. Hún lauk leiklistarnámi og starfaði við leiklist sem leikari og leikstjóri eftir útskrift. Skömmu síðar hóf hún að vinna í fjölmiðlum þar sem hún fann sinn áhuga á lögfræði, en Helga Vala er með BA og Meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Loks eftir að hafa rekið lögfræðistofu í nokkur ár rataði Helga Vala á Alþingi árið 2017.

Fjölmiðlaferill Helgu Völu varð til á mjög skondinn hátt. Eftir að hafa flutt heim til Íslands frá Bretlandseyjum vantaði hana vinnu. Hún gekk inn á skrifstofu Bylgjunnar og talaði við Jón Axel Ólafsson, þáverandi yfirmann á Bylgjunni, og spurði hvort hann væri nokkuð með vinnu handa henni. Vildi þá svo vel til að vikuna áður hafði þáttastjórnandi síðdegisútvarpsins sagt starfi sínu lausu, og fékk Helga Vala þá starfið á staðnum og var sett í loftið seinna um daginn.

Helga Vala vinnur þó enn við leiklistina annað slagið meðfram öðru.

Helga Vala vann mikið í ýmsum málum sem lögfræðingur, en mikinn part í kynferðisafbrotamálum. Hún talar ítarlega um sína upplifun á málum, hvernig lögin er skýr um að ekki megi dæma nokkurn sekan ef nokkur vafi er um sekt þeirra og um umræðuna í samfélaginu í dag.

„Það er bara skrifað í lögin. Ef að það er vafi þá á alltaf að túlka vafann sakborningi í hag. [...] Það á algjörlega að passa upp á það að saklaus einstaklingur verði ekki dæmdur. [...] Þess vegna er líka þessi [...] umræða „saklaus uns sekt er sönnuð“ – hún er alveg rétt. Þú ert saklaus uns sekt er sönnuð, eða átt að vera álitinn saklaus [...] að minnsta kosti gagnvart kerfinu. En þú ert ekkert saklaus þangað til búið er að sanna sektina þína. [...] Þú keyrir yfir á rauðu ljósi þó að [...] við höfum ekki náð því á mynd. Þá gerðirðu það samt. Við vitum að þú gerðir það og þú veist að þú gerðir það, en ég tók bara ekki mynd af því svo ég er ekki með sönnunargögnin. En þú keyrðir ekkert minna yfir á rauðu ljósi af því að ég er ekki með mynd af því.“

Varðandi þá djúpu og róttæku bylgju gegn kynferðisofbeldi sem ríður yfir samfélagið í dag segir Helga Vala: „Þetta er eins og að mæta til tannlæknis. Við verðum bara að hreinsa alla skemmdina! Ef að við setjum bara fyllingu ofaná þá kemur bara rótarbólga.“

Einnig rifjar hún upp forræðismál yfir heimilisketti sem fór tvisvar sinnum fyrir hæstarétt, bæði sem einkamál og sem sakamál eftir að lögreglu var neitað um heimild til að leita kattarins inni á heimili og lögregla áfrýjaði þeim dómi.

Námsferill Helgu Völu er heldur óvanalegur, en þótt hún sé með þrjár háskólagráður er hún ekki með stúdentspróf. Hún komst inn í Leiklistarskólann á meðan hún var við nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hóf þar nám áður en hún kláraði stúdentspróf.

Í nokkur ár starfaði Helga Vala sem umboðsmaður hljómsveitarinnar Mammút. Starfið fékk hún óvænt eftir að hafa horft á hljómsveitina spila á Eurosonic tónlistarhátíðinni í Groningen í byrjun árs 2015 þar sem komið var á orði við hana að taka að sér starfið. Vel gagnaðist Helgu Völu að vera lögfræðimenntuð þegar kom að vinnunni, en auk þess er Grímur Atlason, eiginmaður Helgu, fyrrum framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves.

Einnig finnst Helgu Völu mjög gaman að smíða og hefur meðal annars smíðað fataskápa og bókahillur fyrir heimilið og langar í dag að fara á námskeið í húsamíði. Sjálf segist hún ekki vera mjög góð og langa að vita betur hvað hún getur gert fleira.

Viðtalið má finna í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is