„Þetta verður enn stærra í ár“

Árný Björg ásamt syni sínum Hinrik
Árný Björg ásamt syni sínum Hinrik

Árný Björg er 28 ára lífeindafræðingur búsett í Reykjavík. Prjónaskapur er stór hluti af lífi hennar, annað hvort er hún að prjóna, taka myndir af prjónlesinu, tala um prjón, skrifa um prjón, hanga í prjónabúðum eða halda úti prjónasíðunni sinni á Instagram, @viralknits.

Henni finnst mikilvægt að nýta það sem sé til og sóa ekki góðu garni. Hún hefur alltaf verið dugleg að prjóna úr afgöngum sem varð til þess að afgangssamprjónshópur varð til. Árný prjónaði tæplega 85 verkefni í fyrra en 57 af þeim voru úr afgangsgarni eða 67%.

Hvaðan kom hugmyndin af afgangasamprjóni?

„Ég hef alltaf verið týpan sem reynir að nýta allt sem er til heima eða gera upp það sem er gamalt og slitið. Ég var í fæðingarorlofi árið 2020 og átti ekki mikinn pening til að fjármagna prjónaskapinn, en á sama tíma vildi ég prjóna á strákinn minn og einnig börnin sem voru að fæðast í kringum mig. Ég byrjaði að prjóna einungis úr garnlagernum heima og þá fór ég í þennan ham að nýta hvern einasta spotta.

Vík barnapeysa og Friday sweater
Vík barnapeysa og Friday sweater

Ég rak mig oft á að klára garnið áður en verkefnið kláraðist eða eiga of mikið garn eftir sem þýðir að ég hefði geta gert stærri stærð, það var svekkjandi. Ég byrjaði að skrifa niður hjá mér í prjónadagbók hvaða verkefni ég prjónaði, hvaða stærð, úr hvaða garni og vigtaði síðan flíkina á eldhúsvigtinni. Þá gat ég spáð fyrir um hvort að garnið myndi nýtast mér eða ekki. Þannig varð „afgangalistinn“ til og þar að leiðandi afgangasamprjónið sem fékk rosalega góðar undirtektir í febrúar 2021. Eftir fyrsta afgangasamprjónið plataði ég vinkonu mína hana Sigurbjörgu Mettu Sigurjónsdóttur með mér í að skipuleggja afgangasamprjónið og viðburði sem fylgja því. Í síðasta afgangasamprjóninu voru tæplega 60 kíló af afgangsgarni sem voru nýtt í verkefni sem voru hvert öðru fegurra. Stórt klapp á bakið til þeirra sem tóku þátt. Þetta verður enn stærra í ár, ég er að segja ykkur það.“

Líf romper og húfur og Kría húfa
Líf romper og húfur og Kría húfa

Hvað eru margir sem taka þátt í afgangasamprjóninu?

„Ég held að við höfum verið um 50 til 60 prjónarar í fyrsta afgangasamprjóninu en rétt undir þúsund í því næsta. Í afgangasamprjónshópnum á Facebook eru rúmlega 1.500 prjónarar í dag svo það verður gaman að sjá hversu margir taka þátt í ár.“

Inn á Facebook síðu hópsins má finna skjal, í því eru upplýsingar um fjöldann allan af uppskriftum og hversu mikið magn af garni þarf í hverja og eina flík. Það er auðvelt fyrir prjónara að vigta hvað það á mikið garn og kíkja svo á listann og sjá hvað það getur prjónað úr því sem það hefur. 

Öll fjölskyldan á peysur í stíl
Öll fjölskyldan á peysur í stíl

Afhverju er mikilvægt að nýta það sem er til?

„Af því neyslan í nútíma samfélagi er óhófleg og nær engri átt. Prjónaskapur er hluti af „slow fashion“ hreyfingunni sem hefur minni neikvæð umhverfisáhrif. Oftar en ekki gleymist garnið eða safnast upp heiman fyrir, en í september ætla prjónarar að kíkja í skápana sína, ekki kaupa meira garn og sjá möguleikana sem eru beint fyrir framan þá,“ segir hún spennt.

Skel barnapeysa
Skel barnapeysa

Hvað er það skemmtilegasta sem þú prjónar? 

„Það fer alveg eftir skapi. Ég hef ábyggilega prjónað mest af peysum svo ég myndi segja að það væri uppáhalds. Þó ég hafi ekki tölu á þeim, en það voru kannski tíu peysur eftir mig að hverju sinni í Herjólfsdal um verslunarmannahelgina. Í afgangaprjóninu geri ég mest af húfum, bleyjubuxum og romperum/samfellum.“

Árný setti sér markmið fyrir um þremur árum en hún kaupir ekkert sem hún getur prjónað. Hún segir það nytsamlegt að geta prjónað fötin sín og henni þykir ekkert betra en að geta gengið í sínu eigin handverki. Hún hefur fjallað mikið um val á garni á Instagram-síðu sinni og segir mikilvægt að fólk viti hvaða efni það er að nota. 

Árný tekur sig vel út í handprjónaðri flík eftir sjálfan …
Árný tekur sig vel út í handprjónaðri flík eftir sjálfan sig

„Garn er ekki bara garn. Þessu tönnlast ég á við allar gerðir af prjónurum. Ég kýs garn sem er ekki forþvegin ull (e. superwash) og inniheldur ekki gerviefni. Ull hefur náttúrulega eiginleika sem ég sækist í fyrir mig og mitt fólk en eiginleikarnir eru að halda á okkur hita, hrinda frá sér vökva og óhreinindum og einnig andar flíkin svo lykt festist síður í henni. Mér finnst líka gaman að pæla í vottunum og velja garn sem er gott fyrir jörðina okkar og dýrin sem ull kemur frá. Hægt er að nálgast ýmsa fróðleiksmola og skoðanir inn á Instagram síðunni minni.“

mbl.is