Sóttist eftir starfinu í New York

Anna Pála Sverr­is­dótt­ir sést hér flytja ræðu í Sameinuðu þjóðunum …
Anna Pála Sverr­is­dótt­ir sést hér flytja ræðu í Sameinuðu þjóðunum fyrir Íslands hönd. Hún starfar sem sendiráðunautur hjá Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York. Ljósmynd/Aðsend

Anna Pála Sverrisdóttir er sendiráðunautur hjá Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York. Anna Pála segist hafa verið með Sameinuðu þjóðirnar á heilanum síðan hún var unglingur en það var samt stór ákvörðun að flytja til New York enda á hún þrjú börn á leikskólaaldri með konunni sinni. 

Anna Pála kláraði BA-nám og meistaranám í lögfræði frá Háskóla Íslands. „Ég tók skiptinám við Kaupmannahafnarháskóla í lögfræðinni og bætti svo við mig diplómu á mastersstigi, í hagnýtum jafnréttisfræðum. Þetta nýtist mér allt frábærlega í starfinu fyrir utanríkisþjónustuna og líka bara í lífinu. Í lögfræðinni lærði ég margt bæði praktískt og heimspekilegt og sérhæfði mig svo mest í alþjóðalögum og mannréttindum, sem er það sem ég brenn fyrir. Jafnréttisfræðin gáfu mér víðari sjóndeildarhring og gerðu mig að betri lögfræðingi,“ segir Anna Pála. 

Hittir fólk allstaðar að úr heiminum

Starf Önnu Pálu gengur út á það að hagsmunamál og baráttumál Íslands fái pláss á stóra sviðinu. 

„Ég grínast stundum með að ég vinni við að mæta á fundi og skrifa tölvupósta. Þetta er reyndar ekki fjarri lagi en vinnan er samt fjölbreytt. Við í fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum mætum fyrir Íslands hönd á fundi hjá SÞ, komum sjónarmiðum Íslands á framfæri og reynum að hafa áhrif á niðurstöðuna þegar samningaviðræður eru í gangi. Við beitum okkur bæði fyrir því að hagsmunir Íslands og baráttumál séu tekin með í reikninginn. Dæmi um baráttumál eru jafnréttismálin sem við samþættum við allt sem við gerum. Málefnin sem ég persónulega vinn mest með eru alþjóðalög og umhverfis- og auðlindamál, þar með talið til dæmis málefni hafsins og hafréttar, loftslags- og orkumál. Risastórir málaflokkar en við erum fá í íslensku utanríkisþjónustunni og þurfum að geta múltitaskað og forgangsraðað. Oft eru það samtöl milli formlegu fundanna sem mestu skipta, svo ég er dagsdaglega í sambandi við fólk alls staðar að úr heiminum og ég elska það.“

Oft er hluti af því að vinna í utanríkisþjónustunni að færa sig á milli starfa og landa. Anna Pála er í sínu fjórða starfi í utanríkisþjónustunni á að verða 11 árum. 

„Ég var síðast í Brussel þar sem ég vann mest kringum EES-samninginn og þar á undan í utanríkisráðuneytinu að vinna í fjölþjóða þróunarsamvinnumálum og umhverfis- og auðlindamálum. Mér finnst mikill kostur við vinnuna mína að ég skipti reglulega um starf.“

Eftir nám og meðfram námi starfaði Anna Pála við fjölbreytt störf sem nýtast henni í dag. Hún var lögfræðingur LÍN í rúmt ár en fyrsta starfið eftir útskrift var í stjórnmálum. 

„Fyrsta starfið mitt eftir útskrift var að vera varaþingmaður allt haustþingið 2009. Það hittist þannig á að ég fór beint í það eftir ritgerðarvörn og þetta var svakaleg reynsla enda bara ár liðið frá hruni og flokkurinn minn Samfylkingin að leiða ríkisstjórn. Ég vann líka með mastersnáminu á Persónuvernd, að ógleymdum frábærum fimm árum á Mogganum meðfram námi, lengst af á fréttadeild. Eftir útskrift frá HÍ tók ég einu sinni óvænt yfir kennslu í kúrsi í kvennarétti - erfitt meðfram ráðuneytisstarfinu en samt æðislegt. Ég var líka formaður Samtakanna ´78 fyrir einhverjum árum og það gaf mér ofboðslega mikið jafnvel þótt það tæki allar frístundir.“

Stefnir á að verða sendiherra

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt í starfi?

„Þú átt jafn mikið í þessum heimi og hitt fólkið. Taktu þér pláss í honum. Og konur eru konum bestar.“

Hefur þú tekið áhættu á vinnumarkaði?

„Kannski helst þegar ég ákvað að fara í prófkjör og framboð. En ég lærði ofboðslega margt sem nýtist mér enn í dag, oftast var gaman og ég sé sko ekki eftir því. Sérstaklega ekki af því ég fékk starfið í utanríkisráðuneytinu sem ég sótti um þrátt fyrir að vera smeyk um að pólitíkin myndi þvælast fyrir mér. Ég var eiginlega svo viss um að ég fengi þetta ekki að mér fannst ég litlu hafa að tapa og stóð mig svaka vel í umsóknarferlinu. Fólk á auðvitað ekki að fá störf út á pólitísk tengsl en það má heldur ekki vera þannig að fólk fari í Berufsverbot (vinnumarkaðsbann) fyrir að hafa skipt sér af stjórnmálum. Þá endum við með verri stjórnmál og vannýtta krafta á vinnumarkaði.“

Var stór ákvörðun að fara til New York?

„Ég hef verið með Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamskipti á heilanum frá því ég var unglingur, svo ég bar mig eftir því að komast hingað og sótti um starfið innanhúss. Þetta var samt stór ákvörðun því konan mín og krakkaskítarnir fylgja auðvitað með. Við erum með þrjú leikskólabörn hér í stórborginni! Reyndar gæti ég talað lengi um að þrátt fyrir stærðina og mannmergðina er New York um margt frábær borg fyrir börn.“

Alfa Rós og Anna Pála búa í New York ásamt …
Alfa Rós og Anna Pála búa í New York ásamt börnum sínum þremur. Hér er fjölskyldan á ferðalagi í Kosta Ríka. Ljósmynd/Aðsend


Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? 

„Ég stefni alltaf áfram og það mikilvægasta fyrir mig er að finna tilgang með því sem ég geri. Nú er ég komin með talsverða reynslu af utanríkismálum, er ánægð með hvar ég er núna í starfi og stefni að sjálfsögðu að því að verða sendiherra ef ég held áfram í utanríkisþjónustunni. Ég er spennt fyrir stjórnun og finnst gaman að vera í forsvari. En ég lít ekki endilega á það þannig að ég verði í utanríkisþjónustunni allan starfsferilinn. Það kemur bara í ljós.“

Mikilvægt að kunna að segja nei

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig?

„Ég fer nokkuð reglulega út að mörkunum mínum því mig langar alltaf að gera svo margt, er bjartsýn að eðlisfari og held stundum að ég sé Súperman. Þá er mjög mikilvægt að kunna að segja stundum nei, ég ætla ekki að bæta þessu á mig núna.“

Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?

„Ég er meira sveigjanleg en svakalega skipulögð, sem er ágætt, af því dagarnir mínir skipuleggja sig að einhverju leyti sjálfir kringum fundi í vinnunni og fjölskyldustúss. Mesta áskorunin mín er að fara ekki of seint að sofa því ég fæ alltaf svo margar hugmyndir á kvöldin og man eftir hlutum sem ég þarf að gera, þegar er loksins komin ró í kringum mig. Ég er enn að reyna að finna besta skipulagið til þess.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Dóttir mín vekur mig oftast fyrir sjö til að fá sér smá brjóst áður en dagurinn hefst, svo fer ég eins beint í fyrsta cappuccino dagsins og ég get og í sturtu og reyni svo að hjálpa til við að klæða litlu og koma krökkum út, án þess að þvælast of mikið fyrir jarðýtunni konunni minni sem fer síðan með krakkana í skólana sína. Sjálf hjóla ég ofast á citibike deilihjóli héðan úr Village, þvert yfir Manhattan og upp í Midtown kringum höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna. Hlusta á BBC World fréttirnar á leiðinni og tek inn götulífið.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld? 

„Það er oft rosalega mikið að gera í þessari vinnu og erfitt að stjórna vinnutímanum þegar Sameinuðu þjóðirnar í New York eru annars vegar. SÞ eru temmilega oft með formlega fundi til klukkan sex á kvöldin og þá er eftir að koma sér heim. Um daginn tók ég þrjár vikur í röð þar sem ég kom heim eins og einhver sixtís-kall klukkan að ganga sjö og börnin sest við matarborðið. Á móti kemur að þegar ekki eru formlegir fundir stjórna ég mér mikið sjálf og hef sveigjanleika svo lengi sem ég skila mínu. Alfa Rós konan mín er listakona sem vinnur að listinni sinni hverja einustu mínútu sem hún fær til þess en meðan við erum hér tekur hún meiri ábyrgð á börnunum virka daga og þannig gengur dæmið upp.“

Anna Pála þurfti að ganga með grímu í New York …
Anna Pála þurfti að ganga með grímu í New York lengi en nú er búið að aflétta grímuskyldunni. Hún segir að fimm ára tvíburarnir hennar hafi þurft að ganga með grímur í skólanum í eitt og hálft ár. Ljósmynd/Aðsend

Lestur er besta slökunin

Hvað gerir þú til þess að hlaða batteríin?

„Undanfarin tvö ár hef ég nú bara reynt að lifa af milli covid-bylgja! En það besta sem ég veit til þess að slaka á er að lesa bækur eða hlusta á hljóðbækur. Ég reyni að lesa eitthvað í hverri viku þótt það séu bara nokkrar blaðsíður, til að muna að ég er mín eigin kona þrátt fyrir annríkið. Ég hreyfi mig eitthvað á hverjum degi, fyrir utan hjól og labb fer ég sirka árfjórðungslega út að skokka. Ef ég gæfi mér tíma í það þessa dagana færi ég í jóga. Tónlist, bað og kerti klikka heldur ekki. Í fullkomnum heimi færi ég í nudd á hálfsmánaðar fresti.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Vera með fólkinu mínu; knúsa krakkana og konuna. Prófa nýja veitingastaði eða mat heima, drekka gott kaffi og vín, fara á listasöfn, hitta gamla og nýja vini og skoða hin ýmsu hverfi og staði í borginni okkar. Svo eru ferðalög mikið áhugamál hjá mér. Við fórum til dæmis nýlega til Kosta Ríka í frí og við konan mín höfum einsett okkur að eyða fimmta hverju jólafríi saman í fjarlægu landi. Við vorum í Brasilíu 2013/4, á Grænhöfðaeyjum 2018/9 og svo er spurning hvar við endum 2023/4.“

mbl.is