Arnaldur á ekki skilið að vera drepinn

Bragi Páll Sigurðarson sendi frá sér sína aðra skáldsögu nú …
Bragi Páll Sigurðarson sendi frá sér sína aðra skáldsögu nú fyrir jólin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson gaf nýverið út sína aðra skáldsögu, bókina Arnaldur Indriðason deyr. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar hún um morðið á Arnaldi Indriðasyni og fléttast þar fjöldi persóna úr raunveruleikanum inn í frásögn Braga. Bragi hefur fengist við ýmislegt á meðan hann skrifaði bókina, hann var að gera upp íbúð, á tvö börn og þar að auki var hann að klára skipstjórnarnám.

Hugmyndin kom til Braga þegar hann var að gefa út sína fyrstu skáldsögu, Austur, skáldsögu í 33 köflum, árið 2019. „Ég hafði unnið að henni í þrjú ár og haft hugmyndina í kollinum talsvert lengur. Þar fyrir utan hafði mig dreymt um að skrifa skáldsögu síðan ég var barn. Þannig að þarna var komið mómentið, loksins. Bók sem ég hafði mikla trú á, vissi að fólk myndi hafa gaman af, en hún var eiginlega andvana fædd. Fyrir mannleg mistök fór vitlaust skjal í prent og var bókin því innkölluð. Það þýddi að hún komst ekki í hendur gagnrýnenda fyrr en of seint til þess að eiga séns í flóðinu. Þrátt fyrir það fékk hún mjög jákvæða dóma eftir jól, en lestin var farin,“ segir Bragi í viðtali við mbl.is.

Austur fékk reyndar uppreisn æru í faraldrinum og nú er verið að vinna kvikmyndahandrit upp úr henni. „En það er ekki punkturinn. Punkturinn er sá að þessi jól var Arnaldur, einu sinni sem oftar, mest seldi höfundur landsins, eins og hann er á hverju ári. Hann á mjög dygga lesendur og þjónar þeim vel, enda vinsælasti höfundur undanfarinna tveggja áratuga. Ég fór að grínast með það við vini mína að næsta skáldsaga mín myndi byrja þannig að Arnaldur Indriðason fyndist látinn í kjallaraíbúð í Norðurmýri, og yrði krimmi. Ég gæti ekki lengur þjónað listagyðjunni, ég yrði að fara að selja einhverjar bækur. Þetta spaug vatt svo talsvert upp á sig,“ segir Bragi.

Seinna var hann á sjó með pabba sínum, nýbúinn að fá ritlaun, og ræddu þeir feðgar hvaða hugmyndir hann hefði að skáldsögum. „Ég var með þrjár, eina hugmynd sem ég hafði fengið úthlutað fyrir, aðra sem ég átti talsvert góða smásögu til að byggja á og svo þessa óljósu pælingu um sögu sem hefst á líkfundi Arnalds. Pabbi sagði að það væri sú bók sem hann hefði mestan áhuga á að lesa. Þar með var það ákveðið. Þetta er heiðarlega svarið við því hvers vegna ég skrifaði þessa bók,“ segir Bragi.

„Ef höfundurinn er ekki að skemmta sér við skriftirnar er …
„Ef höfundurinn er ekki að skemmta sér við skriftirnar er mjög ólíklegt að lesandinn muni skemmta sér við lesturinn,“ segir Bragi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnaldur sem persóna ekki aðalmálið

Einhverjum gæti þótt titillinn stuðandi og jafnvel eitthvað skrítið við að Bragi skyldi skrifa um morðið á einum ástsælasta glæpasagnahöfundi þjóðarinnar. Bragi segir að Arnaldur skipti í raun engu máli í þessu samhengi, það sé bara goðsögnin, sem er söluhæsti og vinsælasti höfundur landsins síðustu tuttugu ár.

„Ástæða þess að morðinginn valdi Arnald er vegna þess hversu vel honum hefur gengið. Ef Elísabet Jökulsdóttir hefði verið vinsælasti höfundur síðustu 20 ára þá hefði morðinginn drepið hana og bókin héti „Elísabet Jökulsdóttir deyr“. Ef Jón Kalman hefði verið mest seldur héti bókin „Jón Kalman deyr“. Persóna Arnalds er algjört aukaatriði,“ segir Bragi sem lagði sig fram við að sýna Arnald á sem bestan hátt í bókinni og bætir við að hann hafi alls ekki átt skilið að vera í drepinn í bókinni, ekki frekar en í raunveruleikanum.

„Mér finnst í rauninni mjög sérstakt að enginn annar höfundur hafi tekið upp á því að gera Arnald að viðfangsefni í sögu eftir sig, því hann algjörlega trónir yfir okkur öllum. Hann er mælistikan sem allir rithöfundar landsins miða sig við. Hann býr í hausnum á okkur og borgar þar enga leigu. Var ekki bara tímaspursmál hvenær hann rataði þaðan og á síður skáldverks?“

„Mér finnst í rauninni mjög sérstakt að enginn annar höfundur …
„Mér finnst í rauninni mjög sérstakt að enginn annar höfundur hafi tekið upp á því að gera Arnald að viðfangsefni í sögu eftir sig, því hann algjörlega trónir yfir okkur öllum,“ segir Bragi mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar ég skrifa sögur er ég bara í dúkkuleik“

Í bókinni koma fleiri þjóðþekktir Íslendingar en Arnaldur fyrir. Spurður hvernig það sé að skrifa um raunverulegt lifandi fólk, hvort það sé hægt að gera því góð skil og hvernig tilfinningin sé að vita að þetta sama fólk muni lesa bókina, vísar Bragi í Spaugstofuna og segist sakna hennar.

„Ég held að við sem þjóð áttum okkur ekki alveg á því hversu mikið okkur vantar svona ýktan spéspegil á okkur sjálf. Sjáðu hvað hefur gerst síðan Spaugstofan lagðist af, núna eru allir að taka sig alveg brjálæðislega alvarlega. Allt rosa þungt. Mjög dramatískt. Mín kenning er að ef Spaugstofan, eða eitthvað svipað, væri á skjáum landsmanna vikulega þá værum við ekki heimsmeistarar í geðlyfjaáti.

Á tímum forngrísku leikritanna tíðkaðist það að taka fyrir þjóðþekkta lifandi einstaklinga og skrumskæla þá á sviði. Leyfa fólki að hlæja að öllu þessu merkilega liði sem trónir yfir okkur. Hin gullfallega íslenska hefð þorrablótanna, þar sem bæjarfélög setja upp revíur, almennir borgara klæða sig upp sem nágrannar sínir og gera góðlátlegt grín, þetta er svo falleg leið til streitulosunar, eins og gott djúpnudd á samfélagið,“ segir Bragi.

Hann bendir á að það sé alvanalegt að rithöfundar taki fyrir raunverulegar persónur en að það séu oftast aðrir rithöfundar sem eru löngu látnir. Til samanburðar má til dæmis nefna að hinn raunverulegi Arnaldur skrifar um Kristján sjöunda Danakonung í sinni nýjustu bók, Sigurverkinu.

Bragi segir að sínir áhrifavaldar komi ekki endilega úr heimi bókmenntanna. „Ég hlusta á tónlist þar sem músíkantar skjóta á aðra músíkanta, ég horfi á gamanþætti þar sem gert er grín að raunverulegu fólki. Steindi Jr. gerði mikið af þessu í Steindanum okkar. Hér er þessi pæling bara færð inn í bókmenntaformið. Kannski finnst fólki það alvarlegra af því að það er litið svo á að bækur séu einhvern veginn heilagar, en þær eru það ekki. Þetta eru bara mjög langar lygasögur sem einhver er búinn að skrifa niður og láta prenta út.

Þegar ég skrifa bækur er ég bara í dúkkuleik, stundum finnst mér gaman að leika með tilbúnar persónur sem ég skapa alveg sjálfur, en stundum finnst mér fyndið að grípa í dúkku sem er alvöru manneskja og láta hana trallast aðeins. Þetta er bara leikur. Listsköpun á að vera leikur, á að vera skemmtileg. Ef höfundurinn er ekki að skemmta sér við skriftirnar er mjög ólíklegt að lesandinn muni skemmta sér við lesturinn,“ segir Bragi.

Óhuggulegt að stíga inn í þennan heim

Í bókinni dregur Bragi upp nokkuð drungalegan heim og heldur uppi söguþræðinum með bæði frásögnum af morðingjanum og hugsunum morðingjans. Til þess að komast almennilega inn í hugarheim morðingjans horfði hann á marga ógeðslega þætti og kvikmyndir, las mikið af viðbjóðslegum sögum og viðtölum. „Ég vildi hafa hann eins og raunverulegan og ég mögulega gat. En ég byggði hann líka á fólki sem ég þekki,“ segir Bragi.

Og smám saman var hann kominn með persónuna. „Það er kannski soldið óhuggulegt að stíga inn í þennan heim, en þannig getur menningin verið gluggi inn í ástand sem þú vilt heimsækja en ekki dvelja í. Það er spennandi að horfa á hrollvekju og svo þegar hún er búin dvelur pínulítið af henni í hausnum áfram. Kannski veldur það smá martröð og svona, en í rauninni allt mjög meinlaust. Leikur að upplifunum,“ segir Bragi.

Inn í þennan myrka heim steig Bragi á kvöldin þegar hann hafði sinnt skyldum sem vísitölufjölskyldufaðir þarf að sinna.„Bróðurpartur bókarinnar er þannig skrifaður í myrkri, þar sem ég er þreyttur, líklega soldið illa fyrirkallaður og ruglaður, og mér finnst það sjást á útkomunni. Þau voru að sofna svona um átta á kvöldin, þá settist ég niður og byrjaði að skrifa og var að hætta svona um og upp úr miðnætti. Þá var sambýliskona mín sofnuð líka, þannig að ég skreið upp í og var um morguninn yfirleitt búinn að gleyma því sem ég skrifaði kvöldið áður. Við tók annar dagur uppfullur að skyldum og verkefnum og ábyrgð. Að þeim loknum settist ég niður í myrkrinu, ruglaður eftir daginn og skrifaði. Fjölskyldan þurfti þá voða lítið að verða vör við það að þessi bók væri að fæðast,“ segir Bragi.

Samansettur úr fárveikum einstaklingum

Aðalpersóna sögunnar er rithöfundur. Persónan er nokkuð misheppnuð, rembist eins og rjúpan við staurinn við að skrifa og gefa út en hefur brennt flest allar brýr að baki sér. Hugmyndin að honum kemur úr ýmsum áttum að sögn Braga. „Ég veit ekki hvort það er eitthvert séríslenskt fyrirbæri, en á Íslandi eru til nokkrir einstaklingar sem ég kýs að kalla skálda-aumingja. Þetta eru einstaklingar sem hafa verið að skrifa bækur, ljóð, skáldsögur og allskonar, í allmörg ár, án þess að hafa nokkurn tíma hlotið neina raunverulega viðurkenningu.

Þrátt fyrir þetta böðlast þeir áfram, skrifa og skrifa, pranga bókum upp á fólk, ónáða fjölmiðlafólk og þeir bara skilja ekkert í því af hverju enginn er að fatta snilldina þeirra. Það bara hlýtur að vera einhverjum öðrum að kenna en þeim, því þeir eru jú svoddan djöfulsins meistarar. Þá kenna þeir fjölmiðlum um, úthlutunarnefnd listamannalauna er vinsæll skotspónn, lesendur, aðrir rithöfundar, því ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki slegið í gegn getur einfaldlega ekki legið hjá þeim sjálfum. Þessir menn eru skrokkurinn af því sem varð að Ugga,“ segir Bragi.

En í aðalpersónunni er líka hluti af Braga. „Ég verð 38 ára í mars á næsta ári. Ég hef gefið út tvær ljóðabækur sem allir eru búnir að gleyma og eina skáldsögu sem hvarf í jólabókaflóðinu. Þrátt fyrir þetta er ég fullviss um eigið ágæti. Að minnsta kosti talsvert sannfærður um að skriftir séu það sem ég sé bestur í að gera og því sé á það reynandi að draga fram lífið á þeim. En hvað ef mér er bara ekki ætlað að verða rithöfundur? Hvað ef þessir draumar sem ég hef haft síðan ég var barn eiga bara ekki að verða að raunveruleika? Ætti ég bara að gefast upp, hætta að leita að sökudólgnum annars staðar, ná mér í kennsluréttindi og gerast framhaldsskólakennari eða fara bara á sjó og hætta þessu rugli? Fá bara fastan launatékka á hverjum mánuði? Hversu lengi á ég að böðlast á draumnum? Stefni ég í að verða bara enn einn skálda-auminginn, eins og Uggi? Þetta óöryggi mitt varð svo innyflin í honum. Restin er svo samansett úr hinum og þessum fárveiku einstaklingum sem ég hef ýmist kynnst raunverulega eða í gegnum menningarverk, skálduð og sönn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál