„Það er auðvelt að finnast maður ekki eiga neinn séns verandi langelsti nemandinn“

Þorsteinn Guðmundsson.
Þorsteinn Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteini Guðmundssyni finnst að bakgrunnur í leiklistinni styrki sig á marga vegu í sálfræðingsstarfinu. Þorsteinn var að nálgast fimmtugt þegar hann breytti um stefnu og hóf nám við sálfræðideild. 

Þorsteinn hlær þegar blaðamaður bendir honum á hvers konar grundvallarbreyting það er fyrir gamanleikara og uppistandara að gerast sálfræðingur: fyrrnefnda stéttin leggur sig jú fram við að fá fólk til að hlæja, en sú síðarnefnda er gjörn á að fá fólk til að gráta.

Ekki þarf að kynna Þorstein fyrir lesendum enda einn af ástsælustu grínistum landsins. Hann komst rækilega á kortið í Fóstbræðraþáttunum sem hófu göngu sína seint á 10. áratugnum og hefur verið fastagestur bæði á sjónvarpsskjám landsmanna og á sviði síðan þá.

Eftir stúdentspróf lauk Þorsteinn námi frá Leiklistarskóla Íslands og starfaði hér um bil óslitið við leiklist og uppistand þar til hann fékk þá flugu í höfuðið að það gæti verið skemmtileg áskorun að læra sálfræði. „Ég var ekki með það í huga að hætta alfarið í leiklistinni en langaði í tilbreytingu. Það tók mig fjögur ár að ljúka grunnnáminu en þegar upp var staðið hafði mér gengið það vel að sá möguleiki var fyrir hendi að fara í meistaranám, svo ég sló til,“ útskýrir Þorsteinn sem fékk á dögunum starfsleyfi frá Landlæknisembættinu, orðinn 54 ára gamall. Hann bætir við að það hafi orðið honum hvatning til að stíga þetta skref að kona hans, Elísabet Anna Jónsdóttir, fór seint í nám í Háskólanum. „Hún lauk lögfræðináminu og fannst mér það alltaf afskaplega flott hjá henni. Var hennar vegferð mikil hvatning fyrir mig.“

Samhliða náminu starfaði Þorsteinn sem verkefnisstjóri við Bataskóla Íslands þar sem boðið er upp á námskeið fyrir fólk með geðrænar áskoranir og aðstandendur þess en í dag starfar hann hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni í Kópavogi. Þorsteinn kveðst ekki hafa lagt leiklistarskóna á hilluna fyrir fullt og allt en um þessar mundir komist aðeins sálfræðistörfin að og því gat hann t.d. ekki tekið þátt í að semja áramótaskaupið í ár líkt og til stóð.

Með minnimáttarkennd yfir því að vera elstur

Hvernig er það svo að setjast á skólabekk í kringum fimmtugt? Er eitthvað til í því sem fólk segir, að það verði erfiðara með aldrinum að læra nýja hluti eða naut Þorsteinn ef til vill góðs af þeirri reynslu, aga og þroska sem fylgir því að hafa lifað í hálfa öld?

Þorsteinn segir sálfræðinámið mjög krefjandi og að fyrstu annirnar einkennist af strembnum vísindafögum og utanbókarlærdómi. „Ég sá það strax í fyrstu hlutaprófunum að þetta yrði stærra verkefni en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég varð því snemma að finna mér heppilega leið til að sinna náminu, sem var kannski önnur leið en flestir samnemendur mínir gátu farið. Var ekkert sem hét að leyfa lesefninu að safnast upp og ætla að taka tarnir rétt fyrir próf heldur varð ég að vinna jafnt og þétt, og þar held ég að aldurinn og reynslan hafi hjálpað mér að viðhalda góðu skipulagi og aga.“

Þá kveðst Þorsteinn hafa þurft að takast á við eigin minnimáttarkennd og þurfa að sætta sig við að skera sig úr hópnum. „Það er auðvelt að finnast maður ekki eiga neinn séns verandi langelsti nemandinn og vera sáralítið með á nótunum þegar kemur að sumu því sem hálfþrítugum háskólanemum er efst í huga, og líka auðvelt að finnast eins og minnið sé orðið sljórra fyrir aldurs sakir. Þegar á hólminn kom reyndist ekki mikil ástæða til að hafa af þessu áhyggjur, og eftir því sem náminu vatt fram sást æ betur hvernig lífsreynslan og leiklistin, veittu mér hugsanlega forskot á vissum sviðum.“

Ófeimin að tala við kunnuglegt andlit

Sumir gætu haldið að það kynni að vera til trafala fyrir þjóðþekktan skemmtikraft að starfa sem sálfræðingur, þó ekki væri nema vegna þess að stundum gerir fólk ekki greinarmun á leikaranum og þeim hlutverkum sem hann fer með. Þorsteinn segir heimasíðu Áfalla- og sálfræðimiðstöðvarinnar hafa að geyma upplýsingar um alla sálfræðingana sem þar starfa og fólk komi sjaldan í viðtal án þess að vita með hverjum það er að fara að setjast niður. „Við leggjum ríka áherslu á að fólk sé óhrætt að biðja um annan sálfræðing ef það vill, en það á við um flesta að um leið og við byrjum að tala saman þá er grínið og uppistandið fólki ekki efst í huga, og jafnvel ekki ósennilegt að mörgum finnist auðveldara að tjá sig um trúnaðarmál við andlit sem þau hafa séð oft áður.“

Þorstein grunar líka að leiklistin hjálpi honum að lesa betur í hegðun fólks og koma auga á það þegar skjólstæðingar hans eru ekki að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. „Það er hluti af menntun og þjálfun leikarans að kunna að koma auga á ósannfærandi leik, og kannski að leikarar geti fyrir vikið átt auðveldara með að sjá óekta hegðun, þegar fólk hefur sett upp grímu til að fela erfiðar tilfinningar.“

Það er auðheyrt á Þorsteini að hann er á góðum stað í lífinu. Hann heldur áfram að þróa hæfni sína sem sálfræðingur undir handleiðslu reyndara fólks í faginu og mætir spenntur til vinnu á hverjum degi. „Sálfræðingar þurfa að gæta að sér og læra að bera ekki ofurábyrgð á öllum skjólstæðingum sínum, því annars er hætt við að þeir kulni fljótt í starfi, en vinnan er annars áhugaverð og gefandi, og gaman að tengjast bæði samstarfsfólki mínu og þeim sem til okkar leita. Er þetta starf, fyrir mig, eins og draumur í dós.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »