Ekki hægt að segja nei við ABBA

Benny Andersson, Svana Gísladóttir, Ludvig Andersson sem er framleiðandi og …
Benny Andersson, Svana Gísladóttir, Ludvig Andersson sem er framleiðandi og sonur Benny ásamt Birni Ulvaeus.

Svana Gísla er aðalframleiðandi ABBA Voyage-tónleikanna sem fara fram í London á næsta ári. Svana er frá Akranesi en flutti til Lundúna fyrir rúmlega 20 árum staðráðin í því að vinna sig upp í tónlistarbransanum. ABBA á sér stóran sess í hjörtum marga og segir Svana nýju tónleikaröðina stærsta tónlistarverkefni sem hefur verið sett á svið. 

„Ég er búin að vera í London í yfir 20 ár. Búin að vinna mig upp í þessum bransa síðan ég var 20 og eitthvað. Ég kem af Akranesi en flutti til London mjög ung,“ segir Svana sem fór út til þess að vinna. „Mig langaði alltaf að búa í London af einhverri ástæðu. Langaði að vera í músíkbransanum og var búin að vera í allskonar músík þegar ég var í skóla og bara vann mig upp einbeitt og ákveðinn eins og íslenskar konur eiga kyn til.“

Auk þess að framleiða verkefni í tónlistargeiranum starfar Svana sem framleiðandi í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Hún hefur unnið með stórstjörnum áður en til þess að komast á þann stað sem hún er núna á þurfti hún að leggja mikið á sig. „Þetta er náttúrulega bara bransi eins og allur annar bransi. Ég er búin að vinna eins og vitleysingur síðustu 23 árin að koma mér áfram í þessum iðnaði.“

Ekki hægt að segja nei við ABBA

Svana vann með David Bowie en þegar hann féll frá ákvað hún að vinna ekki aftur í tónlistarbransanum. Í stað þess ætlaði hún að einbeita sér frekar að sjónvarpi og kvikmyndum. „Þegar ABBA símtalið kom þá var erfitt að segja nei við því,“ segir Svana. 

Það eru bara nokkrir dagar síðan að ný lög af væntanlegri plötu ABBA hljómuðu fyrst og tónleikarnir voru kynntir. Verkefnið hefur þó verið mun lengur í bígerð. „Ég rek allt fyrirtækið og ég er búin að vinna í þessu í rúm fjögur ár. Ég vinn hlið við hlið með ABBA. Þetta er stærsta tónlistarverkefni sem hefur nokkurn tímann verið sett á svið.“

Benny Andersson, Anni-Frid Lyngstad, Agnetha Faltskog and Bjorn Ulvaeus.
Benny Andersson, Anni-Frid Lyngstad, Agnetha Faltskog and Bjorn Ulvaeus. AFP

Björn, Benny, Agnetha og Anni-Frid verða ekki á sviðinu á hverju kvöldi eins og á hefðbundnum tónleikum. Svana segir að upplifunin eigi þó eftir að vera eins og á alvöru tónleikum. „Þú átt eftir að upplifa tónleika með ABBA þannig að þau eru á sviðinu í „digitalformi“. Við erum að byggja okkur eigin tónleikahöll,“ segir Svana en allt var gert til þess að skapa hinu fullkomnu tónleikahöll fyrir verkefnið. Hún lýsir upplifuninni sem nýrri vídd á milli raunheima og stafræna heimsins. 

Rúmlega fjögurra ára vinna að koma í ljós

Svana segir að þau hafi lagt mikla áherslu á að halda verkefninu leyndu í allan þann tíma sem tók að undirbúa verkefnið enda vildu ABBA, Svana og samstarfsfélagar stýra allri umfjöllun. Hún segist vera vön að þegja yfir leyndarmálum enda sé það stór hlutur af starfinu. „Ég er mjög vön því en það er erfitt að reka fyrirtæki af þessari stærð á þeim hraða og með því magni sem við erum búin að gera án þess að geta talað opinberlega um hvað við erum að gera. Við erum mikið búin að senda þagnaskyldusamninga, það er svona bókhald um það á hverjum einasta degi. Það hjálpar rosalega til núna að geta talað hreint og beint um það sem við erum að gera.“

Fyrstu tónleikarnir fara fram í maí á næsta ári. Svana vonast til þess að komast í viku frí eftir það en hún segir að verkefni eins og þetta reki sig ekki sjálft. „Ég á ekki eftir að komast í algjört frí en kannski viku, það væri gott.“ Svana reynir að koma til Íslands á sumrin en hefur ekki komið til Íslands í tvö ár og spilar kórónuveirufaraldurinn þar inn í.

mbl.is