Hætti á lögmannstofunni og hlustaði á hjartað

Arna Þorsteinsdóttir.
Arna Þorsteinsdóttir. Eggert Jóhannesson

Arna Þorsteinsdóttir meðeigandi SAHARA lagði stund á lögfræði og vann á lögmannstofu eftir laganám í Háskólanum í Reykjavík. Eftir um þriggja ára starf á lögmannstofu hætti Arna en hún segir vinnuumhverfið sem hún er í dag vera allt annað þar sem fær hún að vera allt í öllu. Arna segir ekki hægt að vera fullkomin án þess að vera ófullkomin. 

Á ensku er núverandi titill Örnu „Head of Customer Care“. Arna sér um að halda utan um viðskiptavini, að passa upp á að viðskiptasamband sé gott og veitir teymum fyrirtækisins stuðning. „Það getur verið með ráðgjöf, hugmyndavinnu, strategíu eða annað. Einnig er ég í raun verkefnastjóri fyrir ákveðna viðskiptavini þar sem ég stýri samstarfinu alveg og eru það þá helst stærri verkefni sem fara þvert á fyrirtækið,“ segir Arna þegar hún lýsir starfi sínu. 

Sahara er auglýsinga og framleiðslufyrirtæki og eru verkefnin fjölbreytt og þar með starf Örnu. „Ég hef gríðarlegan áhuga á stíleseringu og næ oft að troða mér í slík verkefni en svo hef ég einnig núna mikinn áhuga á einfaldari framleiðslu eins og Instagram Reels og TikTok-framleiðslu, þar sem ekki er farið í stórar vídeótökur heldur hægt að nota símann og öpp í símanum til að búa til frábært og létt markaðsefni sem passar fullkomlega á þann miðil. Þetta er frábært vinnuumhverfi fyrir týpur eins og mig sem vil helst vera allt í öllu og með fjölbreyttan vinnudag. En auðvitað verður maður einhverstaðar að setja sér mörk til að fara ekki alveg fram yfir sjálfan sig,“ segir Arna. 

„Að taka þátt í að koma auglýsingastofunni SAHARA á laggirnar eftir sameiningu Silent og SAHARA og vera þátttakandi í að sjá það vaxa og dafna og ná þeim árangri sem við höfum náð á þessum stutta tíma er ótrúlegur lærdómur. Ég hef unnið í öllum deildum fyrirtækisins og hef því fengið það tækifæri til að þróast með í takt við þróun SAHARA hverju sinni,“ segir Arna. Hún hefur komist að því í gegnum árin að fjölbreytni í starfi henti henni vel. Hún brennur fyrir að þróast áfram og læra meira í stað þess að festast í einu ákveðnu fari eða hlutverki. 

Lærði lögfræði

„Ég er með mastersgráðu í lögfræði úr Háskólanum í Reykjavík. Ég myndi segja að aðferðarfræðin úr lögfræðinni almennt og hvernig maður tekur álitaefni fyrir og greinir úr þeim sé það sem ég nýti hvað mest. Oft get ég séð hlutina frá fleiri sjónarhornum vegna þessa sem er mjög góður kostur,“ segir Arna um þá námsleið sem hún valdi. 

„Áður en SAHARA er stofnað var SILENT framleiðslufyrirtæki forveri þess. Þar var ég framkvæmdastjóri og meðeigandi. En áður en ég var þar var ég á lögmannsstofu í alveg allt öðru umhverfi en ég er í núna.“

Hefur þú tekið áhættu á vinnumarkaði?

„Heldur betur! Eftir fimm ára lögfræðinám við HR og að hafa starfað á lögmannsstofu í um þrjú ár komst ég að því að mér fannst bara alls ekkert skemmtilegt að starfa sem lögfræðingur! Úff, þvílíkt „fail“ að vera búin að eyða öllum þessum peningum og tíma í þetta flotta nám og henda því svo út um gluggann. Ég var í algjörri tilvistarkreppu og fannst allir horfa á mig og spyrja: „Hvað ertu að pæla stelpa?“ En ég fann það bara svo sterkt inn í mér að ég varð að breyta til og fara í aðra átt. Þaðan finn ég Silent sem ég er svo ótrúlega þakklát fyrir. Ég er sem sagt svo þakklát fyrir að ég hafi hlustað og staðið með sjálfri mér, af því það hefði verið auðveldast að bara sætta mig við það sem ég var búin að koma mér nú þegar í og halda áfram að sætta mig við aðstæður.“

Hefur sína styrkleika og veikleika

„Það tók mig dágóðann tíma að viðurkenna fyrir mér og segja það jafnvel upphátt hverjir mínir styrkleikar og veikleikar eru og fagna þeim frekar en að hafa hljótt um þá eða skammast mín fyrir það – reyna að vera fullkomin. Áður upplifði ég mig eins og ég væri þá kannski að monta mig en það er alls ekki þannig nefnilega. Þegar ég byrjaði að reka mig á veggi og þróast sem starfsmaður að þá fóru eiginleikar mínir einnig að koma sterkari í ljós og þá var mikilvægt skref fyrir mig að fagna þeim og vera meðvituð um mína hæfileika sem og að vera meðvituð um það sem eru bara alls ekki til staðar hjá mér. Ég vinn til dæmis mjög vel með öðrum og þykist aldrei vita eitthvað sem ég ekki veit (mjög heiðarleg) og dreg þá að mér fólkið sem veit svörin og þannig næ ég jafnvel bæði að læra og þróast sem og að lyfta öðrum upp með mér.

Einhversstaðar las ég að orðið „imperfect“ var fundið upp á undan „perfect“ og má kannski segja að ég hafi tileinkað mér það í mínu viðhorfi. Það er ekki hægt að vera fullkomin nema að vera ófullkomin.“

Arna er meðvituð um styrkleika sína en segist ekki vera …
Arna er meðvituð um styrkleika sína en segist ekki vera fullkomin. Eggert Jóhannesson

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? 

„Alls ekki. Ég er með svo mörg markmið og drauma að ég þyrfti að eiga nokkur líf til að klára listann. Margt sem ég ætla að láta verða að veruleika en margt sem fær að haldast sem draumar.“

Hvað gef­ur vinn­an þér?

„Vinnan gefur mér heimilistilfinningu, gleði, öryggi, kraft, vinskap og sköpun.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig og, ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Það má segja að það sé einmitt staðan núna ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég er með einn lítinn 16 mánaða heima sem hefur verið mjög krefjandi og svo á sama tíma að reka fyrirtæki og vera í stjórn í nýju félagi. Ég er þó mjög meðvituð um aðstæður og er núna hægt og rólega að forgangsraða aftur. Ég á það til að hlaupa í allt því mig langar að geta gert allt og vil ekki missa af neinum tækifærum. En stundum þarf maður að bremsa sig af og horfa á þá hluti sem skipta hvað mestu máli.

Ég er mjög heiðarleg og opin með hvernig aðstæður eru í raun og veru og er því ekkert að reyna að fegra hlutina og þykjast vera með allt á hreinu, það er kannski sá eiginleiki sem hefur séð til þess að maður er í einhverskonar jafnvægi ef það má kalla það það. Fjölskyldan og meðeigendur mínir eru bara truflað stuðningsnet og starfsmennirnir í SAHARA. Það eru nefnilega allir með einhvern farangur og þá er bara betra að koma hreint fram í staðinn fyrir að vera að kafna úr móral eða streitu ein út í horni með engan skilning eða stuðning.“

Vinnan er líka áhugamál

„Ég á svo margar fyrirmyndir að mér finnst ég ekki geta nefnt einhverja eina – stundum getur til dæmis dóttir mín verið fyrirmynd mín þegar kemur að því hvernig hún til dæmis sinnir litla bróður sínum eða mamma og hennar einstöku hæfileikar til að skapa eitthvað fallegt úr engu, vinkonur mínar sem ég lít upp til á mismunandi hátt eða jafnvel bara einhver flott kona úr atvinnulífinu. Það er svo mismunandi hvað það getur verið en ég sé oftar ákveðna eiginleika í konum (og körlum) sem mér finnst aðdáunarverðir og vil tileinka mér einnig.“

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

„Úff dagurinn byrjar einhvern veginn klukkan 7:15 og svo allt í einu er klukkan orðin 16:00. Það er grínast með það upp í vinnu að vera á SAHARA-tíma, þá líður tíminn sem sagt aðeins of hratt þannig að það sem er að fara að gerast eftir tvo mánuði er eftir viku á SAHARA-tíma.

En ég fer yfir dagatalið hjá mér daginn áður og ákveð út frá bókuðum fundum hvenær ég vinn í verkefnum þess á milli út frá skilafrestum í rauninni. Oft ef það eru til dæmis fáir eða engir fundir finnst mér gott að byrja daginn heima eða jafnvel taka hann allan heima því þá nær maður að komast yfir svo mikið án þess að fá neina truflun eða án þess að trufla aðra,“ segir Arna og hlær. 

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég vildi að ég væri með ótrúlega flott og fyrirmyndar „mömmusvar“ hér. En ég byrja daginn á að snúsa að minnsta kosti þrisvar sinnum og svo vakna krakkarnir og við keppumst við að drífa okkur að gera okkur til eða drífa alla út. Svo tekur við langur akstur í Grafarvog þar sem þau eru á leikskóla, en við vorum að flytja í Kópavog, og þaðan í vinnuna í Vatnagörðum.

Ég borða sem sagt ekki morgunmat og fæ mér ekki kaffibolla en byrja þó alltaf í vinnunni á einu vatnsglasi. En mínir allra uppáhaldsmorgnar eru þegar við tökum rólega morgna saman upp í rúmi og ég útbý lúxusgraut fyrir okkur, hafragrautur með smá lífrænum súkkulaðibitum. Spjöllum saman og tökum allt með ró.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

„Alls ekki jafn oft og ég ætti að gera en mér finnst erfitt að telja suma tíma sem „vinnutíma“ því margt af þessu er svo mikið dund á kvöldin, samtöl, vangaveltur og slíkt. Það er nefnilega oft erfitt að finna mörkin á hvað er áhugamálið og hvað er vinnan.“

Hvað gerir þú til þess að hlaða batteríin?

„Svona dags daglega er það að komast í ræktina og sund. En það besta sem ég veit um er gott frí í sumarbústað eða að fara í sumarfrí þar sem ég get legið á sólbekk sem allra mest og dormað meirihluta dagsins.“

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

„Ég elska að hitta vinkonur mínar á æfingu eða að fara með fjölskyldunni í sund. Þetta er að minnsta kosti það sem kemur fyrst upp í hugann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál