Hvernig öðlumst við sanna lífsfyllingu?

Ósk Sigurðardóttir er ACC vottaður markþjálfi og starfar hjá Lausninni.
Ósk Sigurðardóttir er ACC vottaður markþjálfi og starfar hjá Lausninni.

„Eitt af því sem mér hefur orðið ljóst í gegnum þann tíma sem hefur liðið frá því að ég byrjaði í markþjálfanáminu er hversu mikilvægt og dýrmætt það er að eiga sér drauma, bæði smáa og stóra. Að við gefum okkur tíma til að hugsa um hvað það er sem skiptir okkur virkilega máli,“ segir Ósk Sigurðardóttir í sínum nýjasta pistli: 

Veltum fyrir okkur hvar og hvenær við erum í essinu okkar, gleymum jafnvel stund og stað og njótum augnabliksins til fulls. Hvar notum við styrkleika okkar, hvenær upplifum við að við skiptum máli, hvernig öðlumst við sanna lífsfyllingu? Að láta sig dreyma framtíðardrauma er ljúft og spennandi en næsta skref, framkvæmdin, getur vafist fyrir okkur. Að stefna í átt að draumunum er ekki alltaf auðvelt, það eru ýmsar hindranir sem geta legið í veginum en flestar þeirra búa oft í okkar eigin huga.

Við bíðum eftir að verða nógu hugrökk, óttumst að við höfum ekki næga hæfileika, að við séum of ung eða of gömul, að það sem við höfum fram að færa sé ekki nógu mikilvægt til að hafa áhrif á líf nokkurs manns. Við getum hræðst gagnrýni, að það verði gert grín að okkur eða við misskilin. Flestar þessar ástæður skipta engu raunverulegu máli.

Ef við viljum virkilega gera eitthvað sem krefst breytinga á lífi okkar þá verðum við að hafa skýra sýn á hvert við viljum stefna, setja okkur markmið tengd þeirri stefnu, sýna hugrekki og finna fyrir sátt við óttann sem fylgir því óhjákvæmilega að feta á nýjar slóðir. Þegar við tökum óttann í sátt þá skapast rými til vaxtar og við finnum fyrir því að við séum á lífi.

Með því að taka skref í átt að draumunum upplifum við ánægjuna sem fylgir því að vera algjörlega niðursokkin í verkefni, fullnægjuna sem fylgir því að skapa eitthvað nýtt, sjálfsöryggið sem fæst með því að sýna hugrekki, neistann sem kviknar þegar við leyfum hugmyndunum að flæða og framar öllu upplifum við hið frábæra frelsi sem fylgir þegar við sýnum okkur sjálfum og öðrum hver við erum í raun og veru.

Í markþjálfunarsamtali gefst rými til að hugsa um og koma orðum að hvað það er sem skiptir virkilega máli í lífi hvers einstaklings, skoða hvar eru tækifæri til vaxtar og hvaða leiðir eru færar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Þar er horft fram á veginn, einblínt á styrkleika einstaklingsins og hindranir lagðar til hliðar.

Í samtalinu gefst tækifæri til að velta fyrir sér hvaða aðstæður eða verkefni verða til þess að skapa innri ró, flæði, aukna orku og tilhlökkun. Að stíga inn í styrkinn sinn getur verið töfrum líkast og sem markþjálfi langar mig að aðstoða aðra við að ganga inn í sinn eigin töfraheim þar sem draumarnir rætast.

mbl.is