Þegar þú hættir að nenna að vinna fyrir nýríka kana!

Alex Suprun/Unsplash

Fyrir um tveimur áratugum lagði rúmlega tvítugur drengur land undir fót og hóf nám í flugvirkjun í Bandaríkjunum. Ævintýraljómi umlykur flugheiminn hvort sem þú ert að þjónusta farþega eða herða skrúfurnar í hreyflunum.

Þegar þessi tvítugi Íslendingur labbaði inn í flugvirkjaskólann var hann fullur af áhuga. Hann hafði alltaf haft brennandi áhuga á að búa eitthvað til. Hann var góður í smíði og hann elskaði líka skip og allt sem viðkom sjónum. Þegar vinir hans fóru í menntaskóla, eða að selja landa, fékk hann vinnu hjá Landhelgisgæslunni og svo hjá Eimskip.

Hann var lipur í höndunum enda hafði hann verið sérlega iðinn sem barn við það að skrúfa hluti í sundur og hafði með tímanum lært að skrúfa þá aftur saman án þess að þeir eyðilegðust. Hann vissi að ef hann kláraði flugvirkjanámið þá biði hans björt framtíð. Eða réttara sagt fjárhagslega björt framtíð. Hann myndi eiga fyrir salti í grautinn.

Það sem gerðist hins vegar þegar hann flutti til Bandaríkjanna var að hann kynntist betur gömlum vini föður síns. Þessi gamli fjölskylduvinur hafði numið land í Bandaríkjunum. Fyrst sem vélstjóri á skipi en síðan fór hann út í það að gera bara það sem honum þótti skemmtilegast; að gefa gömlum bílum framhaldslíf. Á þessum tímapunkti var hann kominn með sitt eigið verkstæði og átti svo mikið af varahlutum og verkfærum að hann hefði líklega getað veggfóðrað umhverfis hnöttinn með öllu dótinu sínu. Unga flugvirkjanemanum fannst þetta spennandi og fór að verja öllum sínum frítíma á verkstæðinu.

Fjölskylduvinurinn er göldróttur í höndunum og getur lagað nánast allt og búið til eitthvað úr engu. Á þessu verkstæði var hægt að læra það sem aldrei var kennt í skólanum.

Þegar kom að því að útskrifast sem flugvirki hafði hann engan áhuga á flugvélum lengur. Jafnvel þótt launin gætu fjármagnað hús með ljónastyttum, sumarfrísferðir til Honolúlú og splunkunýjan Chevrolet, og kannski gamla Corvette. Hann kláraði skólann en nennti aldrei að sækja starfsréttindin. Hann vissi að hann myndi aldrei nenna þessu. Þetta var svo leiðinlegt!

Eftir nokkrar stoppistöðvar á vinnumarkaðnum fann hann sjálfan sig úti í sveit. Hann festi kaup á nokkrum hekturum en á jörðinni var stórt hús með risastórum bílskúrshurðum. Hann sá strax möguleika á því að innrétta íbúð á efri hæðinni og nota neðri hæðina sem verkstæði þar sem hann gæti gefið gömlum bílum framhaldslíf og smíðað. Það tekur tíma að búa til íbúð en eftir að hafa farið í allnokkrar ferðir í góða hirði Bandaríkjanna var hann kominn með nægan efnivið svo hann gæti hafist handa við að innrétta. Á meðan bjó hann í hjólhýsi á lóðinni og fannst það bara fínt. Í sveitinni ríkir kyrrð og ró og þar er allt sem hann þarf. Hann á nóg af kattamat handa kettinum LjónJóni og nóg af kaffi handa sjálfum sér.

Hann er ánægður með lífið og í hans heimi er allt eftir hans höfði. Ekkert stress en heldur engin leti. Hefði hann orðið hamingjusamari ef hann hefði þurft að vinna eftir nákvæmum leiðbeiningum allan daginn hjá stóru flugfélögunum? Nei, líklega ekki. Ætti hann meiri peninga aflögu ef hann hefði gert það? Nei, líklega ekki. Getur hann unnið allan sólarhringinn í sínum verkefnum? Já, hann getur það en hann er löngu hættur að nenna að vinna fyrir nýríka kana. Honum finnst þeir svo uppskrúfaðir og leiðinlegir. Hann hefði hins vegar kannski ekki komist að þessari niðurstöðu ef hann hefði ekki farið í gegnum flugvirkjanámið! Leiðin að lífshamingjunni getur verið svo mismunandi!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »