Gott að geta speglað sig í fyrirmyndum

Anna Róshildur Benediktsdóttir Böving gefur út sína fyrstu EP plötu …
Anna Róshildur Benediktsdóttir Böving gefur út sína fyrstu EP plötu í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tónlistarkonan Anna Róshildur Benediktsdóttir Böving gaf út lagið Keyra/bremsa í byrjun ágúst. Lagið er af væntanlegri EP plötu sem hún stefnir á að gefa út í haust. Auk þess að gefa út plötu er Róshildur á sínu þriðja ári á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands og að flytja út til Danmerkur. 

„Það var stórt skref fyrir mig að senda þetta lag frá mér. Ég fór á lagasmíðanámskeiðið Snældan, þar sem ég lærði á tónlistarforritið Ableton og fékk mikla æfingu í því að deila tónlist með öðrum. Það er aðal skrefið, að sýna öðrum, því þetta er oft svo mikil berskjöldun. Eftir það fór ég að prodúsera meira og meira og deila því á Soundcloud. Það var algjör snilld þar sem þar er ekki sama pressan og td. á Spotify. Bara fyrir sjálfa mig og engan annan, ekkert í húfi.

Síðan sæki ég um hjá Listhópum Hins hússins með það markmið að vinna úr skissunum mínum að heildstæðu verki í formi plötu og þar með var ákvörðunin tekin, að tónlistin væri á leiðinni út. Það er erfitt að sleppa þessu og finnast það lag vera klárað, og kannski sérstaklega fyrir byrjenda í pródúseringu eins og mig, en ég stefni að því að gefa plötuna út núna í haust,“ segir Róshildur í viðtali við mbl.is. 

Róshildur samdi textann, taktinn og lagið sjálf auk þess sem hún pródúseraði það og söng. Nokkrir gestahljóðfæraleikarar og vinir hennar lögðu henni lið á plötunni. Það verða fjögur lög á henni, blanda af raftónlist og lifandi hljóðfærum. 

Róshildur segir það vera mikið frelsi að geta unnið hugmynd …
Róshildur segir það vera mikið frelsi að geta unnið hugmynd að lokaverki alveg sjálf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefurðu alltaf verið að skapa tónlist?

„Já ég hef alltaf verið eitthvað að semja og þá aðallega á píanó. Tónlist hefur alltaf verið mikill griðarstaður og leið til að vinna úr tilfinningum eða kjarna mig. Ég hef hins vegar ekki verið dugleg að deila henni áður. Sköpunarferlið mitt breyttist mjög mikið eftir að ég fór að pródúsera tónlistina, þá gat ég búið til heilu útsetningarnar úr lögum sem áður voru bara söngur og píanó. Þá opnuðust alveg nýjar dyr fyrir mér og það að gefa út varð möguleiki. Það er svo mikið frelsi í því að geta unnið hugmynd að lokaverki, alveg sjálf. Yfirgnæfandi verkefni fyrst, en ótrúlega skemmtilegt.“

Róshildur kemur úr fjölskyldu leikara og listamanna og því lá beint við henni að fara í listanám. Hún valdi sviðshöfundabrautina vegna þess hve opin og einstaklingsmiðuð hún er. 

„Sviðslist er ótrúlega breytt hugtak og leikstjórn, skrif, gjörningalist, tónlist og dansleikhús er allt eitthvað sem ég er að skoða í náminu. Ég held að ég hafi í grunnin sótt um brautina því að ég hafði ekki hugmynd um hvað mig langaði að gera en vissi að mér þótti gaman að skapa og þarna voru margar áttir opnar. Sköpunin á bak við verk heillaði mig meira en það að standa sjálf á sviðinu,“ segir Róshildur. 

Róshildur valdi nám við sviðshöfundabraut í LHÍ því námið er …
Róshildur valdi nám við sviðshöfundabraut í LHÍ því námið er opið og einstaklingsmiðað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Róshildur hefur unnið með ólík listform í sköpun sinni og segir sjálf að það sé mjög gott að hafa mismunandi verkfæri í kassanum. „Þótt að það sé hægt að sérhæfa sig í einu listformi þá finnst mér oft erfitt að greina list í flokka, þetta er allt nátengt og samofið,“ segir Róshildur. 

Róshildur sækir innblástur í öllu því hversdagslega í hennar lífi. „oft sprettur eitthvað upp úr persónulegum aðstæðum, dagbókarskrifum eða pælingum um eigið líf.

Annars fæ ég mikinn innblástur frá skólasystkinum mínum og vinum og þeirra list, fara í leikhús og á tónleika. Í tónlistinni fæ ég mestan innblástur og drifkraft til að skapa af því að fylgjast með öðrum konum í tónlist, sérstaklega konum sem eru að prodúsera sjálfar. Það breytir öllu að geta speglað sig í fyrirmyndum sínum, þá sér maður möguleikar,“ segir Róshildur. 

Næstu mánuðir verða fullir af leikhúsi og tónlist hjá Róshildi en hún er flutt til Danmerkur í starfsnám hjá leikhópnum Kristján Ingimarsson Company. 

Róshildur er flutt út til Danmerkur í starfsnám hjá leikhópnum …
Róshildur er flutt út til Danmerkur í starfsnám hjá leikhópnum Kristján Ingimarsson Company. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is