Leggur í ferðasjóð því sem nemur að reykja pakka á dag

Ingibjörg Einarsdóttir nýtur efri áranna og leggur í ferðasjóð.
Ingibjörg Einarsdóttir nýtur efri áranna og leggur í ferðasjóð.

Ingibjörg Einarsdóttir, fyrrverandi kennari og skrifstofustjóri á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, er síður en svo sest í helgan stein þrátt fyrir að hafa látið af opinberum störfum þegar hún stóð á sjötugu. Ingibjörg nýtur lífsins með sínu fólki og þykir gott að eldast. Henni þykir aðbúnaður eldri borgara á Íslandi góður en segir þó mikilvægt að allir hugi snemma að sínum lífeyrismálum til þess að tryggja sér ánægjulegt ævikvöld. 

Ingibjörg er kennaramenntuð og helgaði allan sinn starfsferil skólamálum. Hún er 75 ára og hefði því samkvæmt lögum getað hætt að vinna fyrir átta árum en lét þó ekki af störfum fyrr en hún var sjötug. Ingibjörg vissi frá fyrstu tíð hvað hún vildi leggja fyrir sig þegar að starfsferli sínum kæmi. „Ég ólst upp í Vesturbænum, bjó þar raunar fyrstu 25 árin, fyrst í foreldrahúsum en hóf líka minn búskap þar. Eftir að hafa lokið námi við Melaskóla og Hagaskóla útskrifaðist ég með gagnfræðapróf úr verslunardeild. Mér leið alltaf vel í skóla og ákvað strax á fyrsta ári mínu í grunnskóla að verða kennari. Valið var því ekki erfitt og þegar ég lauk verslunarprófi fór ég beint í Kennarskólann,“ segir Ingibjörg sem kenndi samfellt í 25 ár í Reykjavík, en skipti svo um vettvang og var síðustu 20 ár starfsævinnar skrifstofustjóri Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, þar sem henni líkaði einstaklega vel.

Þrátt fyrir að hafa látið af sínum opinberu störfum er þó langt frá því að Ingibjörg hafi sest í helgan stein. „Ég er enn í margs konar verkefnavinnu og hef ásamt góðum hópi fagfólks rekið Stóru upplestrarkeppnina síðastliðin 25 ár sem nú hefur færst yfir til sveitarfélaganna. En Litla upplestrarkeppnin, sem er læsisverkefni í 4. bekk í flestum grunnskólum landsins, er enn rekin af félaginu Röddum, og á sinn stað á mínu skrifborði,“ segir Ingibjörg.

Borguðu í viðbótarlífeyrissparnað um leið og kostur gafst

Ingibjörg er gift Júlíusi Sigurbjörnssyni og saman eiga þau þrjá syni, átta barnabörn og fyrsta langömmubarnið er væntanlegt í heiminn á hverri stundu. Undirbjuggu þau hjónin efri árin sérstaklega með tilliti til fjárhags?

„Nei, í rauninni ekki. Ég hef satt best að segja aldrei verið neitt sérstaklega upptekin af mínum aldri eða því að ég væri að eldast. Maður vissi auðvitað að það kæmi að því að hætta sem opinber starfsmaður, en ég var hraust og ákvað því að hætta ekki að vinna fyrr en ég næði sjötugu. Júlíus hætti aðeins á undan mér og það er held ég ágætt að fá smá aðlögun, ekki endilega að hætta bæði á sama tíma. Við höfum bæði borgað í góðan lífeyrissjóð og hófum strax sparnað í séreignarsjóði þegar kostur gafst á því. Við höfum því verið meðvituð um hvað við hefðum til lífsviðurværis síðustu árin,“ segir Ingibjörg og bætir því við að hennar kynslóð hafi almennt verið nægjusamt fólk og það hafi líkast til mótað viðhorf þeirra til fjármála.

„Eiginmaður minn var líka kennari og auk þess húsasmiður sem kom sér nú oft vel þegar við vorum að koma okkur upp eigin húsnæði. Við leigðum í byrjun búskaparins og þá var eins og í dag mjög dýrt að leigja. Leiga fyrir tveggja herbergja íbúð í Vesturbænum í kringum 1970 var sem nam hálfum kennaralaunum. Það hefur alltaf verið dýrt að leigja þótt umræðan í dag sé eins og þetta sé eitthvað nýtt. Við höfðum ekki aðstöðu til að sækja kaffihús né matsölustaði, þeir voru bara varla til á okkar yngri árum. Við vorum alin upp við að baka og elda heima, sauma og prjóna og taka slátur á haustin svo dæmi séu tekin. Þá voru ekki einu sinni komnar einnota bleiur, við bara suðum barnableiurnar og straujuðum. Ég held ég geti með sanni sagt að við höfum gegnum tíðina spilað skynsamlega í okkar fjármálum. Við unnum bæði mikið, fjárfestum í eigin húsnæði og þar höfum við nú búið í 36 ár. Fyrir tuttugu árum byggðum við sumarbústað sem mikið er notaður. Við höfum farið vel með peningana okkar um leið og við höfum leyft okkur að njóta lífsins með okkar fólki og ferðast töluvert. Mikið innanlands og svo líka til útlanda hin síðari ár.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra afhenti Ingibjörgu og Baldri Sigurðssni …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra afhenti Ingibjörgu og Baldri Sigurðssni viðurkenningu fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Myndin var tekin 2016. Brynjar Gauti

Leggur fyrir andvirði sígarettupakka á dag

Talið berst að almennum fjárfestingum sem mikið hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Hafa Ingibjörg og Júlíus eitthvað horft til þessa? „Nei, það höfum við ekki gert. Við höfum lagt ríka áherslu á að njóta sem mest þess fjársjóðs sem börnin okkar og barnabörnin eru. Þó má segja að það hafi verið fjárfesting að byggja bústaðinn þar sem við höfum átt ómetanlegar samverustundir með okkar fólki. Þá er gaman að segja frá því að í fjörutíu ár hef ég lagt til hliðar í ferðasjóð því sem nemur að ég reykti pakka á dag, þrátt fyrir að hafa aldrei reykt. Ég hugsaði bara með mér, fólk virðist hafa efni á því að reykja, því ætti ég ekki að geta lagt til hliðar sem því nemur! Sá peningur hefur dugað okkur hjónum til þess að fara utan eina ferð á ári, bæði til þess að heimsækja syni okkar sem bjuggu erlendis með fjölskyldur sínar um tíma og einnig til þess að ferðast og skoða heiminn,“ segir Ingibjörg.

Vel staðið að málefnum eldri borgara á Íslandi

Hvernig þykir Ingibjörgu staðið að málefnum ellilífeyrisþega á Íslandi í dag? „Mér finnst mjög margt vera vel gert í öldrunarmálum í íslensku samfélagi og finnst það gleymast í háværri umræðu um hvað mætti betur fara. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur, það vantar fleiri hjúkrunarrými og þar fram eftir götunum. En, miðað við aðrar Evrópuþjóðir held ég að við séum að gera margt mjög vel sem samfélag. Hjúkrunarheimilin okkar eru til fyrirmyndar, sem og öll þjónusta við eldri borgara, á borð við ýmsa heimaþjónustu. Ellilífeyririnn er auðvitað eilíft þrætuepli sem margir eru mjög ósáttir við, sérstaklega þeir sem ekki eiga góðan lífeyrissjóð. Hlutverk almenna lífeyrissjóðsins var í upphafi annað en það er í dag, hann átti að vera trygging fyrir alla en er nú aðeins fyrir þá sem ekki eiga sterkan lífeyrissjóð eða hafa ekki nóg. Þess vegna er afar mikilvægt að fólk hugi snemma að sínum málum hvað lífeyrissjóð varðar til þess að tryggja sína afkomu á efri árum. Ef ég ætti að ráðleggja yngra fólki eitthvað hvað varðar fjármálin þá held ég að það sama gildi alla okkar ævi og það er að vera skynsamur, fara vel með það sem aflað er og eyða aldrei um efni fram. Þá tel ég mikilvægt að allir séu meðvitaðir um fjármálin á sínu heimili, ekki bara annar aðilinn ef tveir búa saman,“ segir Ingibjörg.

Ekki upptekin af hugsuninni um að vera að eldast

Ingibjörg er heilsuhraust bæði andlega og líkamlega og nýtur lífsins. „Mér líður vel og þykir gott að eldast en hef bara verið mjög lítið upptekin af því að það sé að gerast. Við hjónin erum hraust, njótum þess að ferðast bæði innanlands og utan þegar allt er eðlilegt í umhverfinu. Ég hef alltaf verið meðvituð um mikilvægi hreyfingar og hef til dæmis verið í einstaklega skemmtilegum leikfimihópi síðastliðin fjörutíu ár. Sá hópur er alveg einstakur og hefur verið mér mikilvægur frá fyrsta degi. Þá legg ég mikið upp úr því að njóta líðandi stundar og þess sem lífið býður upp á hverju sinni. Við höfum alltaf sótt leikhús mikið og tónleika og það er svo mikilvægt. Þá er um að gera að fylgjast með alls kyns námskeiðum sem boðið er upp á og vera alltaf tilbúinn til að efla andann. Um að gera að lifa lífinu lifandi.

Þá erum við hjónin svo lánsöm að vera í góðu sambandi við fjölskylduna okkar, börn og barnabörn, en öll búa þau í nágrenninu núna og við njótum þess virkilega. Við eigum góða vini sem gott er að umgangast, ferðast með og gleðjast og svo tekur maður bara því sem koma skal í framtíðinni,“ segir Ingibjörg.

Þessi mynd var tekin á Stóru upplestrarkeppninni 2016.
Þessi mynd var tekin á Stóru upplestrarkeppninni 2016. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál