Una Schram lifir drauminn í London

Una Schram í blómahafi við tökur á myndbandinu við lag …
Una Schram í blómahafi við tökur á myndbandinu við lag hennar Crush. Ljósmynd/Aðsend

Ungstirnið Una Schram gaf nýverið út lagið Crush sem er fyrsti smellurinn á væntanlegu lagasafni sem hún vinnur nú að. Lagið Crush hefur hlotið hefur miklar vinsældir á meðal hlustenda og hafa viðtökur á tónlistarmyndbandinu farið fram úr björtustu vonum að sögn Unu. Á innan við sólarhring eftir að tónlistarmyndbandið fór í loftið höfðu yfir þúsund manns horft á það og hlustað á lagið. Una segist hafa haft fulla trú á nýjasta smelli sínum þar sem popptónlist falli oft í kramið hjá fjöldanum.

„Ef ég á að vera hreinskilin þá hafði ég frekar mikla trú á þessu lagi og er stolt af því. Þetta er svona klassískt popplag sem er eitthvað sem ég hef ekki unnið mikið með áður en gat ímyndað mér að það gæti fengið góða spilun. Það kemur manni samt alltaf jafn mikið á óvart að fá svona góðar viðtökur og það er alltaf svo gaman,“ segir Una sem lýsir tónlistarstefnu sinni einhvers staðar mitt á milli popps og R&B stefnanna. Þá segir hún tónlistarstílinn breytast og þróast í sífellu líkt og lífið sjálft.

Una segist elska það að vinna í samstarfi við aðra …
Una segist elska það að vinna í samstarfi við aðra upprennandi listamenn. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Una er spurð út í væntanlega tónlist segir hún helling vera á leiðinni. „Ég hef aldrei gefið út „debut“ plötu áður en það stendur til að gefa út smáskífu, eða svona lagasafn frekar. Ég er ekki alveg tilbúin í það að fara að gefa út einhverja svona „day due“ plötu frá mér núna. Ég ætla aðeins að bíða með það,“ segir Una og bætir við að það er ekki komin ákveðin dagsetning á útgáfu lagasafnsins. „Ef við náum þessu ekki fyrir jól þá verður það bara gefið út strax eftir áramót líklegast. Þetta er allt það langt á veg komið.“

Söngkonan Una Schram

Una Schram ólst að mestu leyti upp í Vesturbæ Reykjavíkur og gekk lengst af í Vesturbæjarskóla. Þegar Una var níu ára gömul fluttist fjölskyldan búferlum á Hólmavík í Strandabyggð þar sem hún bjó fjögur ár. 

„Ég hef alltaf verið mikið borgarbarn og átti erfitt með að vera svona uppi í sveit. En ég byrjaði mjög ung að syngja og það hjálpaði mér hversu gott tónlistarnám var í boði á Hólmavík. Grunnskólinn var í samstarfi við tólistarskólann þannig að voru bara allir að læra á hljóðfæri og allir syngjandi þarna þannig þetta var ótrúlega góður möguleiki fyrir mig þar sem mér hafði alltaf fundist gaman að syngja og spila og svona,“ segir Una um upphafið.  

Um þessar mundir stundar Una söngnám við tónlistarskólann BIMM (British and Irish Modern Music Institute) í Lundúnum sem metið er til bakkalárgráðu.

„Ég bý í London í augnablikinu því ég er að klára BA-gráðu. Ég er að læra söng hérna úti,“ segir Una. „Mér hefur alltaf dreymt um að verða söngkona. Fjölskyldan mín getur alveg vitnað fyrir það. Þannig ég hef alltaf geta séð sjálfa mig fyrir mér á þessum stað í lífinu,“ segir hún.

Blóm og fiðrildi og önnur krúttlegheit eru ansi áberandi í …
Blóm og fiðrildi og önnur krúttlegheit eru ansi áberandi í myndbandinu við nýjasta smellinn Crush. Ljósmynd/Aðsend

Lagið Crush 

Una segist semja bæði texta og laglínur en hún og plötusnúðurinn og lagasmiðurinn, Arnar Ingi, sem er best þekktur undir listamannsnafninu Young Nazareth, hafa unnið náið saman upp á síðkastið. Segir Una samstarf þeirra vera einstaklega gott. 

„Hann sér um að smíða lagið út frá mínum textum og laglínum. Við hjálpumst svo að og látum allt smella saman en hann vinnur út frá mínum óskum. Við unnum saman sem algjört teymi við gerð á laginu Crush,“ segir hún. „Svo trommaði Bergur Einar, trommuleikari hljómsveitarinnar VÖK og GDRN-bandsins líka inn á lagið.“ 

Hugmyndin á bakvið lagið og textann spratt upp fyrir tveimur árum síðan þegar Una var að skoða myndbönd í gegnum samfélagsmiðilinn Tik-Tok. Á þeim tíma var Una einhleyp en í dag er hún í föstu sambandi. Textinn í laginu Crush fjallar í stuttu máli um það að hrífast af einhverjum, verða skotin/nn.

„Lagið er ekki beint um neitt sérstakan sem á stað í hjarta mínu en uppsprettan er í rauninni sú að ég var að skrolla á Tik-Tok og rakst á einhvern gaur sem mér þótti sætur. Ég þekkti hann ekki neitt, fannst hann bara sætur og ég var ung og „single“. Kveikjan á laginu er um það. Þessa byrjunarstigs tilfinningu sem maður upplifir þegar maður finnur fyrir skoti. Ótrúlega grunnar tilfinningar sem fylgja krúttlegu skoti sem byggist í rauninni ekki á miklu nema því að sjá einhvern sem er sætur og halda að maður geti gert eitthvað fyrir hann,“ útskýrir hún. 

Æðibitinn Binni Glee kemur við sögu

Lag hennar Crush kom út fyrir rúmlega mánuði síðan en myndbandið hefur nýlega litið dagsins ljós. Myndbandið er ótrúlega sællegt og sætt þar sem fiðrildi og blóm leika stórt hlutverk. Það sem vakti þó mesta eftirtekt er að áhrifavaldurinn og æðibitinn Binni Glee brá fyrir í myndbandinu. 

„Það elska hann allir. Það er bara þannig. Við þekktumst ekki neitt áður en ég hef lengi verið mikill aðdáandi Binna Glee. Sérstaklega eftir að Æði þættirnir komu út, þá sá maður enn betur hvað hann er vinsæll karakter á Íslandi. Ég ákvað bara að hafa samband við hann því mér finnst hann góður kandídat sem táknmynd fyrir Hinsegin samfélagið á Íslandi, mig langaði að spila þetta þaðan. Ég vildi koma á óvart með því að fá hann inn en ekki einhverja bestu vinkonu eða eitthvað sem yrði augljóst. Fá frekar strák inn á þessum tímapunkti heldur en stelpu með það í huga að leika mér aðeins með kynjahlutverkin,“ útskýrir Una. „Hann er svo skemmtilegur og það er svo gaman að vinna með honum.“

Bestu vinir - í það minnsta núna. Una segist alltaf …
Bestu vinir - í það minnsta núna. Una segist alltaf hafa verið aðdáandi Binna Glee. Ljósmynd/Aðsend

Samstarf við aðra á uppleið

Útlit og umgjörð tónlistarmyndbandsins lítur skemmtilega út. Segir Una það að stórum hluta vera í höndum Júlíu Grönvaldt þar sem hún aðstoðar Unu við að ná fram ákveðinni stemningu og ásýnd hverju sinni og skapa heildarútlit sem þeim báðum hugnast. 

„Ég er svo heppin að hafa eina ofurkonu í því stússi. Ég sé svo sannarlega ekki um það að dressa mig alveg sjálf. Hún framleiddi þetta myndband og sér eiginlega um það hvernig allt lítur út hjá mér. Hún er inni í öllum stíliseringunum en ég hef fullt til málanna að leggja varðandi þessa þætti líka. Þetta er allt unnið í sameiningu út frá mínum hugmyndum sem hún hjálpar mér að vega upp.“ Þá segir Una að hún sé mikið fyrir það að vinna með ungum og upprennandi listamönnum á hinum ýmsu sviðum. Til dæmis vinni hún mikið með ungum fatahönnuðum sem tilbúnir eru að eiga í samstarfi.

„Sædís Ýr fatahönnuður hefur verið að vinna með okkur og hefur lánað okkur fatnað og skó. Klæðnaðurinn sem ég var í hjá Gísla Marteini var frá henni og svo er kjóllinn sem ég klæðist í fiðrildaatriðinu í myndbandinu líka frá henni. Theodóra Gyrðisóttir fatahönnuður hefur líka unnið með okkur. Ég elska að vinna með öðrum og langar að gera meira af því. Þá eru allir að hjálpa öllum og allir græða á því. Ef fólk er til í svona samstarf til þess að hjálpast að upp stigann þá er það geðveikt sko,“ segir Una að lokum.

View this post on Instagram

A post shared by una schram (@schramuna)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál