„Framtíðin er ekki byggð á brauðfótum“

Hlaðvarpssysturnar Sylvía Briem Friðjónsdóttir og Eva Mattadóttir færa út kvíarnar …
Hlaðvarpssysturnar Sylvía Briem Friðjónsdóttir og Eva Mattadóttir færa út kvíarnar með opnun Bohéme hússins. Ljósmynd/Aðsend

Þær Eva Mattadóttir og Sylvía Briem Friðjónsdóttir eru þekktar fyrir að halda úti hlaðvarpsþættinum Normið. Normið hefur náð miklum vinsældum og hefur þeim vinkonum verið líkt við eins konar leiðtoga lífsins hjá mörgum kvenkyns hlustendum. Nú hafa þær bætt við enn einni leiðinni til þess að hjálpa fólki að bæta lífsgæði sín. Í október opnuðu þær vefverslunina Bohéme húsið þar sem finna má alls kyns náttúruleg hráefni sem kallast aðlögunarefni og stuðla að bættri andlegri og líkamlegri líðan.

„Við fáum mikið út úr því að læra á lífið og miðla því svo áfram svo fólk geti upplifað betri lífsgæði. Þegar við fundum og kynntumst vörunum frá Apothékary sem fást í Bohéme húsinu þá leið okkur svolítið eins og við hefðum fundið gull,“ segir Eva. Sylvía tekur í sama streng og segir vörurnar fyrir alla.

Þær Eva og Sylvía hafa alltaf haft áhuga á fólki og mannlegri hegðun og hafa verið að þjálfa fólk síðustu tíu árin á vegum Dale Carnegie og leggja þær allt kapp á að miðla víðtækri reynslu sinni með öðrum. Reynsluheimar þeirra eru með frábrugðnu sniði hvor frá öðrum, sem staðfestir að verkfærin sem þær hafa tileinkað sér í gegnum lífið geti vel hentað fleirum en einum.  

Aðlögunarefni sem bæta líkamsstarfsemina

„Aðlögunarefni eru jurtir sem að geta hjálpað líkamanum að vinna úr streitu. Þau eiga það til að hjálpa einstaklingum að jafna út núverandi streituvalda bæði í heila og taugakerfi. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að dagleg inntaka á auðlögunarefnum getur dregið úr kvíða, þreytu, streitu, aukið athygli og þol. Aðlögunarefni eru ekki skyndilausn, hráefnin þurfa að aðlagast einstaklingnum. Þó svo það sé ekkert til sem að heitir kraftaverkalækningar gæti fólk upplifað mikil lífsgæði og bætingar út frá inntöku. Góð heilsa er þolinmæðis verk og það er mikilvægt að fylgjast með áhrifunum sem að þetta hefur á líkamann með tímanum,“ útskýra þær Eva og Sylvía.

Þær Eva og Sylvía mæla með því að setja chill …
Þær Eva og Sylvía mæla með því að setja chill the f* out blönduna út á hafragrautinn á morgnanna. Ljósmynd/Aðsend

Reynsla og upplifanir þeirra beggja hafa haft áhrif á sýn þeirra á lífi en báðar eiga þær sínar áfallasögur. Leiðin að betra lífi hefur gefið þeim margt jákvætt sem nýtist þeim í dagsins amstri og hægt er að hafa að leiðarljósi út ævina. Þá eru þær báðar miklir hugsuðir og láta ekki plata sig út í neitt. „Fyndið að okkar mottó er það að allt þarf að vera byggt á traustum grunni vegna þess að framtíðin er ekki byggð á brauðfótum.“ 

„Ég á það til að sökkva mér rosalega djúpt í rannsóknarvinnu þegar ég er að skoða hluti. Ég lærði heilsumarkþjálfun 2016 og var búin að lesa um allskonar hráefni sem að geta gert manneskjunni afskaplega gott. Ég keypti svo þessi hráefni héðan og þaðan og lét senda heim þar sem það er erfitt að verða sér út um þetta hér heima. Þegar við Eva fundum svo Apothékary co. sem að er eitt af þeim merkjum sem að við flytjum inn hoppuðum við hæð okkar af gleði. Vörurnar nýta sér mátt náttúrunnar sem að er svo öflug og getur gert okkur svo gott á svo margan hátt.“ segir Sylvía.

 „Ég skil vel að það nenni ekkert allir að skoða allt í þaula eins og við, en við höfum brennt okkur á því að prófa eitthvað sem leit út fyrir að vera sniðugt en upplifðum vonbrigði. Það er ekki góð tilfinning. Sérstaklega þegar maður er vongóður um að eitthvað muni hafa mikil og góð áhrif á líðan,“ segir Eva.

„Það er mikilvægt að fólk hlusti á innsæið sitt. Það er enginn alveg nákvæmlega eins líkamlega til dæmis. Líkamsstarfsemi okkar Evu er svo langt frá því að vera eins. Það þurfa allir að læra að lesa í sjálfan sig, það er svo valdeflandi að vita hvað rútínur og vanar gera okkur kraftmeiri, það er gott að láta ekki aðra segja sér hvað er best heldur finna það sjálfur. Við erum svo ótrúlega gjörn á að hundsa það hvað líkama og sál vantar og hvað það er sem við viljum raunverulega. Margir kannast við að fá mörg merki frá líkamanum sem svo fólk sneiðir síðan framhjá og neitar að taka alvarlega. Hörkum allt af okkur og tökum heilsunni sem sjálfsögðum hlut. Við eigum ekki að vera að troða okkur öllum alltaf inn í sama rammann,“ útskýrir Sylvía.

Blanda má öll efni og blöndur út í hvaða matvöru …
Blanda má öll efni og blöndur út í hvaða matvöru sem er. Shatavari aðlögunarefnið er sagt einstaklega áhrifaríkt þegar ,,Rósa frænka er í heimsókn" hjá konum. Ljósmynd/Aðsend

Hrein og áhrifarík hráefni

Þær Eva og Sylvía hafa komist að því að matur sé meðal. Hráefni beint úr náttúrunni hafa verið notuð frá fornu fari og er máttur þeirra talinn mikill. Má því segja að fortíð og framtíð séu að mætast með hráefnunum sem Bohéme húsið býður upp á. En vörurnar eru framleiddar úr sjaldgæfum hráefnum sem eru ekki fáanleg hvar sem er. Hráefni koma víðs vegar úr heiminum frá bestu fáanlegum ekrunum í löndum eins og Indlandi, Japan, Suður-Ameríku og fleiri. Stofnandi og eigandi framleiðslunnar er japönsk kona sem heitir Shizu Okusa en fyrirtækið heldur úti starfsemi sinni í Bandaríkjunum undir nafninu Apothékary co.                      

Vörurnar eru einfaldar til inntöku, og segja þær Eva og Sylvía að setja megi efnin út í nánast hvaða matvöru sem er. Þá hafa stórstjörnur á borð við Chrissy Teigen lofsamað þessar vörur og áhrif þeirra. 

„Móðir náttúra er svo öflug. Það er mikill ávinningur að neyta hráefna beint úr náttúrunni. En þetta eru hráefni sem við höfum verið að leita að en aldrei fundið hér heima. Ég fór oft á Gló og fann kannski eitthvað eitt, en þá var jafnvel búið að bæta hinu og þessu við, sem sagt ekki hrein vara. Ég var svo oft að panta efni að utan og það var stundum smá vesen. Þannig við erum ekkert smá þakklátar fyrir að hafa fundið þetta og að geta búið til framboð hérna heima með hreinni samvisku. Þetta er það sem ég hef verið að leita að í svo mörg ár,“ segir Sylvía. 

„Ég vil koma því áleiðis að þessi aðlögunarefni eru ekki að fara að koma í staðinn fyrir lyf. Sumir eru að eiga við einhverja sjúkdóma og þurfa að taka lyf við honum. Þetta er hugsað til að auka vellíðan og hamingju. En, það þurfa allir að leyfa líkamanum að aðlagast ákveðnum hráefnum, sérstaklega svona kraftmiklum aðlögunarefnum. Við vitum að það virkar ekki að taka bara eina skeið af lýsi og þá sé maður tilbúinn til þess að sigra heiminn. Þannig virkar þetta ekki. Líkaminn þarf alltaf sinn tíma og aðlögun, sem er ein til þrjár vikur svona venjulega,“ segir Eva. 

Do not disturb blandan er sögð frábær lausn fyrir þá …
Do not disturb blandan er sögð frábær lausn fyrir þá sem glíma við svefnvandamál. Ljósmynd/Aðsend

Á hvaða hátt hafa þessi hráefni aukið lífsgæði ykkar?

„Vörurnar hafa breytt miklu. Svefninn minn er dýpri og lífsgæðin aukast náttúrulega mikið ef svefngæðin eru almennileg. Ég næ bara betri tengingu við sjálfa mig. Svona innri ró, því aðlögunarefni geta jafnað út streituhormón í líkamanum, ég finn að orkan mín er yfirvegaðri. Það að finna jafna orku er góð tilfinning og að geta slakað á þegar maður vill slaka á, þetta eru aukin lífsgæði. Ég gæti aldrei selt vöru sem ég væri ekki 100% viss með. Amma hefur talað um efni náttúrunnar við mig frá því að ég var barn og þetta er bara orðið áhugamálið mitt - og það vill svo heppilega til að það bætir lífið mitt helling,“ segir Eva. 

„Þessa vörur eru mjög hreinar og áhrifamiklar svo að börn ættu ekki að taka þær inn. Sumar vörurnar eru  sérmerktar að þær henti óléttum konum, en þær ættu alltaf að taka ákvörðun í samráði við sinn lækni. Þetta hefur svo mikil áhrif á kerfið þannig það er eins og með allt annað, fólk þarf að skoða það vandlega fyrir sjálft sig hvað það innbyrðir og sérstaklega ef það er að taka inn lyf. Við erum ekki læknar og hver og einn þarf að taka ábyrgð á sínu. Það er því alltaf betra að ræða við lækni um það sem maður er tvístígandi með,“ segir Sylvía.

Góðir vanar geta komið í veg fyrir hátt fall

„Það er oft svoleiðis að við klessum á vegg og ætlum að plástra okkur saman eftir á. Af hverju erum við ekki að koma í veg fyrir vegginn með því að fyrirbyggja og hugsa um heilsuna okkar? Eins og til dæmis streita. Við getum fundið fullt af leiðum til þess að minnka streitu í okkar lífi, þannig að við náum að keyra þokkalega beinan veg án þess að keyra okkur í kaf,” segir Sylvía. “Kulnun og streita er mikil í samfélaginu, við finnum það báðar þegar við erum að þjálfa. Það er ótrúlegt hvað við gerum okkur ekki grein fyrir að við séum alveg út á brúninni. Við þurfum að hlusta á merkin. Það er ekki eðlilegt að vera alltaf þreytt með krónískan hausverk, eiga erfitt með að sofa og lifa lífinu í pirring,“ heldur Eva áfram. 

Við getum komið í veg fyrir þetta eða gripið í taumana þar sem við erum núna. Hver einasta mínúta býður upp á breytingu, við þurfum bara að taka ákvörðun. Það eru til allskonar tæki og tól sem að virka fyrir hvern og einn til þess að komast upp úr mínus ástandi og færast nær eðlilegu lífi. Það á að teljast eðlilegt líf að líða vel, segja þær stöllur. 

Mýtur um karlmennskuna

„Oft upplifum við eins og að það sem við erum að segja og gera sé túlkað sem eitthvað sem henti bara konum. Það er ekkert skrítið, menn sjá tvær konur að tala um vítamín og eiga erfitt með spegla sig í þeim. Vörurnar eru samt sem áður ekki bara ætlaðar konum heldur eru góðar fyrir öll kyn.“

„Það er alveg jafn mikilvægt fyrir öll kyn að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu, sama hvort það er í formi vítamína eða tileinka sér ákveðin ráð sem við gefum í gegnum Normið.“

Þær segja jafnframt að þrátt fyrir að stór hluti hlustenda Normsins séu konur að þá sé hlustenda hópurinn mjög breiður. „Tölurnar segja okkur að alls 15% hlustenda eru karlkyns. Við gætum ekki verið ánægðari með þær tölur. Þættirnir okkar miða nefnilega ekki einungis að konum, heldur bara fólki almennt. Við elskum einfaldlega að hjálpa fólki,“ benda þær réttilega á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál