Sá um fermingarveisluna sína frá a til ö

Ólöf Ólafsdóttir útbjó fermingarveisluna sína sjálf.
Ólöf Ólafsdóttir útbjó fermingarveisluna sína sjálf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólöf Ólafsdóttir Eftirréttakokkur ársins 2021 gerði þriggja hæða fermingartertu þegar hún fermdist á sínum tíma. Kakan smakkaðist einstaklega vel enda hefur þessi unga kona á uppleið í veitingahúsageiranum alltaf elskað að baka. Hún vildi gera drauma-kökuhlaðborð fyrir fermingarbörn landsins og deilir hér uppskriftum. Að hennar mati eigum við að baka og njóta með börnunum á fermingunni. 

Það er gaman að fylgjast með unga fólkinu okkar ná árangri í sínu fagi. Ein þeirra er Ólöf Ólöfsdóttir eftirréttakokkur sem sigraði nýverið í Eftirréttum ársins 2021, en þema keppninnar var nýr heimur og áttu réttirnir að vera vegan.

Þeir sem hafa heimsótt veitingastaðinn Monkeys vita hvernig eftirréttir Ólafar smakkast, en hún gerir ekki bara dásamlega góða rétti heldur einstaklega fallega.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftirréttir eru eitt af því skemmtilegasta sem ég geri svo það var mjög gaman að búa til draumakökuhlaðborð fermingarbarnsins fyrir Morgunblaðið.

Ég gerði hlaðborð með fjórum tegundum af eftirréttum og einni köku, sítrónu tarta sem líta út eins og blóm, íspinna með hvítri súkkulaðimús og hindberjum, Choux au Craquelin bollur með mangó, ástaraldin geli og vanillurjóma. Hvítsúkkulaði ostaköku í eftirrétta glösum og sítrónutertu með sítrónurjómaostakremi.“

Veislur og þá sér í lagi fermingarveislur hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá Ólöfu.

„Ég sá um fermingarveisluna mína frá a til ö og var staðráðin í því að gera þriggja hæða fermingarköku alveg sjálf. Það gekk misvel enda var ég nýbyrjuð að baka en ég get sagt að þetta er eftirminnilegasta kaka sem ég hef bakað. Hún var kannski ekki sú flottasta en hún var einstaklega bragðgóð.“

Ólöf vann í bakaríi í mörg ár og hefur gert ótalmargar fermingartertur.

„Ég skil vel að það getur verið erfitt að vita hvert maður á að snúa sér varðandi mat og kökur.

Hér eru nokkrar uppskriftir og hugmyndir frá mér sem að vonandi hjálpa á þessum tímum. Fermingin er skemmtilegur tími sem gerist bara einu sinni á lífsleiðinni, því er um að gera að baka og njóta!“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sítrónukaka

Þessi uppskrift er fyrir átta til tíu manns.

Innihald

240 g smjör

95 g marsípan

240 g sykur

240 g egg

234 g hveiti

10 g lyftiduft

sítrónubörkur af tveimur sítrónum

Blandið sykur og marsipani saman í hrærivél.

Bætið síðan smjörinu út í og þeytið þangað til deigið er orðið ljóst og létt.

Eggjunum er síðan bætt út í blönduna í þremur skömmtum.

Þegar þetta er komið vel saman þá er þurrefnunum og sítrónuberkinum bætt út í deigið.

Ég skipti deiginu í þrjú 15 cm form og bakaði í 25 til 30 mínútur við 170 gráður C. Enginn ofn er eins þannig að gott er að kíkja á kökuna af og til.

Krem

650 g flórsykur

250 g rjómaostur

10 g vanillusykur

60 g smjör

60 g smjörlíki

börkur af tveimur sítrónum

Rjómaostur, flórsykur og vanillusykur sett í skál og þeytt saman.

Síðan er smjörinu og smjörlíkinu bætt við og þeytt þangað til að kremið er orðið hvítt og loftkennt.

Ég skreytti kökuna með lifandi blómum, brómberjum, þurrkuðum fjólum og þurrkuðum hindberjum.

Kosturinn við þessa uppskrift er að þú getur skipt út sítrónuni og sett hvað sem er í staðinn. Svo sem hindber, bláber, appelsínubörk eða jafnvel kakó dufti og þá ertu komin/kominn með með súkkulaði-köku.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvítir súkkulaði/hindberja íspinnar

Þessi uppskrift er fyrir 12 litla íspinna.

Hvít súkkulaðimús

100 ml rjómi

200 g hvítt súkkulaði (ég notaði hvíta súkkulaðið frá Callebaut sem fæst í Hagkaup)

200 ml léttþeyttur rjómi

1 g af matarlími

Frosin hindber

Hvítur súkkulaðihjúpur

400 g hvítt súkkulaði

70 ml olía (ég notaði Isio 4)

Leggið matarlím í bleyti í eina til tvær mínútur.

Sjóðið upp á rjómanum og bætið matarlíminu við.

Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og hrærið þangað til að það er alveg bráðið.

Ef það er ekki bráðið þá getið þið sett súkkulaðið inn í örbylgju ofn í 20 sekúndur eða í vatnsbað og klárað að bræða það þannig.

Þegar súkkulaðiblandan er tilbúin þá er blandað henni varlega við léttþeyttan rjómann.

Ég mæli með að nota sleikju í staðin fyrir písk til að missa ekki loftið úr músinni.

Músinni er síðan sprautað í íspinna sílikonform (ég fékk mín í Allt í köku) með trépinnanum.

Raðið frosnum hindberjum í ís formin, smyrjið súkkulaðimúsinni yfir svo að hún hylji hindberin.

Setjið í frystinn yfir nótt.

Bræðið hvíta súkkulaðið í vatnsbaði, bætið síðan olíunni við og hrærið þar til súkkulaðið er alveg blandað saman við olíuna.

Takið íspinnana úr formunum og dýfið ísnum ofan í súkkulaðihjúpinn. Gott er að vinna hratt svo að ísinn bráðni ekki.

Ég skreytti íspinnana með vanillukremi og þurrkuðum hindberjum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvítsúkkulaðivanilluostakaka í eftirréttarglösum

Þessi uppskrift er fyrir átta til tíu glös.

Botn

Lu-kex mulið og sett í botninn á glösunum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vanillu- og hvítsúkkulaðiostaköku mús

200 g hvítt súkkulaði

400 g rjómaostur

400 ml þeyttur rjómi

Fræ úr einni vanillustöng

Bræðið hvíta súkkulaðið í vatnsbaði og blandið vanillu fræjunum við.

Þeytið rjómaostinn og hellið súkkulaðinu varlega við á meðan. Best er að hafa rjómaostinn við stofuhita.

Blandið ostablöndunni síðan varlega við þeytta rjómann.

Sprautið músinni í glösin og skreytið að vild.

Ég skreytti glösin með jarðarberjum og hvítum kexperlum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál