Betra að eyða minna en fólk þénar

Katrín Amni Friðriksdóttir.
Katrín Amni Friðriksdóttir.

Katrín Amni Friðriksdóttir framkvæmdastjóri er mikill fagurkeri. Hún kann að gera vel við sig en einnig að spara sem er góður kostur fyrir þá sem vilja safna sér fyrir fallegum hlutum. 

Hvert er besta hagfræðiráð sem þú hefur heyrt?

„Þau eru alveg nokkur, en fyrst og fremst auðvitað það að eyða minna en það sem þú þénar. Taktu djarfari áhættu þegar þú ert yngri og dragðu úr áhættu með aldrinum og hafðu dreift eignasafn. Svo er auðvitað mjög gott ráð að byrja að spara sem fyrst í lífinu.“

Hver er uppáhaldsbyggingin í borginni?

„Þær eru nokkrar. Reykjavík er stútfull af fallegum byggingum og er ég sjálf svakalega veik fyrir gömlum byggingum sem eru upprunalegar. Þar sem ég bý nálægt bænum þá rölti ég oft niður í miðbæ og þar í kring og svíf um í draumaheimi fram hjá fallegum húsum. En hins vegar hefur Gamla bíó og Iðnó alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og fyllist ég einhverri svakalegri rómantík þegar ég fer inn í þessar tvær byggingar. Svo er ég alltaf veik fyrir fallegum kirkjum og auðvitað er Hallgrímskirkja stórfenglegt byggingarverk.“

Katrín segir Hallgrímskirkju stófenglegt byggingaverk.
Katrín segir Hallgrímskirkju stófenglegt byggingaverk. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hvaða hótel er það fallegasta sem þú hefur stigið inn í?

„Á Íslandi er það án efa Hótel Geysir. Ef fólk hefur ekki farið þangað, þá myndi ég drífa mig. Erlendis eru þau fjölmörg og ég get ekki nefnt neitt eitt.“

Hvar færðu besta matinn?

„Ég er mjög dugleg að fara út að borða bæði í hádeginu og á kvöldin og Reykjavík er stútfull af góðum mat. En ég verð aldrei fyrir vonbrigðum með matinn hjá vinum mínum á Eiriksson og Sumac.“

Hvaða húsgagn er í uppáhaldi hjá þér núna?

„Eins og ég elska fallega muni, þá er ég líka alltaf í þessari togstreitu að verða ekki of tengd veraldlegum munum. En ég viðurkenni að valhnetubrúni svanurinn í leðri kemur fyrst upp í huga minn og myndi hann fara mér mjög vel held ég.“

Valhnetubrúni svanurinn í leðri er í uppáhaldi hjá Katrínu. Hann …
Valhnetubrúni svanurinn í leðri er í uppáhaldi hjá Katrínu. Hann fæst í Epal.

Hvert er uppáhaldssnjallforritið þitt?

„Það er Spotify klárlega og þar fast á eftir kemur tölvupósturinn.“

Hvernig heldur þú þér í formi?

„Ég er dugleg að borða hollt og hreint fæði og mæti í jóga og í ræktina kannski tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Svo geng ég heilan helling þar sem ég bý miðsvæðis. Útiveran er allra besti „hamingjuelexírinn“ fyrir líkama og sál. Svo er ég bara mjög dugleg að hreyfa mig og fer á skíði og fjallahjól með vinkonum og börnunum mínum og hef bara gaman af þessu öllu. Ég reyni að stressa mig ekki um of. Ég er líka mikil áhugakona um meðvitaða öndun og fallegar hugsanir.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ég hef ekki borðað morgunmat í mörg ár og líður mér vel með að sleppa honum. Orkan verður mun meiri og bumban verður mun minni.“

Hótel Geysir er fallegasta hótelið á Íslandi að mati Katrínar.
Hótel Geysir er fallegasta hótelið á Íslandi að mati Katrínar.

Hvernig er best að spara fyrir íbúð?

„Fyrst og fremst er lykilatriði að setja sér markmið í sparnaði og velta þá fyrir sér hvert markmiðið í krónum og tímalínan sé? Ég trúi því að það skipti miklu máli að fara út í lífið með einhvern grunnsparnað sem getur breytt öllu þegar ungt fólk ætlar að fjárfesta í sinni fyrstu eign. Ef foreldrar hafa tök á að spara fyrir börnin sín reglulega frá byrjun og svo taka börnin við, þá er gerlegt, vonandi fyrir flesta, að byggja upp stofn fyrir útborgun í sína fyrstu eign.“

Hvaða bíll er hagkvæmastur?

„Ég veit jafnmikið um bíla og um geimför þannig að ég get ekki aðstoðað með þetta svar. Ég mæli hins vegar með að ganga og hjóla hvað varðar hagkvæmni. En ég stefni sjálf á að skipta yfir í rafmagnsbíl á næstu misserum.“

Hvað myndir þú aldrei nokkru sinni gera í lífinu?

„Ég myndi aldrei í lífinu taka inn eiturlyf þar sem ég held að ég myndi steindrepast um leið og er skíthrædd við allt sem heitir stjórnleysi.“

Ef þú mættir eiga fasteign hvar sem er í heiminum, hvar væri hún staðsett?

„Hún væri í svissnesku ölpunum. Svo myndi ég líka alveg nenna að eiga hús í Suður-Frakklandi, mögulega í Cassis.“

Hvert færir þú í draumafríinu þínu?

„Ég er nýkomin heim frá Kosta Ríka að „sörfa“ og baðaði mig í sólinni. Það er draumafríið mitt. Svo á ég eftir að fara á svo marga staði þannig að listinn er langur og draumfríin verða vonandi mjög mörg og ólík.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »