„Hjá mér er lífið yfirleitt gleði og hamingja - sama hvað“

Áshildur Bragadóttir.
Áshildur Bragadóttir.

Áshildur Bragadóttir er matgæðingur, fagurkeri og náttúruunnandi sem á fjórar dætur. Hún býr í Kópavogi og nýtur þess að hafa nóg fyrir stafni.

Hvernig ræktar þú þig?

„Mín helsta andlega og líkamlega heilsubót er að upplifa og njóta íslenskrar náttúru. Ég geng mjög mikið, bæði á fjöll og á þeim fallegu gönguleiðum sem er að finna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og víða um land. Ég reyni líka að fara í ræktina reglulega þó ég mætti vera duglegri en ég fæ góða hvatningu frá þjálfurunum á Hilton Reykjavík Spa sem kemur sér mjög vel. Þar er ég að lyfta lóðum á milli þess sem ég fer í jóga.“

Hvað finnst þér um bækur?

„Ég hef alltaf haft mikla ánægju af lestri góðra bóka og fæ mikla andlega næringu út úr því. Ég á mér nokkra uppáhalds íslenska höfunda eins og Ólaf Jóhann, Kristínu Marju, Jón Kalman og Gerði Kristnýju. Ég gef mér samt mun minni tíma í bóklestur í dag en áður, en þegar ég hef næði og góðan frítíma fæ ég mikla næringu af því að lesa.“

Hvað er besta ilmvatn sem þú hefur fundið?

„Það er frekar skemmtilegt að fá þessa spurningu því ég á mér uppáhaldsilmvatn sem ég bara get ekki hætt að nota. Þannig er að fyrir tæpum áratug langaði mig að kaupa mér nýtt ilmvatn og var ég með mjög sterka hugmynd um hvernig ilm mig langaði í. Ilm af sumri og blómum með sítrónur og epli sem undirtón. Ég fór í snyrtivöruverslun og byrjaði að lykta af hinum og þessum ilmvötnum en fannst þau ýmist of þung, of krydduð eða með of miklum blómailmi. Ég var við það að ganga út úr versluninni þegar ég rak augun í Light Blue-ilmvatnið frá Dolce & Gabbana og fann þá það sem ég var að leita að. Ég kaupi mér samt öðru hvoru önnur ilmvötn og núna er ég með tvo nýja ilmi, Mon Guerlain Eau de Parfume og Mon Guerlain Bloom of Rose sem ég er mjög ánægð með.“

Hvert er uppáhaldssnjallforritið?

„Ég nota Instagram mest í dag, bæði til að halda utan um myndir og minningar úr eigin lífi og líka til að fá innblástur af einhverju skemmtilegu ásamt því að halda sambandi við vinina. Spotify er líka í miklu uppáhaldi því þar hef ég mína eigin lagalista þar sem ég safna saman lögum sem vekja áhuga minn og ég er nánast alæta á tónlist.“

Til hvaða lands ferðaðist þú síðast?

„Ég fór til Norður-Ítalíu fyrir stuttu og dvaldi við Lake Como og í San Grato í Piedmonte-héraðinu þar sem ríkir gríðarlega mikil matar- og vínmenning og hver einasti fermetri lands er nýttur til ræktunar. Frábær ferð með kærastanum mínum, foreldrum, systkinum og mökum þeirra.“

Hvernig verður veturinn?

„Ég held að veturinn verði skemmtilegur. Við erum vonandi að komast út úr kórónuveirutímanum og getum farið að njóta betur þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Ég hlakka til þess að eiga góðar samverustundir með vinum og fjölskyldu, stunda mína útivist, halda áfram að æfa mig á gönguskíðum, ferðast og fræðast.“

Hvar er best að borða úti?

„Ætli uppáhaldsveitingastaðurinn minn sé ekki Apótekið en annars verð ég að segja að það er alveg ótrúlegur fjöldi góðra veitingastaða hér á landi. Með auknum fjölda ferðamanna njótum við Íslendingar góðs af því að geta sótt hágæða veitingastaði um land allt.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ég hef aldrei verið dugleg að borða morgunmat, því miður. Ég fæ mér þó alltaf lýsi á morgnana og tek mín vítamín og borða yfirleitt banana. Svo er góður kaffibolli alveg ómissandi áður en ég held út í daginn.“

Hvað gefur lífinu gildi?

„Ég er mikil fjölskyldumanneskja og samvera með vinum og fjölskyldu gefur lífinu gildi. Núvitund er eitthvað sem ég er að reyna að tileinka mér og finnst mér mikilvægt að reyna að njóta augnabliksins og taka því sem höndum ber. Stundum er meðbyr og í annan tíma mótbyr en á endanum skiptir hugarfar manns sjálfs mestu máli og hjá mér er lífið yfirleitt gleði og hamingja, sama hvað.“

Hvað ertu að fást við núna?

„Þessa dagana er ég að vinna að uppbyggingu nýsköpunar- og þróunarseturs í samstarfi háskólanna á Vesturlandi þar sem áhersla verður lögð á nýsköpun, rannsóknir, fræðslu og frumkvöðlastarf á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og skapandi greina. Mikil tækifæri liggja þar fyrir okkur hér á landi og með aukinni áherslu á sjálfbærari og vistvænni matvælaframleiðslu á Ísland möguleika á að ná til ört stækkandi markhóps, hér heima sem og erlendis.

Ég rek einnig litla heildverslun sem flytur inn vistvænar og umhverfisvænar vörur sem leysa af hólmi vörur sem unnar eru úr plasti eða eru á annan hátt skaðlegar umhverfinu. Mér finnst frábært að geta lagt mitt af mörkum við að hjálpa neytendum að geta valið umhverfisvænni vörur í þágu náttúrunnar og komandi kynslóða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »