„Kaupi aðeins flíkur sem ég er 100% ánægður með“

Coco Viktorsson fór í klæðskeranám sem breytti miklu. Coco er …
Coco Viktorsson fór í klæðskeranám sem breytti miklu. Coco er mjög skapandi og á veggnum má sjá listaverk eftir Coco sem búið er til úr pappír. mbl.is/Kristinn Magnússon

Coco Viktorsson hannar alla búninga Páls Óskars auk þess sem hann hefur hannað búninga fyrir aðra listamenn á borð við Diddú og Heru Björk. Coco byrjaði ungur að árum að sauma föt og breyta þeim eftir sínu höfði en ákvað síðar að afla sér menntunar á því sviði til þess að öðlast meiri þekkingu á sníðagerð. Hann valdi því klæðskeranámið í Tækniskólanum og útskrifaðist sem klæðskeri árið 2012. 

Coco fæddist í litlum bæ við rætur Amazon í norðurhluta Perús en ólst upp með föðurfjölskyldu sinni í Lima frá sex ára aldri. Coco fluttist 24 ára til Íslands og hefur búið hér alla tíð síðan.

„Vinkona mín var að ferðast um Suður-Ameríku og bauð mér heim til Íslands. Ég sagði bara „why not?“ Ég var hjá fjölskyldu hennar í dágóðan tíma og þau studdu vel við bakið á mér og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Ég var mjög heppinn því það hlýtur að vera erfitt að flytja til annars lands og njóta ekki svona góðs stuðnings,“ segir Coco.

Áhuganum á hannyrðum ekki vel tekið

Faðir Coco lagði alltaf mikla áherslu á að hann hlyti góða menntun og setti hann í einkaskóla þar sem hann lærði meðal annars frönsku og önnur tungumál. Fatahönnun hafði þó alltaf heillað hann og var hann ungur farinn að sauma eigin föt en margir sýndu þessum áhuga hans lítinn skilning.

„Ég hafði alltaf mikinn áhuga á tísku og hannyrðum en þeim áhuga var ekki vel tekið innan fjölskyldunnar þar sem það þótti oft vísbending um aðrar tilhneigingar. Stundum velti ég því fyrir mér hvað hefði getað orðið ef ég hefði verið hvattur áfram í stað þess að draga úr mér. Ekki tókst þó að kveða þessa ástríðu algjörlega niður og ég fann leiðir til þess að hlúa að henni. Allt sem tengist handverki heillar mig. Mér finnst gaman að skapa með höndunum og ekki aðeins föt heldur einnig skrautmuni, lampa og margt fleira. Fjölbreytt efnisnotkun heillar mig en ég vinn mikið með efni á borð við pappír, fjaðrir, skrautsteina, pallíettur, ull og allt sem hugsast getur. Ég trúi því að ímyndunaraflið eigi sér engin takmörk og möguleikarnir séu endalausir til sköpunar.

Pabbi minn trúði á menntun en hann hafði hins vegar engan skilning á tísku. Ég átti nóg til þess að klæða mig en ekkert sem gæti kallast tíska. Fötin áttu bara að þjóna sínum tilgangi og ekkert meira en það. Mér er það minnisstætt þegar ég var níu ára, þá fórum við feðgarnir saman í skóleiðangur og hann vildi kaupa skó sem ég vildi alls ekki. Mér fannst þeir ljótir og óþægilegir og grét í tvo daga. Ég gat ekki hugsað mér að ganga í þessum skóm! Ég vildi þykkbotna skó sem voru mikið í tísku en föður mínum leist ekkert á þá. Á endanum gafst hann þó upp og gaf mér þá.

Byrjaði að sauma átta ára

Ég var byrjaður að fikta við að sauma þegar ég var átta eða tíu ára gamall en stjúpmóðir mín átti litla saumastofu. Þegar ég varð svo unglingur ákvað ég að taka málin í mínar hendur og saumaði allt það sem mér fannst flott. Ef ég átti til dæmis buxur sem ég var ánægður með þá tók ég þær í sundur, keypti mér efni og sneið aðrar alveg eins. Ég var þrettán ára þegar ég saumaði fyrstu buxurnar mínar, þær voru frábærar en það sem ég áttaði mig ekki á var að efnið sem ég keypti hlypi í þvotti. Þannig að þær entust ekki lengi en ég lærði af mistökunum. Svo fór ég að sauma skyrtur með sömu aðferð og með tímanum lærði ég að breyta sniðinu eftir mínu höfði. Allir vinir mínir fóru fljótlega að biðja mig að sauma fyrir sig. Löngu síðar fann ég hjá mér þörf til að fara í nám í þessum efnum. Ég vildi skilja flíkina betur og ná betri tökum á sníðagerð og ákvað því að fara í klæðskeranám og útskrifaðist sem klæðskeri 2012. Ég vildi skilja betur fræðin að baki sníðagerð; af hverju vasar geta ekki verið hér og þar og svo framvegis. Mig langaði að geta tekið flík í sundur og breytt henni algjörlega og lært hvað má og hvað ekki í þeim efnum.“

Fór ótroðnar slóðir í náminu

Coco lagði mikla áherslu á að námið myndi gagnast honum í lífinu en þurfti að hafa svolítið fyrir því að kennararnir sýndu því skilning.

„Í náminu var eitt verkefnið að sauma kjólföt. Ég mætti með ljósbleikt silkisatín og kennarinn missti andlitið. Ég lofaði að fara eftir öllum reglum þó að efnið væri öðruvísi. Hún benti mér á að efni sem þetta kallaði á allt aðra meðhöndlun og tækni en til dæmis ullarefni sem notuð eru í hefðbundin kjólföt en þetta var það sem höfðaði til mín. Það tók þó nokkurn tíma að sannfæra kennarann en hafðist að lokum. Eftir það var ekkert mál fyrir mig að koma með alls konar efni og hún bara yppti öxlum og leyfði mér það. Það kunni ég vel að meta sem og hversu þolinmóð hún var. En málið er að ég er í skemmtanageiranum. Ég hef ekki áhuga á að sauma bara venjuleg föt. Það er bara ekki fyrir mig. Ég vil öðruvísi föt. Föt sem fólk annaðhvort elskar eða hatar.

„Mér finnst mjög mikilvægt að það sé ákveðið samtal á milli skólans og nemenda. Nemendur eigi að geta mótað nám sitt upp að vissu marki og að skólar reyni að hlusta á nemendur og koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.“

Vinna vel saman

Coco og Páll Óskar hafa verið vinir í fleiri áratugi og hann segir þá vinna vel saman.

„Ég sá Pál Óskar fyrst á Samtakaballi hjá Samtökunum '78 og kynntist honum svo í gegnum hinsegin samfélagið. Við fórum til dæmis að setja upp drag-sýningar og urðum smátt og smátt góðir vinir. Páll Óskar er einn af þeim sem komast upp með að klæðast einhverju frumlegu. Hann hefur sjálfsöryggið sem þarf. Stundum er það þannig að hann kaupir efni, kemur með það til mín og segir: „Gerðu eitthvað!“ Stundum er efnið hjá mér heillengi áður en ég veit hvað ég á að gera með það. Svo allt í einu kemur það til mín. Að skapa eitthvað nýtt og öðruvísi krefst mikils tíma og maður þarf að skilja efnið sem á að vinna með. Sjálfur er ég mjög vandvirkur og gef mér góðan tíma í að fullkomna lokaútlitið en það eru smáatriðin sem umbreyta hversdagslegum hlut í listaverk. Ef ég er ekki sáttur við lokaniðurstöðuna þá fer það ekkert lengra.“

Vill meiri fjölbreytni í karlatísku

Ljóst er að það er að mörgu að hyggja við búningahönnun.

„Maður þarf að taka tillit til þess hvort sá sem er á sviði hreyfir sig mikið eða ekki. Fötin verða að hreyfa sig með. Þess vegna er Páll Óskar líka mikið í pallíettum því þær endurkasta svo miklu ljósi.“ Þá vill Coco sjá ákveðna viðhorfsbreytingu í garð herratískunnar. „Ef við tökum sem dæmi galakvöld þá eru konurnar í alls konar kjólum en karlmenn eru allir eins. Þannig hefur þetta verið öldum saman, karlatískan hefur lítið sem ekkert breyst. Ég myndi vilja sjá meiri fjölbreytni í litum og sniðum og að viðhorfið í garð karlatískunnar breyttist. Karlar þurfa ekki bara að vera í jakkafötum og bindi til þess að vera fínir.“

Betra að breyta og bæta

Coco er mjög umhugað um umhverfismál og hvetur fólk til þess að kaupa vandaðar flíkur og breyta gömlum flíkum sem dottnar eru úr tísku.

„Það er auðvelt að kaupa og henda en það er ekki gott fyrir umhverfið. Ég hef sjálfur lent í því að kaupa eitthvað á útsölu því það er ódýrt. Svo ákvað ég að hætta því og kaupi aðeins flíkur sem ég er 100% ánægður með, ekki 99% heldur 100%. Ég kaupi ekkert án þess að máta því það er ekkert að marka að sjá föt á gínu eða á ljósmynd á netinu sem búið er að eiga við. Oft enda flíkur sem keyptar eru á netinu í ruslinu og það er í raun tvöfaldur glæpur því þá er maður að menga með því að flytja þær til landsins og svo halda áfram að menga með því að henda þeim í ruslið. Mér finnst gaman að gefa vönduðum, gömlum flíkum úr góðu efni nýtt líf með því að breyta og bæta. Möguleikarnir eru endalausir. Stundum nægir að skipta um tölur, bæta við nýju efni eða sníða flíkina að vaxtarlaginu. Þá lærir maður að meta flíkina upp á nýtt og lengir líftíma hennar,“ segir Coco.

Páll Óskar í fatnaði eftir Coco.
Páll Óskar í fatnaði eftir Coco.
Coco og Diddú en hér klæðist hún kjól eftir hann.
Coco og Diddú en hér klæðist hún kjól eftir hann.
Páll Óskar og Coco á ferðalagi um Perú.
Páll Óskar og Coco á ferðalagi um Perú. Ljósmynd/Aðsend
Páll Óskar í bleikum sparifötum sem Coco hannaði.
Páll Óskar í bleikum sparifötum sem Coco hannaði.
Á vinnustofu Coco. Coco klæðist jakka úr íslensku gæruskinni sem …
Á vinnustofu Coco. Coco klæðist jakka úr íslensku gæruskinni sem hann hannaði. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál