Lesendur með hjartað á réttum stað

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Þegar horft er yfir 2021 þá var árið alls ekki eins goslaust og talið var í byrjun. Fólk var ekki bara heima hjá sér með skítugt hár í sjúskuðum heimafötum. Fólk var á ferð og flugi þótt það væri kannski ekki að plana neinar heimsreisur. Fólk var með hjartað á réttum stað, fólk fann ástina, fólk fór í sitthvora áttina, fólk flutti, fólk græddi á tá og fingri, fólk gekk í hjónaband, fólk reifst og skammaðist, fólk breytti heima hjá sér og sumir breyttu heiminum.

Lesendur Smartlands kusu konu ársins og að þeirra mati er það Rúna Sif Rafnsdóttir. Það er óhætt að segja að Rúna Sif hafi breytt heiminum. Ef hún hefði ekki gert það sem hún gerði á árinu þá eru líkur á því að Eldur Elí, sem nú er níu mánaða, hefði ekki lifað af. Fyrr á þessu ári kom í ljós að Eldur Elí þyrfti nýja lifur til að geta haldið áfram að lifa. Foreldrar drengsins gátu ekki gefið honum af sinni eigin þar sem hún passaði ekki við. Þegar Rúna Sif heyrði af þessu, en hún er vinkona foreldra Elds Elís, þurfti hún ekki að hugsa sig tvisvar um. Hún fór í prufu og þegar í ljós kom að hennar lifur passaði fyrir litla vin hennar spændi hún af stað frá Tálknafirði og var til í að leggja á sig sjö tíma skurðaðgerð og ferðalag út í heim til þess að bjarga lífi þessa litla drengs. Það var ekki eins og hún hefði ekkert að gera. Hún var í námi og á sjálf eiginmann, þrjú börn og tvö stjúpbörn.

Það hreyfir við mér að við lifum í samfélagi sem er komið á þann stað að líta á manneskjur eins og Rúnu Sif sem konu ársins. Þegar lesendur fengu að kjósa um konu ársins bjóst ég alveg eins við því að kona ársins að mati lesenda væri sú sem hefði grætt mest af peningum á árinu, sú sem hefði gift sig í flottasta kjólnum, sú sem hefði meitt annað fólk opinberlega eða sú sem hefði verið í sem minnstum fatnaði á Instagram.

Sem betur fer eru lesendur Smartlands með hjartað á réttum stað. Það er nefnilega svo auðvelt að læka eitthvað á félagsmiðlum eða gefa stóra gjöf og senda svo út fréttatilkynningu um hvað þú ert mikið stórmenni. Það geta allir lækað og sent út fréttatilkynningu eða grobbað sig af eigin afrekum á félagsmiðlum. En það eru ekki allir til í að leggjast undir hnífinn til að vera raunverulega góðir. Það mætti gjarnan fjölga í þeim hópi og fækka í öðrum.

Gleðilegt ár!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »