Klara Sif fer ástfangin inn í 2022

Klara Sif Magnúsdóttir vinnur fyrir sér á Only Fans og …
Klara Sif Magnúsdóttir vinnur fyrir sér á Only Fans og selur þar erótískt og klámfengið efni. Ljósmynd/Aðsend

Klara Sif Magnúsdóttir klámstjarna segist ekki finna mikið fyrir því að hún sé þekkt nafn í samfélaginu. Klara steig fram í sumar og sagði frá reynslu sinni af forritinu Only Fans þar sem hún selur erótískt og klámfengið efni. 

Í viðtali við Smartland segir Klara að árið hafi verið mjög gott, hún hafi fengið tækifæri til að ferðast og svo fann hún ástina í London á Bretlandi.

„Viðbrögðin hafa almennt verið góð. Ég hef ekki upplifað neitt neikvætt eða neitt svoleiðis,“ segir Klara spurð hvernig viðbrögð hún fékk eftir að hún opnaði sig um að hún ynni fyrir sér á Only Fans. „Ég tek ekkert mjög mikið eftir því að fólk viti hver ég er.“

Hefurðu fengið fleiri áskrifendur eftir að þú opnaðir þig um þetta?

„Þetta hefur aðeins farið upp og niður. Sumir mánuðir ganga betur en aðrir, en það má alveg búast við því,“ segir Klara sem einnig vinnur á veitingastað á Akureyri. 

Tekjuhæsta klámstjarna Íslands

Klara var titluð tekjuhæsta klámstjarna Íslands nú í haust þegar tekjublöð bæði Frjálsrar verslunar og DV komu út. „Ég sá þetta og náttúrulega bara ha? Ég vissi ekkert að þetta væri eitthvað sem allir gætu séð. Þannig það var mjög fyndið og skrítið að fá að sjá þetta og allir eitthvað að tala um þetta,“ segir Klara en þetta var í fyrsta skipti sem hún hefur verið í tekjublaði.

Þegar Klara lítur yfir árið segir hún það hafa verið nokkuð gott. Þrátt fyrir heimsfaraldurinn hafi hún náð að gera fullt af hlutum og ferðast til útlanda. „Þetta er bara búið að vera rosalega gott ár,“ segir Klara.

Klara segir það hafa verið frekar skrítið að hafa verið …
Klara segir það hafa verið frekar skrítið að hafa verið í tekjublöðunum. Ljósmynd/Aðsend

Kynntist kærastanum í London

Þegar Klara var í London fann hún ástina. Kærastinn hennar heitir Delyn og er hann á leið til Íslands fyrir jólin. Þau munu því verja fyrstu jólunum sínum saman á Akureyri. 

„Ég er ógeðslega spennt fyrir því. Ég fer að sækja hann og svo kemur hann hingað,“ segir Klara. Þegar þau kynntust fyrst segir Klara að Delyn hafi verið svolítið skeptískur um að hún seldi efni á Only Fans, eftir að hún útskýrði fyrir honum hvernig hún liti á vinnuna tók hann það í sátt.

„Ég útskýrði fyrir honum hvernig allt virkaði og hvernig ég er búin að fara að þessu. Þá varð hann meira sáttari við þetta og núna skiptir þetta hann engu máli. Það er lykillinn að vera bara alltaf hreinskilinn með allt og ræða allt,“ segir Klara.

Spurð hvernig hún sér framtíðina fyrir sér og hversu lengi hún ætli að vinna fyrir sér á Only Fans segist hún ekki vera með nein stór framtíðarplön. 

„Ég rosalega mikið bara að lifa í núinu. Ég get aldrei séð neitt fyrir mér gerast þannig ég ætla bara að taka þetta dag fyrir dag og vona það besta,“ segir Klara.

„Ég hef alveg hugsað mér að ég hætti þessu einhvern tíman, en það er alls ekki á planinu á næstunni. En við sjáum hvað gerist,“ segir Klara.

Klara kynntist kærastanum sínum í London í sumar og ætla …
Klara kynntist kærastanum sínum í London í sumar og ætla þau að eyða jólunum saman hér á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is