Fann ástina 1967 og nýtur lífsis

Petrea Ingibjörg Jónsdóttir.
Petrea Ingibjörg Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Petrea Ingibjörg Jónsdóttir starfaði lengi sem skrifstofustjóri Sjálfstæðisflokksins og er á því að við ættum öll að bera mikla virðingu fyrir vinnu, sama hvað við gerum í lífinu. Hún á mann, þrjú börn og níu barnabörn og er stolt að segja frá því að í hennar 18 manna fjölskyldu eru sjö þjóðarbrot; en fólkið hennar er frá Íslandi að sjálfsögðu, Danmörku, Svíþjóð, Englandi, Brasilíu, Síle og Argentínu.

„Það mætti segja að við værum útibú Sameinuðu þjóðanna,“ segir Petrea, sem er mikil fjölskyldukona en hefur einnig áhuga á alls konar sporti, meðal annars göngutúrum innanbæjar og á fjöll. Hún vill síður en svo láta kalla sig ellilífeyrisþega, enda er hún ekki að þiggja nokkurn skapaðan hlut sem hún hefur ekki borgað fyrir.

Fædd og uppalin á Akranesi

Petrea segir ástandið í dag ekki bjóða upp á fjölbreytt félagslíf þótt hún reyni eftir fremsta megni að hitta vini sína.

„Ég er heppin að vera í gönguhópnum „Sjáum til“ sem hittist reglulega. Ég hef mjög gaman af prjónaskap og prjóna vettlinga bæði eftir mínum eigin uppskriftum og annarra. Svo er ég félagi í Slysavarnafélaginu og sinni því eins og hægt er.“

Petrea er fædd og uppalin á Akranesi og að hluta til í Reykjavík.

„Ég gekk í Barnaskóla Akraness, Melaskóla, Hagaskóla og Kvennaskólann í Reykjavík. Eftir gagnfræðapróf fór ég til Englands í ritaraskóla sem nýttist mér vel þegar ég flutti svo til Englands eftir að ég gifti mig og bjó þar í sex ár.“

Hvernig hafa árin upp úr sextugu verið?

„Ég byrjaði að spila golf um það leyti og hefði átt að vera byrjuð löngu fyrr. Árin milli 60 og 70 var ég í fullri vinnu og sinnti börnum og barnabörnum eftir bestu getu. Ég var einnig mikið í félagsmálum og sat í ýmsum ráðum og nefndum.“

Petrea átti góða æsku og segir að persónuleiki hennar hafi mótast af því umhverfi sem hún var alin upp í.

„Ég naut þeirrar gæfu að frændfólk mitt bjó allt í kringum mig og fólkið sem bjó á Niður-Skaganum var mjög samheldið og gott fólk.“

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið í lífinu?

„Það er að lifa lífinu létt en rétt.“

Hvað með ástina, hefurðu fundið hana?

„Já ég er svo heppin að hún er allt í kringum mig. Fyrir það fyrsta þá er ég bara nokkuð sátt við sjálfa mig og svo á ég yndislegan mann sem er búinn að vera ástin í lífi mínu frá 1967.“

Ef þú stjórnaðir öllu í landinu í dag, hverju myndir þú breyta?

„Það er margt sem má breyta og margt sem er vel gert. En maður er oft sjálfhverfur og ég myndi reyna að koma á sátt milli ellilífeyrisþega og stjórnvalda. Það hefur margt jákvætt verið gert undanfarið en alltaf má gera betur. Annars er ég á móti orðinu ellífeyrisþegi. Ég er ekki að þiggja neitt, aðeins fá það sem ég hef greitt fyrir.“

Hvað er það fallegasta sem þú hefur séð?

„Það er svo margt fallegt sem maður hefur séð en það er fátt sem slær út sólarlag við Snæfellsjökul á sumarkvöldi.“

En það ljótasta?

„Marhnútur.“

Hvernig hugarðu að heilsunni í dag?

„Ég reyni að hreyfa mig daglega og borða hollan mat. Svo er ég svo heppin að fólki yfir 65 ára hér á Seltjarnarnesi er boðin þjónusta frá Janusi heilsueflingu og er það tveggja ára prógramm sem hófst á síðasta ári.“

Ertu með markmið sem þú setur þér í lífinu og hver eru þau?

„Já, það skiptir mig máli að lifa lífinu lifandi.“

Oft verið kölluð tölvu- og tækninörd

Ef Petrea ætti að gefa ungu fólki eitt ráð í vinnumálum væri það fyrst og fremst að bera virðingu fyrir allri vinnu, hún er nauðsynleg hver sem hún er.

Hvað með ráð fyrir unga fólkið þegar kemur að ástinni í lífinu?

„Númer eitt að standa með sjálfum sér því þá kemur hitt svo eðlilega.“

Petrea hefur endalausan áhuga á lífinu. Það sem grípur hana að jafnaði er útivist og göngur, bæði innanbæjar og til fjalla.

„Ég hef mikinn áhuga á fuglalífi og gef smáfuglunum daglega í garðinum hjá mér, en ég er búin að koma upp góðri, allt að því kattheldri, aðstöðu fyrir þá. Ég er líka mikill íþróttaáhugamaður og hef haldið með Manchester United síðan 1962 og svo er Leicester City mér kærkomið þar sem ég bjó þar í sex ár. Ég hef mikinn áhuga á tölvu- og tæknimálum og hef af sumum verið kölluð „nörd“ í þeim málum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál