Fyrsta íslenska fegurðardrottningin í World Top Model

Hulda Vigdísardóttir mun keppa fyrir Íslands hönd í World Top …
Hulda Vigdísardóttir mun keppa fyrir Íslands hönd í World Top Model keppninni sem haldin verður í New York í febrúar. Ljósmynd/Aðsend

Fegurðardrottningin og doktorsneminn Hulda Vigdísardóttir er fyrsta íslenska konan sem mun keppa í fegurðarsamkeppninni World Top Model á næstu misserum. Keppnin mun fara fram samhliða tískuvikunni í New York dagana 11-16. febrúar næstkomandi. Umsóknarferlið tók sinn tíma en nú er Huldu orðið það ljóst að hún er ein þeirra 30 kvenna hvaðanæva úr heiminum sem þóttu bera af og hafa fengið inngöngu í keppnina. 

„Ég hef ekkert verið að hafa hátt um þetta vegna þess að ég vildi vera alveg viss um að allt myndi ganga upp út af Covid. En ég er búin að vita af þessu síðan í október en fékk formlega staðfestingu í nóvember. Nú er orðið mjög stutt í þetta og allt komið á hreint. Ég er orðin rosalega spennt að fara út,“ segir Hulda Vigdísardóttir.

„Þetta kom til vegna þess að ég tók þátt í Miss Universe Iceland 2021 og var í öðru sæti fyrir þann titil, eða 1st runner up, eins og það heitir. Það var dómari þar sem hafði samband við mig strax eftir keppni og spurði hvort ég hefði ekki áhuga á þessu. Ég sótti um og fór í gegnum heilmikið umsóknarferli en það eru bara 30 stelpur teknar inn og ég var ein af þeim,“ segir Hulda, aðspurð um aðdragandann.

Hulda hefur unnið fjölmarga titla.
Hulda hefur unnið fjölmarga titla. Ljósmynd/Aðsend

Mikil lífsreynsla og ófá tækifæri

Hulda hefur unnið nokkra titla í gegnum ferilinn og má því segja að hún sé orðin þrautreynd í fegurðar- og fyrirsætubransanum. 

„Dómararnir í Miss Universe Iceland hafa verið mjög duglegir að fylgjast með mér í gegnum samfélagsmiðla, sérstaklega í gegnum Instagram. Þessi dómari hefur verið að skrifa mér og svona, við höfum þannig séð verið í svolitlu sambandi upp á síðkastið. Hún fylgist mjög vel með og ég kann vel að meta stuðninginn. Ég tók þátt í annarri keppni nýlega sem heitir Miss Multiverse og var krýnd Miss Powerwoman þar líka og hún hefur sent mér hvatningarorð í framhaldi af því og svona. Ótrúlega gaman,“ segir hún.

Ætlaðirðu þér alltaf að verða fegurðardrottning?

„Nei, nei, nei. Þetta byrjaði nú bara þannig að ég sá auglýsingu um að það væri opið fyrir skráningu í Miss Universe Iceland og þá fann ég fyrir mjög miklum fordómum í kringum mig og í samfélaginu fyrir svona keppnum. Það var mikið verið að gera grín að þessu og svoleiðis en ég ákvað að skapa mér mína eigin skoðun, eins og ég geri oftast, og langaði að prófa þetta. Ég kýldi bara á þetta, skráði mig til leiks og sé ekki eftir því. Hef öðlast mikla reynslu og fengið fjölmörg skemmtileg tækifæri í kjölfarið. Eiginlega bara gjörbreytt lífi mínu,“ segir Hulda þakklát.

„Ég elska að fá að gera alls konar hluti. Mér finnst það mjög gaman en ég starfa einmitt líka hjá Almannavörnum núna. Er að fara yfir texta og búa til glærur ásamt því að prófarkalesa og svona,“ útskýrir Hulda en hún er skráð í doktorsnám í íslenskufræðum á málvísindasviði við Háskóla Íslands samhliða vinnu og fegurðarbransanum. 

Hulda segir góðmennskuna skína af öllum þeim fegurðardrottningum sem hún …
Hulda segir góðmennskuna skína af öllum þeim fegurðardrottningum sem hún þekkir til. Ljósmynd/Aðsend

„Það fer algerlega eftir keppnum hvaða ávinningur hlýst af þeim,“ segir Hulda en í mörgum keppnum er til mikils að vinna. „Ég áttaði ég mig eiginlega ekki strax á því að þetta væri keppni sem ég er að fara í núna af því að þetta er í inni í New York Fashion Week. Við sýnum á sýningum á vegum tískuvikunnar en svo erum við að keppa innbyrðis líka. Sú sem kemur til með að vinna þá keppni fær verðlaun að verðmæti 5000 dali. Bæði þá í peningum og verðlaunum. Bestu verðlaunin eru samt að mínu mati þau að kynnast fullt af góðu fólki og eignast vini fyrir lífstíð,“ segir hún.

Hulda segir fegurðarsamkeppnir ekki eingöngu snúast um fegurð heldur séu þær ólíkar og að margar séu til þess fallnar að styðja við líknar- og góðgerðarmál af ýmsum toga. Fegurðardrottningarnar fá þar með tækifæri til að leggja hönd á plóginn og láta gott af sér leiða víðs vegar um heim.

„Ég vann titil á Íslandi árið 2019, þá var ég krýnd Queen Beauty Iceland 2020, og svo núna þegar ég keppti úti fékk ég Miss Power Woman titilinn. Ég fékk að ferðast um allt Dóminíska lýðveldið og gæti jafnvel verið á leiðinni þangað aftur núna beint frá New York til að vinna að góðgerðarmálum þar með öðrum stelpum sem hafa keppt í Miss Multiverse. Við höfum unnið hörðum höndum að því að byggja upp skóla í Dóminíska lýðveldinu á vegum keppninnar,“ segir Hulda. „Svo fylgja þessu líka alls kyns öðruvísi ferðalög þar sem maður fær að upplifa ýmislegt annað. Ég fór t.d. í fjölmörg þyrluflugum, snekkjuferðir og alls konar skemmtilegt úti í desember svo það er alveg líka lúxus. Svakaleg lífsreynsla sem maður öðlast,“ lýsir Hulda.

Kærasti Huldu, Birgir Örn, er flugmaður. Hulda græðir stundum utanlandsferðir …
Kærasti Huldu, Birgir Örn, er flugmaður. Hulda græðir stundum utanlandsferðir á því. Ljósmynd/Aðsend

Hægt að vera falleg að innan og utan

Hulda segir fegurðardrottningar langoftast vera mjög hjartaprúðar konur. Það kunni að vera einkennandi fyrir útgeislun þeirra. Þá segist Hulda einnig reyna að temja sér það að vera mannleg og góð manneskja, enda sé hægt að vera fögur að innan jafnt sem utan.

„Ég á margar góðar vinkonur úr þessum bransa en það sem þær eiga allar sameiginlegt er að það skín af þeim góðmennskan,“ segir Hulda. „Hugrún Birta, Katrín Lea, Dísa Dungal, Díana Íva, Jóna Dóra, Kolfinna Mist, Arna Ýr, Anna Lára, Aníta Ösp og allar þessar stelpur, þetta eru allt alveg rosalega góðar manneskjur. Algerar perlur, gullfallegar að innan sem utan,“ segir Hulda um aðrar fegurðardrottningar sem Ísland hefur alið af sér.

En verður maður ekkert yfirlætisfullur á því að vinna svona marga titla?

„Nei, það held ég ekki. Ég hef ekki orðið vör við það. Hvorki hjá sjálfri mér eða þeim stelpum sem ég þekki. Þetta snýst yfirleitt um svo miklu meira en það,“ segir hún. 

Kærasti Huldu, flugmaðurinn Birgir Örn Sigurjónsson, er einn hennar dyggasti aðdáandi. Hulda og Birgir hafa verið í föstu sambandi síðastliðin þrjú ár og á þeim tíma hefur hann stutt við bak kærustu sinnar í einu öllu að hennar sögn. 

Hulda segir Birgi vera sinn helsta stuðningsmann. Hér má sjá …
Hulda segir Birgi vera sinn helsta stuðningsmann. Hér má sjá bleika hanskann sem hann föndraði henni til stuðnings. Ljósmynd/Aðsend

„Hann er einmitt að fljúga núna en ég er svo heppin að fá stundum að fara með honum út þegar hann er að fljúga. Hann er alveg ótrúlegur. Hann kom með mér alla leiðina til Punta Cana og þegar ég keppti heima núna síðast þá mætti hann bara með heimatilbúinn bleikan hanska sem hann hafði föndrað sjálfur. Svona eins og fótboltabullur eru oft með. Hann var búinn að mála hanskann bleikan og setja demanta og dúska á hann allan og stóra mynd af mér með kórónu á hann og var bara stoltasti maðurinn á svæðinu. Á fremsta bekk bara,“ segir Hulda hlæjandi. „Hann kemur með mér í myndatökur og reddar öllu ef eitthvað vantar. Hjálpar til við að stílisera og allt. Greyið hann þarf svo að taka endalaust af myndum af mér svo að ég geti haldið úti Instagram-reikningi. Hann er ómetanlegur stuðningur,“ segir Hulda, ánægð með sinn mann.

Líkt og áður hefur komið fram mun Hulda stíga á svið fyrir Íslands hönd í New York um miðjan febrúar. Það verður gaman að fylgjast með framgöngu hennar á pöllum tískuvikunnar, í World Top Model keppninni og öllu því sem hún mun taka sér fyrir hendur í fegurðar- og fyrirsætubransanum í framtíðinni. 

mbl.is