Þriðja vaktin og innri óróinn

Ljósmynd/Unsplash

Uppáhaldstími margra er í vændum – sjálfir páskarnir þar sem súkkulaðiát, páskakanínur og lambakjöt eru í forgrunni. Þessi kristilega hátíð býr yfir þeim eiginleikum að það er ekki ætlast til neins af neinum. Þótt einhverjir séu með hefðir tengdar páskum þá eru þær oft ekki eins fastmótaðar og til dæmis jólahefðir. Það er líka minna stúss í aðdraganda páskanna. Páskagjafir hafa sem betur fer ekki orðið móðins ennþá enda myndi þriðja vaktin líklega ekki ráða við slíkt álag. Hún myndi öll enda í Virk.

Þess vegna skiptir máli að fólk geti gert sér dagamun og haft það gott án þess að það kosti of mikið álag og stress. Hátíðir eiga að lyfta tilverunni upp um nokkur þrep – ekki draga úr fólki allan mátt og búa til ennþá meiri streitu og leiðindi.

Það er til dæmis þess vegna sem hið klassíska páskalamb er svo mikil meistaramáltíð því það er hægt að útbúa ætan skrokk með salti og pipar og aðgangi að bakarofni. Það geta allir skorið niður svolítið af grænmeti og hellt lífrænni ólífuolíu og eplaediki í skál og hrært kannski örlítið sinnep út í og hellt yfir salatið. Svo þarf bara að steikja nokkra sveppi í smjöri, krydda þá með salti og pipar og örlitlu paprikukryddi, setja rjóma út á og kannski eina matskeið af rjómaosti. Þegar þetta er soðið saman er komin þessi myndarlega rjómasósa sem gerir saltaða og pipraða skrokkinn að veislumat.

Þessi árstími er tími vona og væntinga. Það sést til sólar og mesti veðurofsinn er genginn yfir. Það á reyndar ekki við um ofsann sem getur ríkt innra með fólki enda hefur hann sjaldnast eitthvað með veðurfar að gera.

Ef fólk er alveg goslaust eftir veturinn gætu páskarnir verið heppilegir til þess að ná örlítið betri tengslum við innra sjálf. Tala nú ekki um ef þriðja vaktin er ennþá að jafna sig eftir jólin. Þessi vakt þarf örlítið næði til að geta ferðast um í kollinum á sér án áreitis – nú eða í loftbelg.

Hvort sem fólk kýs að ferðast í loftbelg um páskana eða vera heima hjá sér þá hlýtur markmiðið alltaf að vera það að gera sér glaðan dag og endurstilla sig. Fá nýjar hugmyndir og auka jafnvægið. Jafnvel þótt við séum kannski bara þjökuð af fyrsta heims vandamálum og örlitlum pirringi þá þurfum við smá vítamínsprautu. Til þess að leysa fyrsta heims vandamál gæti verið sniðugt að ná í hjólið sitt, pumpa í dekkin og arka út í vorgoluna.

Hjólaferðir úti í náttúrunni eru ekki bara góðar fyrir hjartað og æðakerfið heldur prýðilegar fyrir brautirnar í heilanum. Að hjóla frá sér allt vit í torfærum eða bara fram og til baka í götunni þinni getur slegið á pirring á nokkrum mínútum. Tala nú ekki um ef fólk setur litla hljóðtappa í eyrun sem spila skemmtileg lög eða hljóðbækur á Storytel. Ef þú dýrkar sögur af fólki þá ættirðu að hlusta á Dalalíf Guðrúnar frá Lundi. Þar eru sagðar sögur af Jakobi Jónssyni hreppstjóra á stórbýlinu Nautaflötum sem er ókvæntur og barnlaus. Áður en langt um líður dregur til tíðinda þegar Lísibet Helgadóttir ákveður að elska Jakob. Þótt ekki skorti peninga þá geta þeir einir og sér ekki reddað innri óróa fólks og öðrum fyrsta heims vandamálum. Áður en langt um líður bætist goðið Jón sonur þeirra í hópinn og þá hressist allt umhverfið. Sérstaklega þegar Jón verður kynþroska og kvenkostir sveitarinnar fara að slást um ástir hans.

Ef þú þolir ekki sögur af íslenskum stórbændum og uppáferðum þeirra og vilt fá örlitla vítamínsprautu þá gæti The Gift: 12 Lessons to Save Your Life eftir Edith Eger verið eitthvað fyrir þig. Bókin hefur unnið til verðlauna og hefur selst í bílförmum í Ameríku. Hún fjallar um leið Eger til að sigrast á erfiðum aðstæðum, heila sjálfa sig og komast á þann stað að vera frjáls.

Svo má líka hjóla í þögninni, hlusta á fuglana og finna lyktina af vorinu og hreinlega anda að sér betri líðan. Mundu bara að hvert sem þú ferð þá tekur þú sjálfan þig með. Ef innri órói og pirringur er að þjaka þig þá mun hann líka verða þér samferða í loftbelgnum (jafnvel þótt hann taki sig vel út á Instagram).

Gleðilega páska.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál