Allir í fjölskyldunni unnið í fyrirtækinu

Mæðgurnar Elísa Ólöf Guðmundsdóttir og Elín Dís Vignisdóttir í nýrri …
Mæðgurnar Elísa Ólöf Guðmundsdóttir og Elín Dís Vignisdóttir í nýrri verslun 4 árstíða í Skipholti. mbl.is/Unnur Karen

Blómaverslunin 4 árstíðir opnaði dyr sínar í Skipholti 23 á fimmtudag. Verslunin var áður til húsa í Lágmúla en er nú komin í stærra húsnæði í gamla Málmsteypuhúsinu. Elín Dís Vignisdóttir, dóttir hjónanna Elísu Ólafar Guðmundsdóttur, blómaskreytis og Vignis Kristjánssonar, matreiðslumeistara, eigenda og stofnenda verslunarinnar, segir alltaf gaman að vinna með fjölskyldunni þó það geti líka verið krefjandi.

„Þetta hús er alveg einstakt. Það er ekkert annað líkt því á Íslandi. Það er mjög hátt til lofts og fallegir franskir gluggar í báða enda,“ segir Elín í viðtali við mbl.is. Elín segir að það hafi gerst mjög hratt að þau hafi ákveðið að flytja verslunina, þau hafi tekið eftir húsinu og þegar verslunarrýmið á neðstu hæðinni losnaði hafi þau ákveðið að slá til og færa verslunina.

Verslunin hefur verið lokuð í tvær vikur en nú er allt orðið tilbúið í Málmsteypuhúsinu og því ekkert annað að gera en að opna dyrnar.

Verslunin opnaði í stærra rými í Skipholti í gær.
Verslunin opnaði í stærra rými í Skipholti í gær. mbl.is/Unnur Karen

Auk þess að opna í nýju og stærra rými hefur fjölskyldan tekið inn nýtt sælkeramerki, Made By Mama, sem eru hágæða ítalskar sælkeravörur. Þar má því nú finna allt frá dásamlegum ólífum og olíum, parmesan ost, pasta og pítsudeig.

„Það var alltaf hugmyndin í upphafi að vera einnig með sælkeralínu í versluninni og loksins höfum við fundið merki sem við erum ánægð með,“ segir Elín. Made By Mama er í eigu danskra hjóna sem fluttu til Toskana héraðs á Ítalíu og framleiða þau nú vörur undir vörumerkinu með byrgjum frá Ítalíu sem allir deila ástríðu þeirra fyrir gæðum og uppruna vörunnar.

Sælkeravörur frá Made by Mama eru nú fáanlegar í 4 …
Sælkeravörur frá Made by Mama eru nú fáanlegar í 4 árstíðum. mbl.is/Unnur Karen

4 árstíðir opnaði fyrst árið 2014 en áður rak fjölskyldan einungis veisluþjónustuna Veislugarð í Mosfellsbæ. Síðar fluttu þau veisluþjónustuna í Lágmúla og opnuðu þar að auki blómaverslun árið 2014. Nú er komið að nýjum og spennandi kafla í sögu verslunarinnar sem hefur vaxið mikið frá upphafi.

Fjölskyldan hefur öll komið að fyrirtækinu í gegnum árin og segir Elín að allir í fjölskyldunni hafi unnið hjá fyrirtækinu á einhverjum tímapunkti. Stundum getur verið erfitt að skilja á milli fjölskyldulífsins og fyrirtækisins en Elín segir að þegar vinnan sé skemmtileg verði hún ekki eins og vinnan þín. „Og við erum öll miklir fagurkerar og sælkerar svo þetta helst svolítið skemmtilega í hendur,“ segir Elín

Verslunin er til húsa í Málmsteypuhúsinu.
Verslunin er til húsa í Málmsteypuhúsinu. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is