„Þetta snýst um svo miklu meira en fegurð“

Hulda Vigdísardóttir tekur þátt í Miss Multiverse.
Hulda Vigdísardóttir tekur þátt í Miss Multiverse.

Hulda Vigdísardóttir tekur þátt í keppninni Miss Multiverse í Dómínska lýðveldinu í lok árs. Hulda lýsir keppninni frekar sem persónuleikakeppni en fegurðarkeppni. Keppnin tekur þrjár vikur og segir Hulda þrautirnar sem stúlkurnar takast á við fjölbreyttar. Hulda er metnaðarfull ung koma sem segist láta hjartað ráða för. 

Hulda segir Miss Multiverse vera sérstaka vegna þess að keppnin er bæði keppni en á sama tíma samnefndur raunveruleikaþáttur. Hulda mun kynnast ungum konum allstaðar að úr heiminum og verja með þeim þremur vikum. 

„Þær eru allar afrekskonur á sínu sviði eða hafa skarað fram úr á einn eða annan hátt. Við þurfum að takast á við hinar ýmsu áskoranir en keppnin reynir ekki síst á innri styrk keppenda. Í raun mætti kalla þetta persónuleikakeppni og eitt stórt ferðalag þar sem við kynnumst bæði nýrri menningu og töfrandi stöðum. Um leið er ákveðið ferðalag í því þroskaferli sem fylgir slíkri keppni og ég er ekki síður spennt yfir hvert það leiðir mig. Ég lít á keppnina sem ævintýralegt tækifæri sem getur opnað margar dyr ef „rétt er tekið í hurðarhúninn“. Þetta verður líka mikil upplifun því við fáum að fara á hina og þessa staði og prófa ýmsilegt sem við myndum kannski aldrei annars fá tækifæri til. Við gistum allan tímann á algeru lúxushóteli, Hard Rock Hotel & Casino Punta Cana, og lokakvöldið er alltaf með glæsilegasta mót,” segir Hulda um keppnina en hún er þriðja íslenska konan sem tekur þátt í keppninni.

Hún segir stigakerfið gagnsætt í Miss Multivese sem kemur í veg fyrir klíkuskap sem oft vill vera raunin í keppnum sem þessum. Þrautirnar sem keppendur þurfa að takast á við eru fjölbreyttar og nefnir hún sem dæmi sex klukkustunda hreystikeppni á strönd. Kallast sá hluti á ensku Last Woman Standing og segir Hulda að keppnin snúist ekki síður um andlegan styrk en líkamlegan. „Keppendur taka einnig greindarvísitölupróf og leysa alls kyns þrautir sem reyna á félagslega hæfni. Það eru engir dómarar, heldur hefur hver áskorun skýra endalínu sem gerir keppnina einmitt mun sanngjarnari en þær sem ég hef tekið þátt í áður. Þetta er keppni fyrir þær sem þora að standa með sjálfri sér og sinni eigin sannfæringu.“

Hulda ákvað að taka þátt í fegurðarsamkeppnum til þess að …
Hulda ákvað að taka þátt í fegurðarsamkeppnum til þess að mynda sér eigin skoðuna á keppnunum. Ljósmynd/Unnur Magna

Ætlaði að taka þátt í fyrra

Hvernig öðlaðist þú keppnisrétt?

„Ég fékk boð um þátttöku í byrjun september síðasta árs sem mér fannst strax mjög spennandi. Ég ætlaði í raun að taka þátt í fyrra, það er í Miss Multiverse 2020, en gat það ekki sökum annars titils sem ég fékk í keppni hér heima ári áður. Ég var komin með titilinn og alla pappíra í hendurnar en þar sem ég var enn að bíða eftir að taka þátt í hinni alþjóðlegu keppninni, þurfti ég því miður að láta Miss Multiverse ævintýrið bíða. Covid-19 spilaði vissulega líka inn í, þar sem ég var óbólusett þá en aðalástæðan var hinn titillinn,“ segir Hulda. Hún segist hafa þurft að fara fara í viðtal og taka upp myndbönd til þess að öðlast þátttöku. Stjórnendur keppninnar voru að leita að fjölhæfri ungri konu. 

„Eftir lokakvöld Miss Universe Iceland 2021 byrjaði ég að fá mjög mikið af skilaboðum, bæði frá Íslendingum en líka rosalega mörg frá útlöndum; skilaboð héðan og þaðan. Ég átti engan veginn von á svona mikilli athygli eftir keppnina hér heima í september - hvað þá frá svona mörgum úti í heimi - en mér þykir mjög vænt um allar fallegu kveðjurnar og stuðninginn. Það var líka viss hvatning að fá svona mörg skilaboð þess eðlis að fólk vildi sjá mig keppa úti fyrir Íslands hönd sem og að fá boð frá ólíkum keppnum um þátttöku. Þegar eigandi Miss Multiverse hafði samband og spurði hvort ég hefði áhuga á að taka þátt í keppninni í ár ákvað ég að slá til. Ég þurfti ekki að fara í gegnum sama ferli og í fyrra, því hún sagði að allt teymið hefði þegar samþykkt mig og að þau vildu fá mig út.“

Hulda er bókaormur og hefur gaman af ferðalögum.
Hulda er bókaormur og hefur gaman af ferðalögum. Ljósmynd/Anna Ósk Erlingsdóttir

Langaði að mynda sér eigin skoðuna á fegurðarsamkeppnum 

Er hægt að kalla þetta fegurðarsamkeppni

„Nei, í rauninni finnst mér ekki hægt að kalla þetta fegurðarsamkeppni því þetta snýst um svo miklu meira en fegurð. Ef það þyrfti að nota eitthvert slíkt heiti, væri þá í raun nær að kalla þetta persónuleikakeppni því þá skipta aðrir þættir einnig máli, svo sem skapgerð, gildismat, tjáning og fleira. Mér hefur reyndar alltaf fundist heitið fegurðarsamkeppni ekki lýsa nógu vel þeim keppnum sem ég hef ýmist tekið þátt í eða fylgst með og stundum hef ég velt því fyrir mér hvort það sé ekki einmitt ein ástæða þess að fólk sem ekki þekkir til af eigin raun gagnrýni slíkar keppnir og jafnvel keppendurna fyrir að taka þátt.

Fegurð er auk þess frekar afstætt og samfélagslega mótað hugtak sem er samsett úr mörgum þáttum en að mínu mati hefur hún einna mest með útgeislun að gera. Þegar einstaklingur er sáttur í eigin skinni, þykir vænt um sig, umgengst aðra af virðingu, ræktar sinn innri mann, sýnir hlýju og er einlægur, þá skín hamingjan frá honum og um leið geislar hann af fegurð.

Ég hef ekki fundið fyrir neinum fordómum í garð Miss Multiverse keppninnar. Öllum í kringum mig finnst þetta bara mjög spennandi og sýna ferlinu áhuga en eflaust horfa einhverjir gagnrýnum augum á keppnina og þá kannski um leið mig fyrir að taka þátt. Ég hef alltaf verið frekar sjálfstæð og verið óhrædd við að fara mínar eigin leiðir. Ég fylgi bara hjartanu. Fólk má auðvitað hafa sínar skoðanir á þessu eins og öðru en ég held samt ― og ég vona ― að fordómar í garð keppna af þessum toga heyri smátt og smátt sögunni til um leið og fólk veit meira út á hvað þetta gengur.

Hulda hefur starfað sem fyrirsæta í níu ár.
Hulda hefur starfað sem fyrirsæta í níu ár. Ljósmynd/Arnór Trausti Kristínarson

Fordómar í garð fegurðarsamkeppna eru í raun ein helsta ástæða þess að ég flæktist upprunalega inn í þennan heim. Ég skildi ekki hve margir voru fordómafullir gagnvart honum án þess að þekkja endilega til hans. Mig langaði að mynda mér mína eigin skoðun, byggða á eigin reynslu en ekki hlusta bara á mat annarra. Fegurðarsamkeppnir hafa lengi verið umdeildar en það er alls ekki sama í hvaða keppni keppandi tekur þátt í. Til eru ótalmargar keppnir í heiminum með ólíkar áherslur og því er nauðsynlegt að kynna sér keppnina vel áður ákvörðun um þátttöku er tekin. Miss Multiverse er að mínu mati ein mest spennandi keppnin nú til dags en hún er ólík öðrum keppnum sem ég hef tekið þátt í og um leið sanngjarnari fyrir vikið. Í Miss Multiverse sigrar sigurvegarinn á eigin forsendum.“

Hvar finnst þér þinn helsti styrkleiki liggja?

„Ætli minn helsti styrkleiki sé ekki bara þrautseigjan? Ég gefst aldrei upp og legg mig alla fram við það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég tel mig vel undirbúna fyrir þessa keppni. Þetta verður svakalega skemmtilegt en um leið mikil áskorun. Jákvætt viðhorf skiptir sköpum í þessu, eins og í langflestu.“

Af hverju tekur þú þátt?

„Þetta verður pottþétt rosa gaman en um leið mjög krefjandi. Ég á eflaust eftir að læra heilmargt og kynnast mörgum flottum konum sem og auðvitað öðru fólki í teyminu. Ég hef trú á því að öll reynsla nýtist á einn eða annan hátt og þetta er öðruvísi keppni en ég hef tekið þátt í áður. Ég lærði snemma að vera óhrædd við að skera mig úr, taka góðum ráðum en leyfa þó hjartanu að ráða för. Ég hef trú á sjálfri mér og tek nýjum áskorunum með opnum örmum. Það er aldrei að vita hvaða tækifæri opna dyr að hinu mesta ævintýri lífsins.“

Skóli, vinna og spennandi tækifæri 

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að keppa eða undirbúa þig fyrir Miss Multiverse?

„Eins og er vinn ég hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og er skráð í doktorsnám í Háskóla Íslands. Ég er einnig aðstoðarkennari í HÍ og hef verið fyrirsæta í tæp níu ár, bæði hérlendis sem og úti í heimi. Ég hef unun af ritlist og þýðingum en árið 2018 gaf ég út mína fyrstu bók. Ég æfði ballett í fjórtán ár og hef alltaf jafngaman af listdansi þó ég sé meira í hefðbundinni líkamsrækt núna. Ég er einnig að gera upp íbúð sem er ansi spennandi verkefni og hef líka brennandi áhuga á ljósmyndun sem og alls konar hönnun.

Annars elska ég að ferðast og reyni að gera sem mest af því. Ég hef komið til 68 landa og stefni á að fara til enn fleiri í komandi framtíð. Mér finnst líka fátt skemmtilegra en að fara í flugtúr í góðu veðri með kærasta mínum og sjá fallega landið okkar í ólíkum ham og alls kyns árstíðarbúningum. Fyrst og fremst er ég þó bara fyrrum harmonikkuleikari og ballerína.“

Hulda tekur þátt í hreystikeppni á ströndinni í Miss Multiverse
Hulda tekur þátt í hreystikeppni á ströndinni í Miss Multiverse

Hvar sérðu þig í framtíðinni?

„Ég stefni á að klára doktorsgráðuna og eins hef ég ætlað mér í um átta ár að taka annað meistarapróf í talmeinafræði. Mig langar líka að vinna í fjölmiðlum; það er eitthvað sem ég held að myndi henta mér og minni reynslu vel. Eins hef gaman að og leiklist og fyrirsætustörfum og það væri gaman að halda áfram í þannig verkefnum. Í kjölfar keppninnar hér heima síðastliðinn septembermánuð bauðst mér tækifæri til að sýna á tískuvikunni í New York í febrúar og taka þátt í World Top Model keppninni. Eitthvað sem kom algerlega á óvart og verður eflaust rosalega mikið ævintýri.

Ég ætla að halda áfram að skrifa og mig langar sömuleiðis að þýða fleiri bækur. Ég hef líka einstaklega gaman af ljósmyndun og alls kyns hönnun og vildi gjarnan læra meira á þeim sviðum. Mig langar líka að halda áfram ferðast og víkka sjóndeildarhringinn. Ég á mér marga framtíðardrauma og mér finnst gott að hafa nóg fyrir stafni þó ég lifi í núinu,“ segir Hulda að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál