Fór í legnám og hent beint í breytingaskeiðið

Auður Eva Ásberg er gestur Saumaklúbbsins þessa vikuna.
Auður Eva Ásberg er gestur Saumaklúbbsins þessa vikuna.

Auður Eva Ásberg er athafnakona sem lætur ekkert stoppa sig. Hún er gestur í hlaðvarpinu Saumaklúbburinn í þessari viku. Hún er hvatvís sem hefur gert það að verkum að ótrúlegustu ævintýri hafa ratað upp í hendurnar á henni. Í dag hefur hún náð þeim þroska að beisla orkuna sína þannig að hún nýtist sem best í daglegu lífi. 

Aðeins tvítug að aldri stofnaði hún Nordic store sem varð þá fyrsta íslenska netverslunin sem seldi íslenska hönnun á erlendum markaði.

„Að stofna fyrirtækið og búa til þetta concept fannst mér geggjað og svo var ég bara komin með leið, þannig að ég seldi það fyrirtæki og það voru hjón sem keyptu það af mér og svo minnir mig að þau hafa fengið sín vinahjón með sér og svo kaupa eitthverjir bankastrákar þetta af þeim, og í dag er Nordic Store ennþá starfandi og er bara ein stærsta túristabúðin niður í bæ,“ segir Auður.

Auður lærði snyrtifræði í snyrtiskólanum í Kópavogi . Á þessu tímabili var hún einnig ráðin framkvæmdarstýra yfir fegurðarsamkeppni Suðurlands og þótti henni virkilega vænt um það verkefni og á hún margar góðar minningar frá því ævintýri. Hún man eftir mörgum stelpum sem komu tvíefldar úr þeirri keppni. 

Auður vinnur nú hörðum höndum að opnun nýrrar verslunar FEMMEN og hyggst opna hana í lok apríl. Verslunin verður í Hamraborg í Kópavogi og mun selja snyrtivörur, förðunarvörur auk fatnaðs og fylgihluta.

Auður er óhrædd við að stíga út fyrir þægindarammann og er yfirleitt með marga bolta á lofti. Hún segir lykilinn að árangri vera stöðugleiki og að láta ekki hindranir á leiðinni stoppa sig heldur læra af þeim.

„Maður þarf ekki bara að vera gera eitthvað eitt, maður þarf ekki bara að velja sér eitthvað eitt og svo bara vera það, ég má bara vera allskonar.“

Auður er fjögurra barna móðir og deilir hún sinni reynslu af erfiðu hormónaójafnvægi sem hún hefur verið að glíma við í mörg ár og haft veruleg áhrif á á líkamlega og andlega heilsu. Hormónaójafnvægið var þó ekki greint fyrr en eftir að legið hennar var fjarlægt sumarið 2020 en Auður hafði áður verið greind með endómetríósu og öll meðferð í kjölfarið miðaðist við það. Eftir að hafa prófað hinar ýmsu leiðir án árangurs taldi kvensjúkdómalæknir hennar legnám vera besta kostinn í stöðunni og fullvissaði hana um að aukaverkanirnar væru ekki miklar. En raunin varð því miður allt önnur þar sem heilsa Auðar fór bara niður á við eftir legnámið.

„Ég í rauninni byrjaði bara á breytingaskeiðinu þarna bara, mér er bara hent í djúpu laugina þegar legið er tekið. Í raunni sko, á einu ári þá þyngist ég um eitthver 12 kíló, bara þú veist verð svo döpur að hérna að það var bara leitin að öðru eins,“ segir Auður. 

Í þættinum deilir Auður á einlægan hátt hennar upplifun af breytingarskeiðinu og þessum hormóna rússíbana sem í gegnum árin sem hafa skert lífsgæði hennar vegna heilsubrests.

Þáttinn getur þú hlustað í heild sinni HÉR. 

mbl.is