Vakti á nóttunni til að fræðast um kökugerð

Anzhelika Dedukh.
Anzhelika Dedukh.

Anzhelika Dedukh er menntaður konditor og gerir kökur sem minna meira á listaverk en eitthvað annað. Anzhelika gleymir stund og stað þegar hún bakar og mælir með fyrir alla að hafa skýra sýn þegar kemur að fermingarkökunni.

Anzhelika Dedukh er fædd og uppalin í Rússlandi en hún er með tvöfalt ríkisfang, bæði rússneskt og íslenskt. Hún er gift Þresti Gunnari Eiríkssyni og saman eiga þau þrjá drengi. Anzhelika er alin upp í litlu þorpi og útskrifaðist frá hagfræðiháskólanum í Rússlandi en byrjaði að gera kökur fyrir vini og fjölskylduna árið 2009. Áhuga sinn á bakstri og matreiðslu almennt séð getur hún rakið til barnæsku sinnar.

„Mamma kenndi mér að elda. Vegna erfiðs lífs foreldra minna leiddi ég heimilishaldið alveg frá 10 ára aldri. Einu sinni kom vinkona mömmu í heimsókn til okkar, ég var þá 7 ára að aldri, hún var konditor og vann í bakaríi við að skreyta kökur. Mamma bað hana að sýna mér einfalda skreytingu og notaði hún þá gelatín og púðursykur og bjó til steinsykurmassa sem hægt er að vinna með, á meðan hann er heitur. Hann harðnar mjög fljótt en hún bjó til einföld blóm sem voru falleg og óvenjuleg í minningunni. Ég man hvað mér þótti sérstaklega áhugavert að borða þessi blóm. Ég held að þetta hafi verið upphaf konfektferðalagsins sem ég er enn þá í.“

Áhugi hennar á kökugerð er svo mikill að hún á auðvelt með að gleyma stund og stað.

„Ég hafði svo mikinn áhuga á kökugerð að ég gat setið vakandi allar nætur að leita að upplýsingum um skreytingar. Ég sökkti mér algjörlega inn í þennan ljúfa heim. Á þessum tíma var ekkert til sölu fyrir kökuskreytingar. Sjálf gerði ég form og afsteypur af fígúrum úr gelatíni og sterkju. Ég notaði hvaða ráð sem hugsast gat, til að gera mót. Ekki varð allt eins og ég vildi en ég lærði þetta sjálf og las allt sem ég komst í sem fjallaði um kökugerð.“ Anzhelika lagði í vana sinn að gefa nágrönnum sínum kökurnar sem hún var að prófa sig áfram í að gera. Hún rifjar upp þennan tíma með bros á vör.

„Nágrannar mínir fengu endalaust af bakkelsi frá mér. Það er gaman að hugsa til baka og rifja upp hvað ég dreifði miklu til þeirra. Þeir voru að sjálfsögðu undrandi á þessu uppátæki mínu en ég er þakklát fyrir þá og þennan tíma í mínu lífi.“

Gleymir stað og stund þegar hún bakar

Anzhelika segir allt annað upp á teningnum núna þegar kemur að úrvali á hráefnum, formum og litarefnum til kökugerðar, svo ekki sé talað um allar upplýsingar sem fáanlegar eru á netinu um viðfangsefnið.

„Kökur fyrir mér eru fyrst og fremst listsköpun. Ég elska virkilega flóknar skreytingar þar sem þú þarft að hugsa um og leita að lausn.“ Ef marka má Anzheliku er ekki síður mikilvægt að huga að kökunum eftir að þær hafa verið bakaðar.

„Kökurnar mínar eru „börnin mín“. Maðurinn minn hlær alltaf þegar ég fer með kökuna í ísskápinn og segi: Sofðu ljúft. Ég elska það sem ég geri, þetta er eins konar andlegt áhugamál. Þegar ég er spurð hvað það taki langan tíma að búa til eina köku, þá veit ég ekki hverju ég á að svara, því ég fylgist ekki með tímanum. Ég gleymi stund og stað og horfi ekki á klukkuna þegar ég er í eldunarferlinu. Mér finnst það kostur, því ég trúi að maður eigi að elska það sem maður gerir.“

Hvað getur þú sagt okkur um svart/hvítu Mikka Mús-kökuna sem þú bakar?

„Þessi kaka var bara sjálfsprottin hugmynd sem kom til mín óvænt eitt kvöldið heima hjá mér. Ég elska svokallaðar blekkingarmyndir, þar sem línurnar ganga ekki upp og blekkja hugann. Ég var í þessum röndótta svart/hvíta kjól á venjulegu kvöldi heima eftir matinn og hugsaði ósjálfrátt með mér hvort ekki væri gaman að prófa mig áfram með þetta mynstur í köku. Ég notaði uppáhaldspersónuna mína Mikka Mús sem grunn. Þessi kaka hefur ekki aðeins óvenjulega skreytingu, heldur er sjálf húðunin á kökunni öll gerð úr dökku súkkulaði, með svörtum matarlit og hvítu súkkulaði.“

Kökulistin stendur ekki í stað

Anzhelika segir algengt að þeir sem eru að halda veislu panti köku í stíl við veisluna.

„Fólk sendir oft myndir af servíettum og skreytingum til mín. Að mínu mati er kakan hluti af hátíðinni og áhugavert að hafa allt í veislunni í sama stíl ef það er hægt.“

Hvað er það nýjasta í þínum geira?

„Konfektlistin stendur ekki í stað. Það eru margar mismunandi hugmyndir til að skreyta köku í gangi hverju sinni. Það er ákveðin tíska í matreiðslu eins og í öðru og svo einkennist hún einnig af árstíðum. Ég reyni að vera meðvituð um hvað er að gerast í mínum bransa og er endalaust að læra eitthvað nýtt. Sem dæmi má nefna að í fyrra var töff oblátupappírsskreyting vinsæl, súkkulaðiblettir og fersk blóm og ber á kökum var vinsælt. Í ár er naumhyggja meira áberandi en áður. Línur, rúmfræði og rifið mastík, sem og steypukökur og kökur með „vatni“ áberandi.“

Mikilvægt að gera kökur sem henta öllum

Anzheliku er umhugað um hvað hún notar í kökugerðina sína. Eftir þrjá mánuði tekur hún við diplómaskírteini í matvælatækni og næringarfræði.

„Ég er með mjög ábyrga nálgun í því sem ég geri. Reynslan hefur kennt mér að það eru sífellt fleiri með ofnæmi og óþol þegar kemur að mat. Þess vegna vil ég gera eftirréttina mína ekki bara bragðgóða og fallega heldur einnig þannig að þeir henti hvaða hópi sem er. Ég geri líka tilraunir með hráefni og bý til skreytingar og sykurlausan massa úr algjörlega náttúrulegum hráefnum sem henta fólki með sykursýki. Ég geri glútein-, eggja- og mjólkurlausar kökur sem henta fólki með ofnæmi fyrir þessum vörum.

Í framtíðinni vil ég leggja áherslu á eftirrétti sem innihalda lágmarksmagn af sykri. Framtíðin er að mínu mati hollir, bragðgóðir og auðvitað fallegir eftirréttir.

Í fyrra hóf ég að halda meistaranámskeið í að baka kökur og búa til skreytingar. Ég er spennt að halda áfram ferðalaginu mínu þegar kemur að kökugerð og held það sé alltaf tækifæri til að gera nýja hluti sem falla vel í kramið hjá almenningi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »