Þegar fólkið týndist í apótekinu og í ríkinu á Dalvík

Þórey Dögg Jónsdóttir.
Þórey Dögg Jónsdóttir.

Þórey Dögg Jónsdóttir djákni er á því að fátt sé eins gott fyrir sálina og að komast í gott frí úti í náttúrunni með skemmtilegu fólki. Hún mælir með Orlofsbúðum eldri borgara fyrir alla þá sem vilja fá frí frá amstri dagsins í þéttbýlinu. Hún er framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma, sér um Orolfsbúðir eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði á sumrin ásamt Önnu Huldu Júlíusdóttur, djákna og vatnsmeðferðarfræðingi.

Hún kann margar skemmtilegar sögur úr orlofsbúðunum sem eru paradís fyrir þá sem ekki komast í ferðalög reglulega.

„Við bjóðum eldri borgurum upp á fimm til sjö daga í fallegu sveitinni okkar frá því í maí til júlí árlega. Við tökum á móti 30 manns hverju sinni og verða hóparnir sjö talsins á þessu ári. Orlofsdvölin er rekin af íslensku þjóðkirkjunni og er í boði fyrir allt landið,“ segir Þórey Dögg og bætir við að meðalaldur gesta þeirra sé í kringum 82 árin.

Sundlaugin og útipotturinn vinsæl

Hvernig lýsir þú Löngumýri í Skagafirðinum?

„Sumarbúðirnar eru haldnar á Löngumýrarskóla sem er Fræðslusetur þjóðkirkjunnar á Norðurlandi. Svæðið er einstaklega fallegt og hentugt fyrir þessa sumardvöl. Þarna er gott aðgengi svo gestunum okkar líður vel. Við erum með litla útilaug, heitan pott og svo er náttúran engu öðru lík.“

Hægt er að sækja um dvöl í fimm til sjö nætur og er farið á staðinn í rútu sem hentar eldri borgurum vel.

„Nærvera við annað fólk, samtöl og vinátta er þema orlofsbúðanna og eru þær hugsaðar fyrir þá eldri borgara sem ekki eru með heilsu til að ferðast utan landsteinanna en vilja komast í frí í fallegu umhverfi með skemmtilegu fólki.“

Hvernig er maturinn á staðnum?

„Boðið er upp á einstaklega góðan íslenskan mat úr Skagafirðinum. Heimabakað brauð og mat sem gefur næringu. Ég hef stundum sagt við gestina okkar að best sé að koma þá daga sem þeir eru ekki í megrun. Við borðum fimm sinnum á dag og samræmist það vel skemmtilegri dagskrá sem fram fer allan daginn og gestir okkar geta valið að taka þátt í.“

Kvöldvökurnar eru líflegar og skemmtilegar

Dagskráin sem Þórey talar um er allt frá bænastund yfir í sundleikfimi. Stuttar göngur og samvera með dýrum í nágrenninu. Kvöldvökur, hátíðarkvöld og fleira sem eflir félagsvitund fólks og nærir manneskjuna.

„Klukkan átta á kvöldin erum við svo með kvöldvöku, þar sem við fáum skemmtikrafta úr nágrenni Skagafjarðar til að koma fram. Það er alltaf mikið fjör hjá okkur og ég get lofað því að allir fá eitthvað fyrir sinn smekk, þegar kemur að gleði og skemmtun í orlofsbúðunum. Það hafa myndast mjög sterk vináttubönd á milli fólks og sumir einstaklingar halda vinskapinn yfir vetrartímann og hittast svo aftur í búðunum á sumrin. Við megum ekki gleyma að maður er manns gaman, alveg sama á hvað aldri við erum.“

Áttu góða sögu frá orlofsbúðunum sem þú værir til í að deila með lesendum?

„Ein skemmtilegasta sagan sem ég man eftir núna er þegar við fórum með hóp á Dalvík, þar sem við borðuðum á Menningarhúsinu Bergi og hópurinn var í frjálsum tíma þar sem fólk gat heimsótt þá staði sem það vildi sjá. Fólkið okkar naut þess að rölta um bæinn, en á einum tímapunkti voru allir horfnir. Við fórum að líta í kringum okkur og velta fyrir okkur hvar allir væru. Ég gekk að eldri herramanni og spurði hvort allir væru stungnir af. Hann svaraði þá snöggur upp á lagið: Já, ég get nú sagt þér að helmingurinn stakk af í apótekið og hinn helminginn muntu finna í ríkinu.“

Er ekki lærdómsríkt að vinna með fólkinu okkar í landinu sem hefur alla þessa reynslu og visku um lífið og tilveruna?

„Jú það er algjörlega ómetanlegt. Við starfsfólkið lítum á það sem svo að við erum í skóla hjá þeim en ekki öfugt. Eins er fátt fallegra en að sjá hvað náttúran og dýrin, sem dæmi, hafa heilandi áhrif á fólk á öllum aldri. Það er eitthvað sem borgin getur ekki gefið okkur.“

Þórey segir jafnframt lærdómsríkt að fylgjast með bænum og trúmálum þeirra sem mæta á staðinn.

„Mér eru minnisstæð falleg orð frá einum gesta okkar, sem hafði um hríð beðið guð um að taka sig til sín. Eftir að hann kom til okkar breyttist bænarefni hans, þar sem hann bað guð að tryggja að hann kæmist á Löngumýri. Þetta sýndi okkur hversu einlæg óskin var að komast í fjörið hjá okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál