„Lífið hefur kennt mér að meta hversdagsleikann“

Kristín Ásta Kristinsdóttir ákvað að læra ljósmyndun eftir að hafa …
Kristín Ásta Kristinsdóttir ákvað að læra ljósmyndun eftir að hafa unnið á auglýsingastofu lengi.

Kristín Ásta Kristinsdóttir ákvað að láta drauma sína rætast, setjast á skólabekk aftur og læra ljósmyndun hjá Ljósmyndaskólanum. Hún hefur varla tekið eftir veðrinu né kórónuveirunni, svo gaman hefur verið hjá henni. 

Kristín Ásta ákvað að fara í nám, þar sem hana langaði að breyta til í lífinu og bæta við sig skapandi námi.

„Þá lá þetta beint við. Ég hef alltaf haft gaman af því að taka myndir. Ég hef eins alltaf haft miklar skoðanir á ljósmyndum og horfi oft á nánasta umhverfi út frá því hvernig það rammast inn. Upphaflega ætlaði ég bara að taka eitt ár en þau plön fóru fljótt út um gluggann þegar ég byrjaði í náminu.

Það er ótrúlega gaman að fara í nám á fimmtugsaldrinum þegar maður er loksins búinn að finna sína hillu í lífinu.“

Aðstoðaði fyrirsætur erlendis

Kristín Ásta hefur nánast allt sitt líf unnið með ljósmyndir.

„Ég var fyrsti starfsmaður sem var ráðinn inn hjá Eskimo, fyrir utan eigendur. Við erum að tala um tíma faxtækja og vefsíður voru það nýjasta og heitasta af nálinni.

Það var ótrúlega skemmtilegur tími. Ég hélt meðal annars utan um stelpur sem unnu sem fyrirsætur erlendis sem flestar eru orðnar mæður í dag.

Ég kynntist þeim mjög vel og foreldrum þeirra og eiga þær alltaf stað í hjarta mínu. Ég ferðaðist mjög víða sjálf á þessum tíma og bjó í París um árabil við að aðstoða rússneskar fyrirsætur með atvinnuleyfi og að fóta sig í Evrópu,“ segir hún.

Kristín Ásta á þrjár dætur sem fæddar eru árið 2001, 2006 og 2010. Hún er með BA-próf í íslensku og vann með skólanum við að velja (e. cast) fólk í auglýsingar.

„Ég vann á auglýsingastofu í tæp 10 ár sem var mjög skemmtilegur tími þar sem engir tveir dagar voru eins.

Svo skellti ég mér í ljósmyndanámið, sem er ein besta ákvörðun sem ég hef nokkru sinni tekið.“

Það er búið að vera mikið að gera í skólanum hjá Kristín Ástu í vetur, svo mikið að hún hefur varla tekið eftir kórónuveirufaraldrinum.

„Hvorki veðrið né kórónuveirutölurnar, þá hvort smitin séu á uppleið eða niðurleið, hefur haft áhrif á mig.“

Ljósmyndir eru samskiptamiðill

Kristín Ásta er ákaflega vinsæl og kannski ekki að undra þar sem hún stígur vanalega ölduna með þeim sem standa henni næst.

„Í sumar ætla ég að leysa vinkonu mína af sem á verslun. Svo þarf ég að hugsa um hvað ég ætla að taka fyrir í lokaverkefninu sem er á næstu önn en ég útskrifast eftir tveggja og hálfs árs nám um áramótin.“

Ástæðan fyrir því að Kristín Ásta er svo hrifin af ljósmyndum sem raun ber vitni er sú að þær eru svo fjölþættar.

„Sem dæmi eru þær samskiptamiðill sem notaður er af okkur flestum daglega. Ljósmyndir eru rannsóknarmiðill, skráningartæki, tungumál sem flestir geta túlkað og síðast en ekki síst listmiðill.“

Elskar framandi lönd

Þegar maður forvitnast um lífsgildi Kristínar Ástu rís mikil raunhyggjumanneskja upp í henni og hún svarar snögg upp á lagið: „Það er ástæða fyrir því að þessi spurning fær oft klisjuleg svör. Maður er ábyggilega aldrei nógu oft minntur á klisjurnar!

Lífið hefur samt kennt mér að meta hversdagsleikann, en tvær nánar mér hafa fallið frá langt fyrir aldur fram á rúmu ári. Svo það er mikilvægt að minna sig stöðugt á að reyna að hafa hversdagsleikann skemmtilegan, ekki fresta öllu sem mann langar að gera þangað til seinna og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.“

Hún veit fátt skemmtilegra en að ferðast út fyrir landsteinana og fara á staði sem ekki eru í alfaraleið.

„Eins og til Nepals eða Síberíu. Eftirminnilegustu ferðirnar hafa ekkert að gera með fín hótel eða mikinn lúxus. Ég er hrædd um að mér endist ekki ævin til að fara á alla þá staði sem mig langar til að heimsækja, en langar mjög mikið að fara til Japans! Ég elska París en þangað fór ég fyrst með pabba mínum fjórtán ára að aldri og nú síðast með skólafélögum síðastliðinn október en skólinn skipuleggur ferð árlega á ljósmyndahátíðina Paris Photo.“

Fannst nærandi að sofa í bílnum

Kristín Ásta kann að gera vel við sig og taka tíma frá í dagsskipulaginu til að hlaða batteríin.

„Það þarf ekki að vera flókið. Ég elska að liggja í heitu baði. Ég fæ flestar hugmyndir að verkefnum þegar ég fer í göngutúr með Nínu, hundinn minn, eða er ein að keyra. Við Nína fórum í smá bílferðalag austur á land í lok síðasta sumars þegar ég myndaði hampakra á þremur stöðum á landinu fyrir landslagsáfanga í skólanum og sváfum í bílnum. Það fannst mér mjög nærandi. Svo er algjör núvitund að vera ein í myrkraherberginu að stækka upp af filmu!“

Það verður spennandi að fylgjast með Kristínu Ástu fylgja draumum sínum og vonandi gefur viðtalið fleirum hugrekkið til að stökkva út fyrir boxið.

„Það er aldrei of seint að breyta til og láta bara vaða. Hvað er það versta sem gæti gerst?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál