„Forðast að vera fórnarlamb“

Kara Guðmundsdóttir.
Kara Guðmundsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kara Guðmundsdóttir er kokkur á Brút á daginn og boxari á kvöldin. Hún hefur mætt alls konar áskorunum í lífinu og mælir með því við alla að takast á við hlutina í staðinn fyrir að hlaupast undan þeim.

„Þegar ég var lítil var mamma oft að vinna fram á kvöld og þá tók ég oft matinn í mínar hendur og fannst rosalega gaman að prófa mig áfram í eldhúsinu. Á þessum tíma var ég oftast bara að elda pastarétti og blanda saman grænmeti og mismunandi pastasósum. Þetta var ekki mjög sparilegur matur, en áhuga minn á matreiðslu má rekja til þessara aðstæðna í æsku,“ segir Kara, sem er einmitt þessi persóna sem brettir upp ermarnar og lætur hlutina ganga í stað þess að fara í fórnarlambið og hlaupast undan.

Eins og gefur að skilja skiptir miklu máli fyrir konur á borð við Köru, sem eru að æfa fyrir erlend mót í ólympískum hnefaleikum, hvaða mat þær borða.

„Pakkamatur eins og frosnar pítsur og tilbúnir réttir sem endast í tvo mánuði hefur verið eldaður á miklum hita og er svo skellt beint í mikið frost sem veldur því að sem dæmi prótínin breytast í matnum og getur það haft slæm áhrif á líkamann til lengdar. Þetta er ástæða þess að ég borða hreinan og óunninn mat. Ég get mælt með því við alla.“

Hefur stjórn á blóðsykrinum með mataræðinu

„Ég borða prótín í öll mál og fæ helstu trefjar og kolvetni úr ávöxtum og grænmeti. Ég borða rautt kjöt og vel að borða íslenskt kjöt.“

Hún spáir töluvert í blóðsykurinn og segir einföldustu leiðina til þess að halda honum í jafnvægi að passa upp á að hafa prótín í hverri máltíð.

„Eins er mikilvægt að huga að því hvaðan kolvetnin koma og að mataræðið sé trefjaríkt. Ef meltingin starfar ekki rétt þá náum við ekki nógu góðri nýtingu úr þeim mat sem við borðum og getur það haft áhrif á orkuna og heilsuna yfirhöfuð.

Varðandi blóðsykurinn er eins gott að muna að ef við borðum of mikið af kolvetnum á móti prótínum eða of mikinn sykur í einu erum við alltaf að berjast við orkuójafnvægi, þar sem líkaminn kallar á sykur þegar hann fær sykurfall.“

Kara er stöðugt að læra eitthvað nýtt í lífinu og er það ferðalag lífsins sem heillar hana meira en áfangastaðurinn.

„Lífið hefur kennt mér svo margt og það heldur áfram að kenna mér á hverjum degi. Að mínu mati snýst lífið í raun ekki um hvert þú ert að fara heldur hver þú ert á leiðinni þangað sem þú ætlar þér. Því ef þér líkar ekki við manneskjuna sem þú ert, þá skiptir í raun ekki máli hvar þú ert, því hvert sem þú ferð, þar ert þú!“

Er eitthvað sem þú forðast í lífinu?

„Út frá minni reynslu er ekki gott að forðast neitt, heldur best að mæta öllu um leið og það birtist en skal þá kannski forðast það að vera fórnarlamb. Við takmörkum okkur svo rosalega þegar við sjáum okkur sem fórnarlömb. Mitt mottó er að taka ábyrgð og vera lausnamiðuð.“

Hún er á því að fólkið í kringum okkur hafi frá mörgu að segja og hefur fundið fjölmargar fyrirmyndir í sínu nærumhverfi sem hún lítur upp til.

„Ég get nefnt sem dæmi pabba minn sem mér finnst vera klárasti maður sem ég þekki. Hann kann mjög margt í tengslum við fyrirtæki, viðskipti og er sérstaklega góður í stærðfræði. Þegar ég er í vandræðum með eitthvað sem tengist viðskiptum, mikilvægum samskiptum og tölfræði tala ég oft við hann. Í matreiðslu hefur Garðar Kári, sá sem kenndi mér þegar ég byrjaði að læra, verið mikil fyrirmynd, hann sem dæmi vann alltaf vel undir mikilli pressu og það vildi ég læra. Einnig hvatti hann mig til að halda áfram að þróa og hugsa matinn þannig að hann verði alltaf betri.

Í hnefaleikum hefur Valgerður, góð vinkona, æfingafélagi og fyrsta atvinnuhnefaleikakona Íslands, verið fyrirmynd mín ásamt Katie Taylor, sem er talin ein besta hnefaleikakona heims. Ég get talið endalaust því ég er með helling af ótrúlega flottu og kláru fólki í kringum mig.

Þjálfarinn minn, Davíð Rúnar, hefur sagt: „Alltaf að vera eins og svampur.“ Það þýðir að við eigum alltaf að reyna að læra af því sem aðrir gera, hver sem það er. Allir eru góðir á einhverju sviði og það er hægt að læra af öllum.“

Hefur aldrei getað drukkið gos

Setur þú þér markmið í lífinu í upphafi ársins?

„Nei, ég set mér markmið í hvert sinn sem ég klára markmið. Ég er með markmið sem tengjast boxinu, vinnunni og geðheilsunni. Ég er einnig með þriggja ára markmið og tíu ára markmið.

Það er enginn einn tímapunktur sem best er að setja sér markmið á.

Að mínu mati er lífið skemmtilegra og lærdómsríkara þegar við höfum markmið sem við vinnum að samfleytt, án þess að vera of ströng við okkur sjálf. Þetta snýst alltaf um að hafa eitthvað fyrir stafni.“

Er eitthvað sem enginn veit um þig?

„Ég hef aldrei getað drukkið gos eins og Coca-Cola, Sprite, Pepsí og fleira. Ég ólst mjög mikið upp hjá ömmu og afa þar sem gos var hreinlega ekki í boði. Þar var bara hræringur með blóðmör á morgnana, súrmatur í fötu, svið, rúgbrauð og síld.

Sex ára gömul safnaði ég kjömmum, leggjum og steinum sem ég málaði og seldi á Laugaveginum fyrir framan Hjá Magna, spilabúðina hans afa.“

Mælir með að fólk byrji smátt

Hvaða ráð áttu fyrir fólk sem hreyfir sig lítið en hefur áhuga á að gera breytingar á því?

„Ég mæli með að fólk byrji smátt. Sumir ætla að gera allt saman og sigra heiminn á einni viku en keyra sig svo út og gefast upp á endanum.

Þegar verið er að gera lífsstílsbreytingar er best að byrja á litlum markmiðum eins og að fara út að ganga í 20 mínútur á dag.

Ef það gengur vel má bæta einhverju við. En það sem er kjarninn í góðri heilsu er svefninn, sem má hvorki vera of mikill né of lítill. Ég mæli með því að fara að sofa og vakna á svipuðum tíma daglega.“

Uppsker í útlöndum

Hvert stefnir þú í framtíðinni?

„Ég stefni á að vera rík reynslu á öllum þeim sviðum sem mér þykir spennandi þar sem ég lifi fyrir það sem ég elska að gera og mun það ekki breytast. Ég ætla ekki að segja frá mínum helstu markmiðum, en þau tengjast boxinu sérstaklega.“

Kara kann að meta að ferðast og þá aðallega til að keppa erlendis í hnefaleikum.

„Keppnisferðir eru í uppáhaldi hjá mér. Ég legg mikið á mig fyrir slíkar ferðir, meðal annars að vera í réttri þyngd, að vita hver andstæðingurinn er og svo vil ég þekkja leiðina á hótelið og í keppnishöllina. Í þessum ferðum mæti ég mér og uppsker allt sem ég hef unnið að. Þarna reynir á að trúa á sjálfa sig og halda hugarró og athygli meðan á bardaga stendur. Þjálfari minn segir stundum að við þurfum að vera heit í hjartanu en köld í huganum.“

Veitingahúsið Brút nýtur krafta Köru, sem er kokkur er leggur …
Veitingahúsið Brút nýtur krafta Köru, sem er kokkur er leggur sig fram um að gera hollan og góðan mat sem hentar öllum. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál