Ákveðin störf munu hverfa í framtíðinni

María Stefanía Stefánsdóttir.
María Stefanía Stefánsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

María Stefanía er með nokkur spennandi verkefni á skrifborðinu hjá sér núna.Verkefni sem tengjast námskeiðum sem boðið er upp á hjá Mími svo sem samfélagsfræðslu fyrir flóttamenn og námskeiðið Vertu betri í tækni.

„Það er mikilvægt að efla einstaklinga í þeirri tækni sem vinnumarkaðurinn notar hverju sinni.

Íslenskt atvinnulíf er stöðugt að taka breytingum og hefur tileinkað sér í auknum mæli þær nýjungar sem einkenna fjórðu iðnbyltinguna. Gömul störf eru að hverfa og ný að verða til. Til þess að atvinnulífið geti fylgt þeim breytingum sem fram undan eru þarf í sífellu að efla færni starfsmanna með endurmenntun og fræðslu.“

Útskýra tæknihugtök á mannamáli

Fólk á öllum aldri virðist vilja verða betra í tækni að mati Maríu.

„Námskeiðið hjá okkur miðast við að aðstoða fólk í að nálgast tæknina og útskýra helstu tæknihugtökin á „mannamáli“ með það að markmiði að efla sjálfstraust gagnvart tækni. Námskeiðið er hugsað sem fyrsta skrefið inn í tækniheiminn.Við höfum bæði verið með staðnám sem kennt er hér í Mími á Höfðabakka 9 sem og fjarnám.

Námskeiðið snýr að því að upplýsa einstaklinga um möguleg áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á samfélagið og einstaklinga á vinnumarkaði. Á námskeiðinu er hæfni og færni einstaklinga hvað varðar tækni greind með tilliti til niðurstaðna stafræna hæfnihjólsins sem VR-stéttarfélag hefur þróað og hjálpar einstaklingum að greina eigin tæknifærni. Meðal þeirra þátta sem farið er yfir á námskeiðinu eru stafræn gagnavinnsla, forritun og stillingar, hagnýting samfélagsmiðla og google í starfi, leik og námi.“

Kennarar á námskeiðinu eru allir sérfræðingar í sínu fagi.

„Þeir eru vanir að nálgast nemendur á mismunandi getustigi hvað tækni varðar,“ segir María sem er verkefnastjóri námskeiðsins en ekki kennari.

Ljósmynd/Colourbox

Að þróast í takt við iðnbyltinguna

Erum við að búa til samfélag sem gerir eldra fólki okkar erfitt fyrir vegna tækninnar?

„Samfélagið okkar er að þróast í takt við fjórðu iðnbyltinguna sem á sér stað núna. Af þeim sökum er nauðsynlegt að við hjálpumst að svo enginn verði eftir. Því eru námskeið eins og Vertu betri í tækni nauðsynleg svo einstaklingar, sem ekki alast upp með tækninni eins og unga fólkið, hafi tækifæri á endurmenntun. Þannig gerum við þeim kleift að læra á tæknina og verða sjálfbjarga og þar með aukast líkur á að þeir eflist í starfi og einkalífi.

Það er einnig ákveðinn hópur ungs fólks sem hefur ekki fengið þjálfun í þeirri grunntækni sem nauðsynlegt er að hafa í atvinnulífinu sem og námi seinna meir. Námskeiðið veitir kennslu í þessari grunntækni sem nemendur eru fljótir að ná tökum á og tileinka sér.“

Hvernig er starfsumhverfi náms- og starfsáðgjafa í dag og hvaða kenningar eru vinsælar um þessar mundir?

„Starfsvettvangur náms- og starfsráðgjafa er afar fjölbreyttur. Náms- og starfsráðgjafar starfa innan menntakerfisins, á símenntunarstöðvum, vinnumiðlunum og í fyrirtækjum. Eðli verkefna í náms- og starfsráðgjöf er mismunandi eftir því á hvaða vettvangi er unnið. Náms- og starfsráðgjafar eru talsmenn sinna ráðþega og styðja þá í að ná markmiðum sínum og árangri í námi og starfi. Í hnotskurn snýst starfið um samskipti, að nálgast einstaklinginn þar sem hann er, hlusta, styðja og vinna að lausnum sem viðkomandi getur fylgt eftir.

Aukin hnattvæðing og örar breytingar á vinnumarkaði hafa leitt til breytinga á því hvernig starfsferill fólks þróast. Við náms- og starfsráðgjafar vinnum mikið eftir starfshyggjukenningu Savicas, en það tengist því hvaða eiginleikum fólk þarf að búa yfir til þess að yfirstíga þær hindranir sem kunna að birtast á síbreytilegum vinnumarkaði. Við vinnum einnig mikið með félagslega hugræna kenningu um starfsferil þar sem fjallað er um það hvernig fólk öðlast áhuga, tekur ákvarðanir og nær árangri bæði í námi og starfi. Auðvitað eru fleiri kenningar sem við vinnum eftir en fyrst og fremst er einstaklingurinn sem kemur í viðtal til okkar í brennidepli. Traust og virðing er það sem við höfum að leiðarljósi og við mætum hverjum og einum þar sem hann er staddur hverju sinni.“

Mikilvægt að vita hvað í boði er

Er mikilvægt að fólk getispeglað hæfni sína frá fagfólki í stað þess að hlusta bara á nánasta umhverfi um hvað er best að læra í lífinu?

„Ákvörðun um nám og starf er ein sú mikilvægasta sem einstaklingur tekur á lífsleiðinni. Í flóknu nútímasamfélagi þar sem ný störf og nýjar leiðir í námi verða stöðugt til getur verið erfitt að átta sig á þeim valkostum sem í boði eru. Möguleikarnir eru nær óþrjótandi og það sem helst takmarkar val einstaklinga er skortur á upplýsingum. Til að einstaklingar séu vel upplýstir um þau tækifæri sem bjóðast er nauðsynlegt að fá góða þjónustu hjá náms- og starfsráðgjöfum sem geta leiðbeint um val á námi og störfum. Vel ígrundað náms- og starfsval eykur líkur á betri afköstum í námi og starfi og farsæld í lífinu almennt. Við hjá Mími hvetjum alla sem eru í þessum hugleiðingum til að kíkja til okkar ráðgjafanna. Það er auðvelt að panta tíma á heimasíðu Mímis og svo má líka alltaf hringja.“

María Stefanía segir að öll reynsla nýtist fólki í lífinu. Þar á meðal nám.

„Þú byggir ofan á reynslu þína, þekkingu, leikni og hæfni. Í dag lifum við á tímum þar sem tækninni fleygir fram á mjög miklum hraða. Atvinnulífið er jafnframt að taka breytingum í takt við þann hraða. Nám og störf eru því að breytast. Náms- og starfsráðgjafar þurfa að vera vel með á nótunum varðandi þessar breytingar og geta leiðbeint og veitt ráðgjöf varðandi atvinnulífið og þau nám og störf sem í boði eru. Ég tel mikilvægt fyrir einstakling sem staddur er á krossgötum varðandi nám og störf að leita til náms- og starfsráðgjafa og fá ráðgjöf enda er eins og áður margt í boði.“

Raunfærnimat nokkuð sem allir ættu að skoða

Nú er þverfagleg reynsla að verða vinsælli en áður. Hvað getur þú sagt okkur um það?

„Samfélagið í dag og atvinnumarkaðurinn eru að taka miklum breytingum, við munum fara að sjá meira af því að einstaklingar skipti oftar um starfsvettvang. Það er mun sjaldgæfara en áður að fólk vinni á sama stað eða á sama sviði alla starfsævina, algengara er að ferillinn sé í stöðugri þróun. Reynsla, þekking og hæfni er farin að verða stór hluti af starfsferilsþróun einstaklings.

Með þessu móti er raunfærnimat stór hluti af starfsferilsþróun. Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Það gerir færni og þekkingu sýnilega með því að meta hana á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins. Mat á raunfærni byggist á þeirri hugmynd að nám sé verðmætt og að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað. Það að ljúka raunfærnimati getur stytt nám á ákveðnum brautum á framhaldsskólastigi, sýnt fram á starfsfærni á vinnumarkaði og hjálpað einstaklingum að hefja nám að nýju eða styrkt stöðu viðkomandi á vinnumarkaði. Hjá Mími er hægt að fara í raunfærnimat og er það þátttakendum að kostnaðarlausu hafi þeir ekki lokið námi á framhaldsskólastigi.“

Góð samskiptahæfni mikilvæg

María Stefanía telur þverfaglega teymisvinnu mikilvæga á atvinnumarkaði.

„Þverfagleg teymisvinna er ætluð í þeim tilgangi að fá fagaðila

með ólíka sérþekkingu til að vinna saman í að ná bestum árangri. Þetta er árangursrík leið til að vinna með ólík verkefni og takast á við ýmis vandamáli í starfi. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þverfagleg teymisvinna eykur árangur í starfi. En til þess að ná árangri í þverfaglegri teymisvinnu þurfa samskipti starfsmanna að vera góð. Teymið þarf að setja sér raunhæf markmið, gagnkvæm ábyrgð verður að vera fyrir hendi ásamt virðingu og trausti. Þess vegna er farið að leggja mikla áherslu á góða samskiptahæfni og að fólk eigi auðvelt með að vinna með öðrum.

Í teymisvinnu er nauðsynlegt að einstaklingar geti verið lausnamiðaðir og sveigjanlegir. Þegar horft er til skýrslna alþjóðaefnahagsráðsins um mikilvæga hæfniþætti í framtíðinni má sjá að hæfnin til að leysa úr flóknum vandamálum er einn þeirra hæfnisþátta sem atvinnurekendur trúa að muni verða mikilvægir á næstu árum. Þar sem þessir hæfniþættir sem nefndir eru hér snúa að sjálfsstjórn og persónulegri hæfni fólks er brýnt að hver og einn einstaklingur taki þátt í eigin starfsþróun, hugi að hæfni sinni og hafi þessa mikilvægu hæfniþætti sér til hliðsjónar. Með því að sækja Vertu betri í tækni má líta á það sem svo að einstaklingar séu að hlúa að sinni eigin starfsþróun og efla sig í starfi og einkalífi,“ segir hún.

María Stefanía segir að við munum sjá miklar breytingar á atvinnumarkaði vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.

„Ákveðin störf munu taka miklum breytingum og jafnvel hverfa. Mímir býður upp á þjónustu þar sem fyrirtækjum og stofnunum býðst aðstoð við að takast á við þessar breytingar. Þjónustan er í formi ráðgjafar sem fer fram á vinnustaðnum. Aukin tæknivæðing hefur áhrif á ýmis störf og kjósa sum fyrirtæki að efla starfsfólk sitt til að mæta auknum og breyttum færnikröfum í starfi. Áherslur í ráðgjöfinni sem við veitum eru meðal annars upplýsingamiðlun, fræðsla og leiðsögn sem miðar að því að leiðbeina einstaklingum við að auka sjálfsþekkingu sína, þekkingu á námsmöguleikum og færni í að velja sér hentugar leiðir í símenntun,“ segir María Stefanía.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál