„Að hætta í fótbolta er risa breyting á tilverunni“

Hannes Þór Halldórsson segir það hafa verið stóra breytingu á …
Hannes Þór Halldórsson segir það hafa verið stóra breytingu á lífi hans að hætta í fótboltanum en hann er þakklátur fyrir leikstjórastarfið og öll þau tækifæri sem starfinu fylgja.

Leikstjórinn Hannes Þór Halldórsson hefur í nægu að snúast þó hann hafi lagt markmannshanskana á hilluna nýverið. Ekki nóg með að kvikmynd hans Leynilögga hafi hlotið sjö tilnefningar til Eddunnar heldur eru líka í loftinu er auglýsingar sem hann stýrði fyrir Nettó.

„Þetta var bara skemmtilegt verkefni og Hjörvar Hafliðason var með okkur í þessu. Þetta er konsept sem við þekkjum báðir vel úr bransanum,“ segir Hannes en í auglýsingunum tekur Hjörvar viðtal við ánægða viðskiptavini. „Við vorum svolítið að grípa í frasabókina. Við þurftum að ná að sækja það og svo ákveðið tónfall sem fólk notar í svona viðtölum eftir leiki,“ segir Hannes. 

Það er mikið að gera í auglýsingagerð hjá Hannesi um þessar mundir og sér ekki fyrir endann á því. „Það er bara skemmtilegt og alltaf gaman þegar það er nóg að gera.“

Viðbrigði að leggja hanskana á hilluna

Hannes greindi frá því fyrr á þessu ári að hann ferli hans í fótboltanum væri lokið. Hannes á að baki 77 leiki með íslenska landsliðinu og vel á fjórða hundrað leiki með félagsliðum hér heima og erlendis. Síðast lék hann með liði Vals og lönduðu þeir Íslandsmeistaratitlinum sumarið 2020.

Hann segir mikil viðbrigði að vera algjörlega hættur í boltanum og vera farinn að einbeita sér að kvikmyndagerðinni sem hann hefur sinnt meðfram fótboltaferlinum síðastliðinn áratug. 

Hannes greindi frá því fyrr á þessu ári að hann …
Hannes greindi frá því fyrr á þessu ári að hann væri hættur í fótbolta. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Það er alltaf einhver söknuður að einhverju leyti. Að skilja eftir svona stóran hluta af sjálfum sér. Að hætta í fótbolta er risa breyting á tilverunni. Sjálfsmyndin breytist og það er erfitt fyrir marga að hætta í fótbolta. Ég er rosalega lánsamur að hafa þetta starf, sem ég hef eiginlega beðið eftir að geta sinnt af fullum krafti í einhvern tíma,“ segir Hannes. 

Hann segir tilfinningarnar blendnar en finnur fyrir ákveðnum létti að geta gert allt það sem hann gat ekki gert á meðan hann var í fótboltanum. 

Velgengnin vegur upp á móti söknuðinum

Kvikmyndin Leynilögga er fyrsta kvikmynd Hannesar í fullri lengd og er Hannes tilnefndur til Edduverðlaunanna sem leikstjóri ársins. Kvikmyndina vann hann sama sumar og hann landaði Íslandsmeistaratitlinum með Val. Hann segir viðtökurnar hafa komið skemmtilega á óvart.

„Það var alveg æðislegt. Ég verð að viðurkenna það. Velgengni þessarar bíómyndar hefur farið langt fram úr væntingum, bæði hér heima og erlendis. Bæði fær hún góða dóma og boð á kvikmyndahátíðir erlendis og svo viðtökurnar hérna heima,“ segir Hannes spurður hvernig tilfinning það hafi verið að sjá nafnið sitt á lista yfir leikstjóra ársins.

Hannes er tilnefndur sem leikstjóri ársins.
Hannes er tilnefndur sem leikstjóri ársins.

„Ég er núna á faraldsfæti að fylgja henni eftir. Það er náttúrulega eitthvað sem ég gæti ekki verið að gera ef ég væri enn í fótboltanum. Það er alveg ný upplifun og frábært að geta flotið á þeirri bylgju.“

Velgengnin kom ekki síst á óvart vegna þess að kvikmyndin er talsvert ólíkari því sem tíðkast hefur í íslenskri kvikmyndagerð síðustu ár. 

Við tökur á fyrstu kvikmynd Hannesar í fullri lengd, Leynilögga.
Við tökur á fyrstu kvikmynd Hannesar í fullri lengd, Leynilögga.

Vekur athygli erlendis

Hannes vakti heimsathygli þegar hann varði vítið fræga frá Lionel Messi á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Rússlandi árið 2018. Spurður hvort hann geti flexað því í samtölum erlendis hlær Hannes og segir að það komi bókstaflega upp í hverju einasta samtali á kvikmyndahátíðum og öðrum bransaviðburðum. 

„Það er náttúrulega það sem gefur mér ákveðna sérstöðu. Ég var ekki endilega besti markmaður í heimi og ég er ekki besti kvikmyndagerðamaður í heimi. En það eru ekki margir sem hafa gert bæði, þannig að fólki finnst þetta áhugavert,“ segir Hannes. 

Hann segir það hafa hjálpað þeim að markaðssetja Leynilöggu erlendis að kvikmyndin hafi verið tekin upp á sama tíma og hann var að spila í efstu deild og vann Íslandsmeistaratitilinn. Þar að auki hafi kórónuveirufaraldurinn haft áhrif og því þyki sagan af því hvernig allt náði að smella saman skemmtileg. 

„Það er náttúrulega það sem gefur mér ákveðna sérstöðu. Ég …
„Það er náttúrulega það sem gefur mér ákveðna sérstöðu. Ég var ekki endilega besti markmaður í heimi og ég er ekki besti kvikmyndagerðamaður í heimi. En það eru ekki margir sem hafa gert bæði, þannig að fólki finnst þetta áhugavert,“ segir Hannes. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Brjálað að gera og mikið framundan

Hannes er með nóg af verkefnum á sínu borði um þessar mundir og er þakklátur fyrir að hafa svigrúmið til þess að velja þau verkefni sem hann langar mest til að vinna. Auk þess að vinna að auglýsingagerð þá er hann með tvö stærri verkefni í pípunum, kvikmynd og sjónvarpssería. 

Hann vinnur nú að því að byggja upp sitt eigið framleiðslufyrirtæki og ákveða í hvaða átt hann vill fara næst. 

„Það stóra sem Leynilögga hefur í för með sér fyrir mig er að núna fæ ég tækifæri til að halda áfram og gera næsta verkefni. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni og nú er bara að ákveða hvert næsta skref eigi að vera. Ég held ég sé kominn með það og það er mikil stemning í þeim tveimur langtímaverkefnum sem ég er að vinna núna.“

Það eru bjartir tímar framundan hjá Hannesi.
Það eru bjartir tímar framundan hjá Hannesi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál