22 ára lögfræðinemi lætur til sín taka

Lenya Rún hefur verið áberandi á sviði stjórnmálanna síðustu misseri.
Lenya Rún hefur verið áberandi á sviði stjórnmálanna síðustu misseri. mbl.is/Unnur Karen

Lenya Rún Taha Karim komst í fréttirnar á síðasta ári þegar hún bauð sig fram til Alþingiskosninga. Lenya Rún er 22 ára og stundar nám í lögfræði við Háskóla Íslands en samhliða náminu starfar hún sem Morfís þjálfari og fyrsti varaþingmaður Pírata. 

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Lenya komist ansi langt. Hún fann fljótt sína hillu í laganáminu og hefur sterk réttlætiskennd hennar komið sér vel bæði í leik og starfi. Lenya mun brautskrást von bráðar úr lögfræðinni en hún nemur nú sitt síðasta ár við námsleiðina. Lenya hefur alltaf verið lestrarhestur en eftir að hún hóf nám í lögfræði hefur samviskubit stundum bitið á hana þegar hún les sér bækur til gamans en ekki efni sem tengist náminu.

„Það sem heillaði mig mest við laganámið var að þetta er góður grunnur að því að hafa áhrif til hins betra. Hvort sem það er með lögmennskunni eða pólitíkinni. Lögin og pólitík haldast í hendur og hvort sem ég er að beita lögunum sem lögmaður eða móta lögin sjálf sem þingmaður stuðla ég alltaf að láta gott af mér leiða með þekkingunni minni,“ segir Lenya sem sér framtíðina fyrir sér á Alþingi. 

Lenya segist vera með breitt bak og lætur fordómana ekki …
Lenya segist vera með breitt bak og lætur fordómana ekki bíta á sig persónulega. mbl.is/Unnur Karen

Lenya Rún hefur lengi barist fyrir jafnrétti kynjanna og telur að viðhorfsbreytingar innan samfélagsins séu mikilvægar í samræmi við slíka hugsjón. 

„Það er áratuga gamalt vandamál að framlag kvenna á vinnumarkaði sé vanmetið. Ég kalla eftir viðhorfsbreytingum hvað það varðar. Viðhorfsbreytingar þurfa líka að fara eiga sér stað innan stjórnmála. Sem dæmi eru sumir þættir í fari fólks sem vekja mismunandi viðbrögð eftir því af hvaða kyni stjórnmálamaðurinn er. Á meðan karlkyns stjórnmálamaður talinn ákveðinn en stjórnmálakona talin frek. Eða karlinn talinn rökfastir en konan ósamvinnuþýð. Það er ýmislegt svona enn uppi á teningnum og það þarf að breytast. Fólk af öllum kynjum eiga fullt erindi inn á þing,“ segir Lenya staðföst.

Fordómar gagnvart fjölbreytileikanum

Sem ungur, kvenkyns frambjóðandi með erlent eftirnafn hefur Lenya Rún upplifað mikla fordóma í sinn garð eftir að hún varð sýnileg á vettvangi stjórnmálanna. Í kosningabaráttunni fyrr í haust varð Lenya fyrir alls kyns úthrópunum frá ókunnugu fólki sem taldi hana vera eitthvað allt annað en hún er. Lenya er með þykkan skráp og svaraði þessum röddum fullum hálsi á málefnalegan hátt.

„Sumir dagar eru erfiðari en aðrir þegar það kemur að því að takast á við þessa fordóma en það virkar oftast fyrir mig að minna sjálfa mig á það hvað þetta er hávær minnihluti. Meirihluti þjóðarinnar er venjulegt, umburðarlynt og gott fólk sem hugsar ekki endilega út í uppruna, aldur eða kyn varaþingmanns. Ég held að margir hafi tekið því fagnandi að unga fólkið eigi sér loksins málsvara inn á þingi,“ segir Lenya.

Lenya segir það mikilvægt að unga fólkið eigi sé málsvara …
Lenya segir það mikilvægt að unga fólkið eigi sé málsvara á þingi. mbl.is/Unnur Karen

Aðspurð telur Lenya Rún að hún eigi fullt erindi í íslensk stjórnmál. Hún telur að Alþingi Íslendinga eigi að endurspegla fjölbreytta flóru fólks og þar með alla Íslendinga, ekki einungis fáa og útvalda. 

„Já, ég tel að Alþingi eigi einmitt að endurspegla alla Íslendinga. Þjóðin þarf á fjölbreytileika að halda og hóparnir sem fá sjaldnast áheyrn eiga skilið að eiga sinn fulltrúa á þingi,“ segir Lenya og telur sig góðan málsvara ungra kvenna. Konur hafa alla tíð skipað stóran sess í lífi Lenyu og á hún margar kvenfyrirmyndir. Þó sé það móðir hennar sem tróni á toppnum sem mesta fyrirmyndin í lífinu. Lenya talar fallega til móður sinnar og segir hana þrautseigja konu sem hefur tæklað margs konar mótlæti á lífsleiðinni.

„Þetta hljómar eins og algjör klisja en mamma mín er fyrirmynd mín. Hún hefur gengið í gegnum ótrúlegustu hluti en þrátt fyrir það er hún svo heilsteypt og góð manneskja. Ég lít mikið upp til hennar hvað varðar metnað, hjartahlýju og styrk.“

í síðustu kosningabaráttu beindust spjótin að Lenyu því hún er …
í síðustu kosningabaráttu beindust spjótin að Lenyu því hún er ung kona með erlent eftirnafn. mbl.is/Unnur Karen

Setur allt í dagatalið

Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?

„Síðustu vikur á hápunkti heimsfaraldurs hefur morgunrútínan mín verið afar einföld. Ég vakna, kíki á fréttir, þríf á mér andlitið, opna mér einn Monster og opna svo Teams til að fara í tíma. Ég ætla að vera hreinskilin og segja að hefðbundinn dagur hjá mér einkennist af kennslustundum á morgnana, fundum yfir daginn og lærdómi eða ræktinni um kvöldið og svo slökun seinni partinn. Hefðbundinn dagur hjá mér einkennist aðallega af því hvernig takmarkanir eru í samfélaginu vegna Covid,“ segir Lenya en faraldurinn hefur sett strik í reikninginn hjá henni líkt og öðrum jarðarbúum síðustu misseri. Lenya segist vera dugleg við að fara út að hlaupa og að það hafi faraldurinn ekki getað stigið í veg fyrir. 

„Mér finnst þægilegt að fara út að hlaupa og geri mikið að því til að losa um stress. Náttúran hjálpar mikið við slökunina og stressið hjálpar til við stresslosun.“

Lenya Rún segist vera mjög skipulögð að eðlisfari. Skipulag er henni mikilvægt og segist hún þrífast lang best þegar hún veit fyrirfram hvað sé framundan. Hún notast mikið við dagatalið í snjalltækjum sínum og getur þannig fylgst með skipulagðri dagskrá dag frá degi.

„Rétt eins og Justin Timberlake setur allt í „excel“, set ég allt í „calendar“ hjá mér helst viku fyrirfram. Stundum bætast hlutir við á síðustu mínútu en maður reddar því bara,“ segir hún en þó svo að tónlistarmaðurinn Justin Timberlake sé mikill „excel-maður“ þá segist Lenya ekki vera jafn hrifin af forritinu og hann.

„Ég er vissulega aðeins meiri „word-týpa,“ segir Lenya og hlær.

Lenya viðurkennir að setja allt inn í dagatalið hjá sér, …
Lenya viðurkennir að setja allt inn í dagatalið hjá sér, enda skipulögð með eindæmum. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is