71 árs og er aldrei löt

Marentza Poulsen er 71 árs.
Marentza Poulsen er 71 árs. mbl.is/Árni Sæberg

Marentza Poulsen smurðbrauðsdama er orðin 71 árs og segist ekki finna neinn mun á sér í dag og fyrir tíu árum. Hún prýðir forsíðu sérblaðs Morgunblaðsins, Á besta aldri. 

Í sumar eru að verða 25 ár frá því Marentza tók við rekstri veitingahússins Flóru bistró í Grasagarðinum í Reykjavík. Eins hefur hún rekið veitingahúsið Klambra bistró á Kjarvalsstöðum undanfarin sjö ár.

„Ég kann að meta að vinna og hef aldrei haft þörf fyrir að hætta því þrátt fyrir að vera orðin 71 árs. Ég er eins upplögð núna í að vinna og ég var fyrir tíu árum. Ég er svo lánsöm að hafa brennandi áhuga á því sem ég starfa við.“

Hverju er það að þakka?

„Ég er við góða heilsu og ég er ekki löt. Ég er í eðli mínu með gott skap, það er nokkuð sem ég fékk í vöggugjöf, svo er ég forvitin um lífið og kann að meta allar þær áskoranir og verkefni sem finna má í hversdagslífinu. Ég hugsa að þessir eiginleikar nýtist mér vel bæði í lífi og starfi.“

Marentza lítur ekki á matargerð sem mikla áskorun, heldur meira það sem fylgir því að vera með eigin rekstur. Mannauðsmálin geta sem dæmi stundum verið flókin.

„Ég elska að gera mat og sjá um veislur, hvort heldur sem er fermingarveislur, brúðkaupsveislur eða afmæli. Að fá að taka þátt í gleðidegi fólks, að fá að vinna og skapa eitthvað alveg einstakt hefur lengi verið áhugamálið mitt.“

Á besta aldri 

Marentza Poulsen prýðir sérblað Morgunblaðsins, Á besta aldri.
Marentza Poulsen prýðir sérblað Morgunblaðsins, Á besta aldri.
mbl.is