Sagði upp og tók áhættu sem margborgaði sig

Fjóla Dögg Sverrisdóttir er í draumastarfinu en hún er framkvæmdastóri …
Fjóla Dögg Sverrisdóttir er í draumastarfinu en hún er framkvæmdastóri Listahátíðar í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir sjö ára starf í karllægu tækniumhverfi hjá Marel ákvað Fjóla Dögg Sverrisdóttir að taka áhættu og segja upp án þess að vita hvað tæki við. Í dag starfar Fjóla Dögg sem framkvæmdarstjóri Listahátíðar í Reykjavík. Áður en Fjóla tók við starfinu setti hún sér það markmið að komast í starfið á næstu fimm árum, hún náði markmiðinu á innan við þremur árum. 

„Menntun mín og reynsla hefur verið ferðalag sem hefur komið mér á þann stað sem ég er á í dag,“ segir Fjóla Dögg sem stundaði tónlistarnám sem barn og unglingur og langaði lengi vel að verða þverflautukennari. Hún fór að kenna og lauk kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. „Þegar ég ætlaði að fara að kenna á þverflautu í fullu starfi þá var ég orðin einstæð móðir og kjörin og vinnutíminn sem mér bauðst í kennslu á þeim tíma gengu ekki upp miðað við það heimilislíf sem ég vildi bjóða mér og dóttur minni. Ég sagði því upp kennarastöðunni, sagði skilið við kennaradrauminn,“ segir Fjóla sem breytti um stefnu og skráði sig í viðskiptafræði og spænsku í Háskólanum í Reykjavík. 

Þráði að komast í snertingu við listir á ný

„Ég útskrifast með B.Sc. í viðskiptafræði á því herrans ári 2007 og fæ ég vinnu hjá Marel. Ég vann þar í sjö ár, fyrst sem viðskiptastjóri og svo sem teymisstjóri viðskiptastjóra og útflutnings. Hjá Marel var hlutverk mitt að styðja við söluteymi Marel út um allan heim allt frá sölu og að því að koma verkefnunum í verkefnastjórnun og framleiðslu og svo út til viðskiptavina. Ég kynntist frábæru fólki þarna og eignaðist kæra vini en eftir sjö ár átti ég ekki lengur samleið með karllæga tækniumhverfinu þarna og fann það að ég þráði að komast í snertingu við listir á ný. Ég sagði upp vinnunni án þess að vita hvað tæki við og fór í sjálfskoðun. Til að geta tekið svona áhættu þá er gott að eiga varasjóð og mikinn stuðning maka og nánustu fjölskyldu. Ég er svakalega þakklát fyrir þann stuðning sem ég fékk,“ segir Fjóla Dögg. 

„Á þessum tímamótum ákvað ég að fara í meistaranám sem myndi styrkja mig við næstu skref og ég valdi meistaranám í verkefnastjórnun, MPM, í Háskólanum í Reykjavík. Í MPM náminu græddi ég allskonar verkfæri til að reka verkefni og þjálfaði mig upp í verkefnastjórnun. En í MPM náminu er auk verkfæra verkefnastjórnunar lögð áhersla á að kynnast betur sjálfinu, læra betur á samskipti og að leiða saman ólíkt fólk í teymi sem nær árangri.

Á sama tíma tók ég eftir mjög áhugaverðum verkefnum sem Guðný Guðmundsdóttir vinkona mín var að vinna. Hún var að leika sér með tónleikaformið, gera það sjónrænna og það fannst mér hrikalega spennandi. Ég hafði samband við hana og þá var hún akkúrat nýbúin að fá stóran Evrópustyrk sem varð til þess að við, ásamt Tinnu Þorsteinsdóttur, stofnuðum Cycle listahátíðina í Kópavogi. Þarna vaknaði hátíða ástríðan. Það er eitthvað við það að vinna jafnt og þétt að því að sjá fyrir öll möguleg vandamál sem geta komið upp og plana flókna viðburði og sjá þá svo raungerast á réttum tímapunkti og sjá hvernig allt gengur upp. Ég tel að tónlistarmenntun, viðskiptafræði og verkefnastjórnun sé hin fullkomna blanda menntunar fyrir starfið mitt í dag hjá Listahátíð í Reykjavík.“

Fjóla Dögg setti sér skýr markmið.
Fjóla Dögg setti sér skýr markmið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verum óhræddar að skipta um skoðun

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt í starfi?

„Fyrir mig var lykillinn að setja mér stefnu og finna út úr því hvert mig langaði að stefna. Þegar ég vissi það þá vann ég markvisst í að bæta við hæfni og reynslu sem gætu styrkt mig í þeirri vegferð. Ég tel það líka mikilvægt að vera opin fyrir breytingum og vera óhrædd við að takast á við ólík verkefni með ólíku fólki. Við þurfum að vita hvað við viljum og megum ekki vera hræddar við að skipta um skoðun og breyta um átt.

Við megum og eigum að vera sjálfsöruggar og stoltar af okkur og afrekum okkar og ekki hika við að sækjast eftir tækifærum sem við höfum áhuga á sama þó við fyllum ekki fullkomlega upp í viðmiðin að okkar mati. Ég hef einnig átt mér margar eldklárar og flottar fyrirmyndir í gegnum tíðina og það hefur skipt mig máli.“

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? 

„Í MPM náminu unnum við persónulega stefnumótun og í minni stefnu setti ég mér það markmið að verða framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík innan fimm ára. Ég setti mér vörður til að styrkja mig á þeirri vegferð og þetta gekk svona líka vel eftir þannig að ég var komin með stöðuna innan þriggja ára.

Ég á tvær hátíðir eftir í mínu starfi hjá Listahátíð. Næsta verður 1.-19. júní á þessu ári og sú síðasta verður í júní 2024. Markmið mitt er að styðja enn betur við starf Listahátíðar og finna leiðir til að styrkja enn frekar við fjárhagslegan grunn hátíðarinnar. Hvað tekur svo við er enn sem komið er óskrifað blað,“ segir Fjóla Dögg og er mjög ánægð á vinnustaðnum sínum.

Fjölbreytt menntun og starfsreynsla kemur sér vel í starfi Fjólu …
Fjölbreytt menntun og starfsreynsla kemur sér vel í starfi Fjólu Daggar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vinn með frábæru fólki, þau eru lykillinn að því að hafa gaman í vinnunni. Listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík er Vigdís Jakobsdóttir og hún er með framsæknar og stórkostlegar hugmyndir um hvað Listahátíð getur verið. Það að fá að vera með henni í liði við að gera Listahátíð er einstakt tækifæri. Það er fátt skemmtilegra en að finna leiðir til að raungera stórar hugmyndir.

Verkefnin eru fjölbreytt og geta verið mjög krefjandi en það sem kveikir mest í vinnugleðinni og ástríðunni er þessi sífellda þörf á skapandi lausnum svo raungera megi fjölbreytta listviðburði. Uppskeran er líka svo stórkostleg. Að upplifa hátíð ganga upp svo til snurðulaust er einstök tilfinning.“

Vinnan getur beðið

Fjóla þekkir vel að leggja mikið á sig í vinnunni en lærði að setja mörk og segir skilaboð og tölvupósta ekki fara neitt. 

„Fyrstu tvö árin eftir að ég hætti hjá Marel þá vann ég mjög mikið án þess að fá mikið, ef þá nokkuð greitt í laun. Ég var framkvæmdastjóri Cycle Music and Art Festival 2015 og 2016, framkvæmdastjóri Myrkra músíkdaga 2016 og Norrænna músíkdaga 2016. Það að halda svona margar hátíðir á svona stuttum tíma auk þess að vinna ýmis smærri verkefni í þágu skapandi fólks og klára meistaranámið gekk alveg fram af mér. Ég þurfti að taka mér leyfi frá vinnu og endurskoða mína eigin starfshætti. Ég þurfti að taka kvíðastillandi lyf til að byrja með en það sem hjálpaði mér mest var að slökkva á öllum tilkynningum frá samfélagsmiðlum í símanum og slökkva á öllum pop-up tilkynningum í tölvunni. Skilaboð og tölvupóstar fara ekki neitt og það þarf ekki að bregðast við þeim strax. Annað sem hjálpaði mér mikið var að temja vinnutímann og skilja vinnuna eftir í vinnunni þegar vinnutímanum er lokið þó að tölva og sími fylgi mér heim. Þannig fékk ég andrými til að sinna frekar sjálfri mér, fjölskyldu og vinum og rækta áhugamál og sambönd við fólkið mitt,“ segir Fjóla Dögg. 

„Hjá Listahátíð leggjum við áherslu á fjölskylduvænan vinnutíma. Við biðjum starfsfólk okkar ekki um að vinna á kvöldin eða um helgar nema eitthvað mikið liggi við. Það þýðir að við eigum öll að hafa góða orku til að leggja okkur öll fram við að framkvæma hátíðina þegar að henni kemur. Þetta gengur bara mjög vel hjá okkur.“

Fjóla Dögg skilur vinnuna eftir heima og hleður batteríin með …
Fjóla Dögg skilur vinnuna eftir heima og hleður batteríin með því að fara út að hlaupa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gott að komast út í náttúruna

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég vil helst ekki skipuleggja daginn of mikið. Ég veit að ég þarf að taka frá tíma fyrir útihlaupin fyrir fram og ég geri það, svona yfirleitt, en þar fyrir utan reyni ég að hafa sem minnst skipulag yfir daginn. Ég vil frekar geta stokkið til og gert eitthvað skemmtilegt heldur en að hafa allt niðurnjörvað í prívatlífinu.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Morgnarnir eru mjög rólegir hjá mér. Ég vakna yfirleitt fyrst við það að kisi skríður uppí rúm í smá morgunkúr og svo dotta ég þar til maðurinn minn færir mér kaffibolla í rúmið. Eftir morgunkaffistund og fréttir þá tek ég mig til og við hjónin förum samferða til vinnu.“

Hvað gerir þú til þess að hlaða batteríin?

„Fljótvirkasta leiðin til að hreinsa hugann er að komast út í náttúruna. Ég stunda utanvegahlaup og mitt besta „quick fix“ fyrir andlegu hliðina á virkum degi eftir vinnu er að reima á mig hlaupaskóna og skokka út í Öskjuhlíð. Um helgar þá fer ég svo oft með manninum mínum lengri leiðir í útjaðri borgarinnar. Í covid-inu byrjaði ég að stunda sjóböð og ég finn hvað nærvera við sjó gefur mér mikið.

Ferðalag í góðu fríi með eiginmanninum er besta hleðslan til lengri tíma. Við förum saman í gott frí innanlands og svo annað erlendis að minnsta kosti einu sinni á ári. Í þessum ferðalögum finnst mér best að hægja vel á og leita mikið til staða sem eru fáfarnari.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Mér finnst langskemmtilegast að hitta fólkið mitt, verja tíma með fjölskyldu og vinum, sérstaklega ef við sameinumst í góðri máltíð. Ég hef mikinn áhuga á mat og vínum og finnst langskemmtilegast að smakka allskonar mat og vín með skemmtilegu fólki og hlæja aðeins.“

mbl.is