Lilja með þráhyggju fyrir drykkfelldum hrakfallabálki

Svo virðist sem þeim sé mest umhugað um heppnina sem minnst af henni fá. Það á allavega við um bandaríska rithöfundinn Ernest Hemingway. Þegar hann staulaðist út úr bíl við sjúkrahúsið í borginni Entebbe í Úganda þann 25. janúar 1954 höfuðkúpubrotinn, slasaður á hendi og fæti og með töluverð brunasár eftir að hafa lent í tveimur flugslysum á tveimur dögum, ávarpaði hann aðvífandi blaðamenn með orðunum: „My luck still holds“, eða „Ég hangi enn á heppninni.“

Hundrað óhöpp Hemingways er ný þáttaröð á Storytel þar sem glæpasagnadrottningin Lilja Sigurðardóttir fetar nýjar slóðir í höfundarverki sínu. Hún leiðir hlustendur í gegnum ævi bandaríska rithöfundarins Ernests Hemingways; allt frá barnæsku, þegar hann var alinn upp sem stúlka en ekki drengur, til harmrænna æviloka höfundarins. Örn Árnason túlkar Hemingway af stakri snilld og í þáttunum er staldrað við fjölmörg ævintýraleg óhöpp og ýmsar persónur sem spiluðu hlutverk í þessari undarlegu ævi rithöfundarins eru kynntar til leiks.

Það er ljóst að Lilja hefur ekki bara áhuga á undirheimum og glæpastarfsemi heldur heillast hún af sérkennilegu fólki með áhugaverðan bakgrunn og einstakt lífshlaup. Áhugi hennar á seinheppni Ernests Hemingways jaðrar að eigin sögn nánast við þráhyggju. En hefur hún þráhyggju fyrir öðrum höfundum eða einstaklingum? „Já, það má eiginlega segja það,“ segir Lilja með leyndardómsfullum raddblæ. 

„Ég hef lengi haft áhuga á einkennilegu lífshlaupi annarra og það er aldrei að vita nema þetta geti orðið eitthvað meira hjá mér. Það má segja að þráhyggjur mínar séu efni í heila seríu.“

mbl.is