Stóð á krossgötum í Noregi eftir hrun

Aldís Gló Gunnarsdóttir myndlistarkona.
Aldís Gló Gunnarsdóttir myndlistarkona. Ljósmynd/Aðsend

Myndlistarkonan Aldís Gló Gunnarsdóttir flutti til Noregs í hruninu ásamt fjölskyldu sinni eins og svo margir Íslendingar. Hún ákvað að taka af skarið og skella sér í myndlistarnám í Noregi þá 35 ára gömul. Aldísi Gló ákvað að hætta að hugsa um hvað væri söluvænlegt í nýjustu verkunum sínum og málar hefðbundið kynlíf út frá raunveruleika konu. 

„Eins og svo margir þá missti maðurinn minn vinnuna í hruninu. Hann sótti um sem fjármálastjóri hjá dótturfélagi Samskipa í Noregi og fékk og þar með vorum við fjölskyldan flutt til Noregs. Ég hafði unnið sem menntaskólakennari í FÍV í Vestmannaeyjum og var mjög ánægð með vinnuna en launin voru ekki næg til að framfleyta fjögurra manna fjölskyldu. Ég upplifði mig aðeins draga stutta stráið þar sem ég var allt í einu orðin heimavinnandi húsmóðir í landi sem ég hafði aldrei komið til og talaði ekki tungumálið sem varð auðvitað til þess að erfitt var að fá vinnu sem kennari,“ segir hún. 

Sá tækifæri í mótlætinu

„Þegar ég svo þurfti að spyrja sjálfa mig heiðarlega hvað ég vildi gera þá langaði mig ekkert frekar en að mála. Ég man eftir að hafa setið inni í stofu og googlað listaskóla í Álasundi og fann einn. Inntökuskilyrðin voru nokkuð ströng og aðeins 20 teknir inn á ári. Ég lét nú samt vaða og hugsaði með mér að það sakaði ekki að reyna. Nokkru seinna kom svo svarið og ég fékk inn í skólann,“ segir Aldís Gló og þar með hófst upphafið að ævintýrinu.

„Ég var orðin 35 ára þegar ég fór í námið í Noregi. Draumurinn var jú alltaf að verða myndlistamaður en þar sem að tíðarandinn var kannski ekkert að vinna með mér þá ýtti ég því til hliðar og lærði ferðamálafræði í Háskóla Íslands og tók svo réttindanám fyrir kennslu nokkru seinna. Draumurinn hefur líklega þá verið búin að blunda í mér í upp undir 20 ár.“

Aldís Gló ákvað að fara í myndlistarskóla þegar hún var …
Aldís Gló ákvað að fara í myndlistarskóla þegar hún var 35 ára. Ljósmynd/Aðsend

Eftir átta ár í Noregi snéri fjölskyldan heim. „Þrátt fyrir veðrið og almenna velmegun þá kallaði Ísland alltaf á okkur og samviskubitið yfir því að hafa tekið það af krökkunum okkar að umgangast fjölskyldu og vini dró okkur að lokum heim.“

Fáir mála hefðbundið kynlíf

„Ég mála allt mögulegt og notast lang oftast við olíu, einkenni mín eru sterkir litir og skýr form. Ég hef yfirleitt alltaf málað fíg­úra­tív þar sem mjög auðvelt er að lesa hvað línurnar og formin tákna,“ segir Aldís sem er með eina mynd á samsýningu á Garðartorgi og segir hún þá mynd líklega þá einu sem hún hefur málað sem er aðeins út í abrakst. Striginn er fullur af blómum í öllum regbogans litum.

Blómamyndin er á samsýningunni í Gróskusalnum á Garðartorgi.
Blómamyndin er á samsýningunni í Gróskusalnum á Garðartorgi. Ljósmynd/Aðsend

Aldís Gló er núna að vinna að málverkum sem verða sýnd á sýningu í Gróskusalnum á Garðartorgi í vor. Vinnuheitið er Kroppar og kynlíf en í málverkunum rannsakar hún meðal annars hefðbundið kynlíf.

„Ég var lengi búin að mála verk sem að ég vissi að væru mjög seljanleg. Verk sem að pössuðu við sófann og jafnvel fylgdu tískunni og það plagaði mig alltaf aðeins. Ég hafði átt nokkuð mörg samtöl við aðra myndlistamenn í Grósku um að við værum allt of „boring“ og það vantaði alla ögrun í verkin. Ég var sem sagt farin að þyrsta svolítið í að ganga fram af mér og koma mér út úr kassanum. Það var svo einn daginn sem að ég er að ræða þetta við manninn minn og hann sagði bara: „Aldís, hættu að tala um þetta og gerðu það bara“. Þá rann upp fyrir mér að auðvitað væri það rétt hjá honum. Ég fann að ég stóð á tímamótum og nú væri akkúrat passlegt að breyta til, sem ég svo gerði. Ég fór í smá rannsóknarvinnu og áttaði mig á því að það væru ekkert margir á þessari línu. Jú það eru margir sem mála kvenlíkamann en færri sem mála hefðbundið kynlíf.“

Er fólk feimið þegar kemur að kynlífi í myndlist?

„Já, ég tel að fólk sé nokkuð feimið við viðfangsefnið og margir hafa spurt mig hvort að ég haldi að einhver muni hengja þetta upp. Í þetta sinn er mér að mestu sama. Ég lít á þetta verkefni sem þroskaferli í minni myndlist og ætla ekkert að spá í hvort að verkin séu seljanleg eða ekki. Ég hef birt eina af verkunum á samfélagsmiðlum og gerði ég það aðallega til að fá viðbrögð frá fólki. Ég átti mest von á því að myndin yrði tekin út en það gerðist ekki mér til mikillar furðu. Flestir voru mjög jákvæðir og hrósuðu mér fyrir dirfskuna en aðrir spurðu til hvers ég væri að mála svona myndir og þá sérstaklega með tilliti til umræðunnar í þjóðfélaginu. Ég benti því fólki góðfúslega á að ég fann ekki upp á kynlífi þó að ég hafi það fyrir þema núna og að flest söfn út um allan heim eru full af myndum af nöktum konum í öllum stellingum, þar sem karlmenn drottna og stjórna. Ég mála auðvitað út frá raunveruleika konu þar sem að konan er jafnvel sýnd sterk og ráðandi.“

Aldís Gló fékk allskonar viðbörgð þegar hún deildi þessu málverki …
Aldís Gló fékk allskonar viðbörgð þegar hún deildi þessu málverki á Instagram. Myndin fékk þó að lifa. Ljósmynd/Aðsend

Sonurinn stoltur af myndunum

„Ég held að í upphafi þegar ég byrjaði að mála þá fannst unglingunum á heimilinu nóg um en svo þegar þau vöndust þemanu þá áttuðu þau sig á því hvaðan ég var að koma. Að lokum var 18 ára sonur minn farinn að sýna vinum og kunningjum inn í vinnuherbergið mitt og ég gat ekki betur séð en að hann væri bara nokkuð stoltur af mömmu sinni. Þau eru kannski heldur ekki alin alveg hefðbundið upp þar sem að það er búið að draga þau í gegnum óteljandi gallerí og listasöfn og eru því nokkuð vön að sjá list með gagnrýnum augum.“

Málar þú sem kona öðruvísi verk af konum og kynlífi en karlmenn?

„Já ég hugsa það og þó, ég mála yfirleitt konuna í forgrunn og manninn í bakgrunn. Það er alveg ljóst á öllum mínum verkum að konan er ekki þvinguð til neins og nýtur þeirra aðstæðna sem hún er í. Þannig má alveg túlka verkin sem femínisk. Listasagan hefur oftar en ekki sýnt kvenfólk í fáránlegum aðstæðum í samanburði við karla. Til dæmis ef við skoðum verk eftir Manet þá eru tveir fullklæddir menn að spjalla og ein berrössuð kona að góna út í loftið og hin að baksa eitthvað við jörðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál