Markmiðið er að skapa ævintýraheim

Hugmyndin að skreytingaþjónustu kom til Sigríðar Arnfjörð Ólafsdóttur, eiganda Allora bambino, þegar besta vinkona hennar tilkynnti að hún varð ólétt. Þá langaði Sigríði að gera eitthvað stórt fyrir vinkonu sína og halda heljarinnar bumbuboð. Úr varð skreytingaþjónusta sem leigir út skreytingar fyrir allar tegundar af veislum. 

Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og dafnað en Sigríður er án efa fagurkeri fram í fingurgóma þegar kemur að því að innrétta, skreyta eða reiða fram veitingar. 

Sigríður segir að þegar hún byrjaði að skipuleggja bumbuboð vinkonu sinnar hafi hún strax séð að þetta yrði ótrúlega dýr pakki og hvað þá fyrir notkun í eitt skipti.

„Þarna var ég nú þegar búin að skreyta nokkur bumbuboð áður fyrir aðrar vinkonur mínar. Það var líka alltaf dýrt að kaupa skrautið í það. Ég er hinsvegar allgjör föndrari og nytsöm svo ég var búin að geyma eitthvað af því skrauti með það í huga að nota það aftur fyrir næstu vinkonur,“ segir Sigríður.

Hún hugsaði þá með sér hversvegna það væri ekki bara hægt að leigja skrautið. Hún hugsaði að það myndi lækka kostnaðinn og væri umhverfisvænni kostur.

„Pabbi minn hefur verið algjör fyrirmynd en hann byggði fyrirtækið sitt upp frá grunni og rekur fallega og trausta bókhaldsstofu. Ég hef það frá honum, svo hugsunin mín var bara að kýla á þetta,“ segir Sigríður.

Tilgangur fyrirtækisins er að skapa töfrandi heim fyrir börn og fullorðna á viðráðanlegu verði, Allora bambino leigir og selur vörur fyrir veislur og viðburði.

„Hjá okkur færðu allt skraut sem þú leigir tilbúið. Það er að segja, það er búið að blása upp blöðrurnar fyrir þig, búið að gera blöðrubogann fyrir þig, þræða stafablöðrur á bandið og blása það upp. Í stuttu máli, við erum að einfalda þér lífið þegar þú heldur veislu, þú þarft bara að sækja, hengja upp og skila.“

Allora bambino þýðir Jæja barn á íslensku.

„Mig langaði til að hafa erlent nafn. Ég fór aðeins að leita að nöfnum á allskonar tungumálum þegar ég rakst á allora en það þýðir nokkurskonar jæja á ítölsku, eða er svona milli orð. Mér fannst það svo skemmtilegt því mér finnst jæja mjög skemmtilegt íslenskt orð.

Þar sem ég var að bjóða upp á bumbuboð eingöngu fyrst, ákvað ég að bæta við barn í lokinn svo íslenska þýðingin væri „Jæja barn“ ...ertu ekki að fara koma ?! Sem líklega flestar konur hugsa á loka metrunum. Bambino varð fyrir valinu þar sem ég á lítinn strák, annars nota þeir líka bambina sem er stelpa.“

Hvernig veislum og viðburðum eruð þið að sinna?

„Við erum með flest allt. Við tökum inn nýjar vörur hægt og rólega þegar við sjáum spurn eftir þeim. Við erum með barna afmæli, fullorðins afmæli og bumbuboð. Við vorum að taka inn skraut fyrir giftingar og erum að þreifa okkur áfram með fyrirtækjaviðburði. Þá erum við líka með staka hluti sem hægt er að leigja og þú getur alltaf sett saman þína veislu,“ segir hún.

Það er svo ótrúlega misjafnt hvernig veislur fólk heldur. Sigríður segir það alltaf vera gaman að græja veislur því þetta er alltaf svo mikið gleðiefni, fólk að koma saman til að gleðjast.

„Núna nýlega hefur mér fundist skemmtilegast að gera stóra blöðrubogann hjá okkur. Við vorum að bæta honum við úrvalið okkar og hann kemur ekkert smá vel út. Grasveggurinn okkar með stórum blöðruboga kemur svo ótrúlega vel út. Mér finnst ótrúlega gaman að gera hann. Mér finnst hann alveg svona „pinterest“ fínn og það veitir mér mikla gleði og orku í verkefnin.“

Umhverfisvænni kostur

Þjónustan sem Sigríður veitir gerir veisluna líka umhverfisvænni að því leiti að skrautið er notað aftur og aftur. Svo lækkar skreytingakostnaðurinn líka verulega fyrir veisluna.

„Flest skraut þolir miklu meira en við gerum okkur grein fyrir. Meira að segja notum við latex blöðrurnar okkar aftur. Við leggjum líka mikla áherslu á að skrautið sé sem fallegast, þær latexblöðrur sem eru sjúskaðar notum við ekki aftur. Við gerum við hlutina áður en tekið er ákvörðun um að kaupa nýja.“

Hvernig er að reka sitt eigið fyrirtæki?

„Það er ótrúlega gaman, jafn gaman og það er krefjandi. Það er nefnilega ótrúlega krefjandi eins og allir sem reka sitt eigið fyrirtæki vita. Þetta er lærdómur alla daga og stundum hugsa ég, hvað er ég búin að koma mér útí. Þetta er ótrúlega gefandi og svo miklir möguleikar. Það er gaman að sjá hvað allir taka vel í þessa þjónustu á markaðnum og eru sammála um þarna var gat á markaðnum sem við erum að uppfylla,“ segir Sigríður.

Hvernig hefur fyrirtækið þróast og stækkað?

„Í upphafi leigðum við eingöngu út bumbuboðspakka en viðtökurnar voru svo góðar að fólk fór að biðja um afmælispakka líka. Við svöruðum eftirspurninni og gerðum afmælispakka. Þá sáum við að stórt gat væri á markaðnum fyrir giftingar. Það er dýr pakki að gifta sig og þá er gott að geta minnkað kostnaðinn með því að leigja hlutina en þurfa ekki að kaupa allt. Í dag erum við með fjöldann allan af vörum fyrir nánast hvaða tilefni sem er.

Viðtökurnar hafa verið frábærar og fyrirtækið vaxið ótrúlega hratt á þessum stutta tíma sem það hefur verið til. Maður er ótrúlega þakklátur fyrir það. En það er ótrúlega krefjandi að vaxa hratt og miklir vaxtaverkir sem við reynum að svara eftir bestu getu.“

Blár bumbuboðspakki og náttúru bumbupakkinn voru fyrstu vörurnar hjá þeim. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og eru þau hvergi nærri hætt.

„Það eru ótrúlega margar hugmyndir í hugmynda bunkanum hjá okkur. Maður þarf að vera þolinmóður og vega og meta markaðinn hverju sinni áður en maður bætir við nýrri vöru en við erum spennt fyrir framhaldinu hjá okkur og öllum nýjungunum sem við munum hrinda áfram.“

Hvað bjóðið þið upp á margar vörur núna?

„Við erum með fjögur mismunandi bumbuboð, tvær mismunandi kynjaveislur. Tíu mismunandi tilbúna pakka fyrir barnaafmæl , nokkra liti á fermingarpökkum og skírnar/nafnaveislu pakka. Þá erum við með blöðruboga í þremur stærðum. Svo eru allir stöku hlutirnir sem hægt er að leigja hjá okkur og raða saman sína eigin veislu.

Þá er gaman að segja frá því að við vorum að taka inn nýtt merki sem fæst ekki hér á landi að svo stöddu. Við fáum sendinguna í september en þetta merki er ótrúlega fallegt og býður upp á fjöldann allan af fallegum diskum, glösum , servíettum sem hægt er að grípa með veislu pökkunum okkar. Við kynnum nýja merkið í lok ágúst fyrir áhugasama.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál